131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:54]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt að hv. þm. Jón Bjarnason ætlaði að fara í allt annað mál við mig í andsvörum. Hann var búinn að tala um að ræða gamla bæinn á Keldum og missti (JBjarn: Já …) af því tækifæri.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni að ferðaþjónustan er gríðarlega mikilvæg og er sá atvinnuvegur sem við horfum hvað mest til. Hér hefur orðið aukning ferðamanna langt umfram það sem björtustu vonir gerðu ráð fyrir.

En ég vil taka það aftur fram að þetta var tímabundið framlag sem var ekkert skorið niður. Það er ekkert skorið niður framlag sem er bara tímabundið. Það er einfaldlega ekki veitt aftur, en það fara þó 250 millj. kr. til ferðaþjónustunnar á þessum liðum. Ég vil geta þess að mjög mikið fer til ferðaþjónustunnar í gegnum aðra sjóði, eins og t.d. Byggðastofnun.