131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:28]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hvers vegna í ósköpunum skyldi hæstv. heilbrigðisráðherra halda því fram að það sé röng fullyrðing að Framsóknarflokkurinn komi í veg fyrir að matarskatturinn sé lækkaður um helming? Samfylkingin styður það. Sjálfstæðisflokkurinn styður það, Vinstri grænir hafa lýst stuðningi við það í umræðum, Frjálslyndi flokkurinn styður það. Hvers vegna er það þá ekki samþykkt? Þessi mikli stuðningur þýðir auðvitað að það er bullandi stuðningur við það í þinginu.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson svaraði því í dag af mikilli einlægni og heiðarleika af hverju þetta er ekki samþykkt, af hverju Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki náð því fram. Hann sagði: „Við erum í samstarfi við annan stjórnmálaflokk um stjórn landsins. Við erum heiðarlegur flokkur. Við getum ekki knúið það í gegn sem aðrir vilja ekki.“

Það er bara staðreynd að Framsóknarflokkurinn hefur staðið þver gegn því að matarskatturinn verði lækkaður og verð á matvælum lækkað um 5 milljarða til íslenskra fjölskyldna. Hvernig í ósköpunum getur hæstv. heilbrigðisráðherra haldið öðru fram?