131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:34]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hvað er að svekkja hv. þm. Birgi Ármannsson? Hvers vegna kemur hann svona svekktur og önugur upp í ræðustól ef það er svo að sökum atbeina hans og félaga hans í Sjálfstæðisflokknum sé búið að búa til hérna bestu veröld allra veralda? Gæti verið að skýringin á því sé sú að hann, líkt og skein í gegnum ræðu hæstv. fjármálaráðherra þegar hann mælti fyrir skattalagafrumvörpum sínum, hefur ekki fulla trú á því að dæmið gangi upp? Kynni að vera, vegna þess að hv. þingmaður er skynugur og hefur góða þekkingu á efnahagsmálum, að hann renni í grun um að aðvörunarorð fjölmargra sérfræðinga séu rétt, að aðvörunarorðin um að þessar skattalækkanir og aðgerðir sem verið er að grípa til kunni að setja það mikla þenslu í efnahagslífið að verðbólgan fari úr böndum og ríkisstjórnin missi stjórn á málunum? Gæti það verið?