131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:45]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert hvernig hv. þm. telur vera svigrúm til skattalækkana þrátt fyrir allt en hann hefur engar áhyggjur af því þegar hann gefur eftir af ríkistekjunum hvernig eigi að bregðast við þegar hagvaxtarskeiðinu lýkur eða hægir á hagvextinum. Hann hefur hins vegar miklar áhyggjur af því þegar um er að ræða skattatillögur stjórnarinnar.

Hitt atriðið sem ég vék aðeins að í fyrri ræðu minni er að það gengur auðvitað ekki að stjórnarandstaðan beri ítrekað einfaldlega saman niðurstöður fjárlaga og hins vegar endanlegar tölur úr ríkisreikningi. Hverju er sleppt í þessum samanburði? Í fyrsta lagi er fjáraukalögunum sleppt. Í öðru lagi ýmsum óreglulegum liðum, t.d. gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga sem á árinu 1989 námu 61 milljarði. Í þriðja lagi er auðvitað öllum tekjum af sölu ríkiseigna sleppt í þessum samanburði.

Þegar tekið hefur verið tillit til þessa er niðurstaðan sú að frá árinu 1998 er afgangurinn 95 milljarðar.