131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:35]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki missi ég svefn yfir því að þessar skattalækkanir valdi óhóflegri þenslu og setji efnahagslífið á hliðina. Ég held að þessar skattalækkanir séu jákvæðar, muni leiða til aukins kaupmáttar alls almennings í landinu og skila þjóðarbúinu miklum árangri þegar til lengri tíma er litið.

Við skulum aðeins velta fyrir okkur hvernig málflutningur stjórnarandstöðunnar er. Nú heitir það svo að skattalækkanirnar eigi að setja allt á hliðina í efnahagsmálum. Maður veltir þá fyrir sér hvort ráðið sé þá að stilla skattheimtustigið hátt nú þegar góðæri ríkir og hagvöxtur (Gripið fram í.) er mikill. Hvernig ætlar hv. þm. Össur Skarphéðinsson að bregðast við þegar tekjurnar dragast saman í þjóðfélaginu, búið er að stilla skattheimtuna hátt og búið er að stilla útgjaldastigið hjá hinu opinbera hátt?