131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:27]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. formaður Samfylkingarinnar, 1. þm. Reykv. n., fór hér mikinn í ræðustól og var reyndar orðinn klökkur í lokin.

Varðandi öryrkjamálið vísa ég enn einu sinni á bug öllum fullyrðingum um svik í því máli. Það var handsalað samkomulag um 1 milljarð sem er núna 1.300 milljónir. Það er samkomulagið sem var handsalað. Ég hef gert grein fyrir því máli í umræðunni í dag og ætla ekki að endurtaka það.

Varðandi heilbrigðiskerfið þá er ljóst að við verjum miklum peningum til þess. Við erum með gott heilbrigðiskerfi. Við erum að bæta það innbyrðis, eins og hv. þm. rakti reyndar. Ég þakka honum fyrir það og vil undirstrika það sem hann sagði í því efni að við þurfum að nota peningana á réttum stöðum.

Síðan er endurtekin (Forseti hringir.) fullyrðingin um að Framsóknarflokkurinn vilji ekki lækka matarverðið í landinu. Sú fullyrðing er einfaldlega röng.