131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:30]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru einfaldlega staðreyndir þessa máls að gert var samkomulag milli stjórnarflokkanna um að fara í þessar aðgerðir í skattamálum sem nú hefur þegar verið farið í. Síðan var samkomulag um að skoða virðisaukaskattinn. Ég veit ekki betur en að það samkomulag sé í fullu gildi. Síðan eru endurteknar trekk í trekk fullyrðingar um að Framsóknarflokkurinn sé á móti því að lækka matarverð í landinu. Það er einfaldlega rangt. Stjórnarflokkarnir vinna eftir ákveðinni áætlun varðandi skattamál. Það hefur legið fyrir alveg síðan um kosningar. Framsóknarflokkurinn lagði fram stefnu sína í skattamálum fyrir kosningar og eftir henni hefur verið unnið í samstarfi við samstarfsflokkinn. Það er ekkert nýtt í þeim efnum.