131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:41]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það deilir enginn um það að Íslendingum hefur vegnað vel og hér hefur verið uppgangur í efnahagsmálum meira og minna frá því að við fórum að þokast upp úr hinni löngu kreppu 1994. Eins og við rifjum stundum upp var það gamli, góði sjávarútvegurinn sem byrjaði að skrúfa okkur upp úr þeirri kreppu með úthafsveiðum og góðum vertíðum í uppsjávarfiski.

Það er líka staðreynd að menn hafa hér haft þá pólitík, hagstjórnarlist og skattstefnu að misskipting hefur aukist mjög á Íslandi. Það hefur dregið hratt í sundur milli þeirra sem mest hafa og hinna sem minnst hafa, það er bara staðreynd. Á hlutfallslegan mælikvarða eru þar að gerast stórstígir hlutir. Menn geta rifist um hvort það sé viðeigandi við svona aðstæður að tala um svokallaða hlutfallslega fátækt en það er þó staðreynd að á þann hefðbundna viðurkennda mælikvarða, að skoða hvað þeir hafa hlutfallslega sem lakast eru staddir, hefur sú fátækt aukist á Íslandi.

Mikill hagvöxtur, kaupmáttaraukning, já, en ég hef verið ólatur við það, það er rétt — menn geta kallað það svartsýni, bölmóð eða hvað þeir vilja — að ég hef iðulega á undanförnum árum reynt að vekja athygli manna á því að það sé háskalegt að hve miklu leyti þetta er tekið að láni, að hve miklu leyti við tökum út lífskjörin fyrir fram með skuldsetningu þjóðarbúsins, út á við, með skuldsetningu heimila, atvinnulífs og sveitarfélaga. Það er það sem þetta m.a. snýst um. Ég hleyp bara ekkert frá því. Ég stend við það sem ég hef sagt bæði hér og nú og fyrr um þá hluti. Stjórnvöld bera alltaf mikla ábyrgð við svona aðstæður, þótt ekki sé nema með þeim skilaboðum sem þau senda. Áhrifamiklir menn eins og Greenspan mega ekki mismæla sig, þá fellur gengið. Bush felldi japanska jenið þegar hann var þar í heimsókn og ruglaðist á tveimur orðum. Hann ætlaði að tala um vandann sem væri samfara verðhjöðnun í Japan en talaði óvart um gengið.