131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:46]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir vænt um þann hv. þingmann sem hér var að tala en hann var heldur seinheppinn í ræðu sinni. Hv. þingmaður segir fullum fetum að ekki sé hægt að bera saman þá áætlun sem kemur fram í fjárlögum og ríkisreikning. Þetta geri ég þó í krafti fjárreiðulaganna sem voru samþykkt 1996 og fyrir þeim var mælt af núverandi hæstv. fjármálaráðherra. Þá sagði hann orðrétt, með leyfi forseta:

„Breytingin hefur það í för með sér að áætlanir fjárlaga og niðurstöður ríkisreiknings verða að fullu samanburðarhæfar … “ (BjarnB: Hvað stendur í fjárreiðu…?)

Er hv. þm. Bjarni Benediktsson að segja það að hæstv. núverandi fjármálaráðherra, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hafi haft rangt fyrir sér? Er hann að segja að heill kafli í síðustu skýrslu Ríkisendurskoðunar sem fjallar einmitt um þetta sé rangur? Þar segir: „Tekið skal fram að gert er ráð fyrir að ríkisreikningur verði færður með sama hætti og því verði áætlanir fjárlaga og niðurstöður ríkisreiknings að fullu samanburðarhæfar.“ (Gripið fram í.)

Má ég svo, frú forseti, biðja um að ég fái málfrið (Forseti hringir.) fyrir hv. 2. þm. Norðaust. og forseta þingsins?