131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:35]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nöturlegt, þetta er hrikalegt, voru orð hv. þingmanns þegar hann rakti það hvað hefur gerst á Íslandi. Og það er nöturlegt að heyra það þegar hv. þingmaður harmar þá veröld sem var, harmar það að sú veröld skuli ekki enn þá vera hér á Íslandi þegar allt var í verðlagshöftum, þegar alþýða manna og allt þjóðlífið var bundið vilja pólítíkusa og allt skyldi standa og falla eins og einhverjir sósíalistar gátu ímyndað sér að helst mundi ganga fram.

Það er nefnilega þannig, hæstv. forseti, að við höfum gjörbreytt þessu þjóðfélagi, það er alveg rétt. Við höfum opnað það, við höfum gert það frjálst, við höfum opnað viðskiptin og áhrifin hafa ekki látið á sér standa. Gríðarlegt afl hefur verið leyst úr læðingi og þjóðfélagið hefur vaxið hraðar og meira en nokkru sinni fyrr sem hefur haft mjög mikinn tekjuauka, gríðarlegan tekjuauka sem hefur streymt inn í þetta land. Og nú harma menn það sem skelfilegan hlut að hér skuli vera til einhverjir auðmenn. Væri ekki betra að þeir væru þá allir erlendis? Liði þá ekki öllum betur? Sænska skattkerfið sér um það að enginn einasti auðmaður Svíþjóðar býr í Svíþjóð. Þeir búa allir annaðhvort í Bretlandi eða í einhverjum skattaparadísum. Væru menn betur staddir þar?

Skýrsla Sameinuðu þjóðanna um jöfnun lífskjara liggur fyrir og það liggur fyrir að Noregur og Ísland eru þau ríki þar sem jöfnuður er mestur. Eitt ríki er með meiri jöfnuð, það er Slóvakía þar sem allir lepja dauðann úr skel eins og fleiri ríki þar í kring og hafa ekki getað jafnað sig eftir áratugastjórn svokallaðra sósíalista.