131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:31]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrir liggur að Framsóknarflokkurinn hefur aldrei lýst yfir stuðningi við að lækka matarskattinn. Þegar stjórnmálaflokkarnir lýstu tillögum sínum í skattamálum fyrir kosningar þá voru tveir flokkar alveg afdráttarlaust með það á sinni stefnu að lækka matarskattinn. Hvorugur þeirra hét Framsóknarflokkurinn. Þetta liggur því alveg klárt fyrir. Það liggur líka fyrir yfirlýsing frá hæstv. fjármálaráðherra frá því fyrr í haust að það væri vegna fyrirstöðu í Framsóknarflokknum sem matarskatturinn verður ekki lækkaður.

Frú forseti. Hæstv. ráðherra sagði áðan að hann hefði ekki brotið loforð gagnvart öryrkjum vegna þess að hann hefði aldrei lofað þeim meiru en milljarði. Ég get ekki af orðum hæstv. ráðherra dregið aðra ályktun en þetta sé rangt því hæstv. ráðherra sagði í viðtali við DV eða þar er alla vega haft eftir honum innan gæsalappa:

„Það er ljóst að það vantar þarna upp á og miðað við þá peninga sem ég hef, 1 milljarð króna, get ég ekki farið í nema tvo þriðju núna.“

Ef milljarður eru tveir þriðju, hvað eru þá þrír þriðju? Hv. þm. Birgir Ármannsson er fljótur að reikna það. Það eru 1.500 milljónir.

Því er alveg ljóst miðað við þá reikningskúnst sem við öll lærðum í barnaskóla að hæstv. heilbrigðisráðherra er hér að segja að það sem þetta samkomulag kostar sé að tveimur þriðju 1 milljarður og að þremur þriðju þar með 1.500 milljónir. Þetta er nú ekki flókið.