131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:43]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með það hvernig hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði til þeirra sem hafa ágætis- eða góðar tekjur og hef ákveðnar áhyggjur af því að hv. þingmaður missi svefn ef einhverjum hér í þjóðfélaginu gengur vel. Mig langaði þó til að víkja að öðru og leiðrétta það sem kom fram í máli hv. þingmanns.

Hann talaði um að skattkerfið hér væri þannig að við værum að færast í þá átt að gera tekjuskatt flatan, að skattkerfið væri að fletjast út. Ég hef reiknað út hversu hátt hlutfall launa sinna ýmsir launamenn greiða. Þegar allt er tekið saman greiðir maður með 100 þús. kr. í mánaðarlaun 8% af launum sínum í skatt. 150 þús. kr. maðurinn greiðir 17,2% í skatt. 500 þús. kr. maðurinn greiðir 30% í skatt og milljón króna maðurinn greiðir 32,7% í skatt. Þetta segir okkur að maðurinn með 500 þús. kr. í mánaðarlaun greiðir þá 18-faldan skatt þess sem er með 100 þús. kr. í laun á mánuði þrátt fyrir að laun hans séu einungis fimm sinnum hærri. Maður með eina milljón á mánuði greiðir nærri því 13-faldan skatt þess sem hefur 150 þús. kr. í laun á mánuði þótt laun hans séu einungis ríflega sex sinnum hærri. Þetta breytist náttúrlega ekki meðan persónuafslátturinn er til staðar.

Svo tala menn um að það sé enginn jöfnuður í skattkerfinu. Menn tala um að tekjuskattur einstaklinga sé því sem næst flatur. Enn fremur tala menn um það að málflutningur annarra sem hafa tekið þátt í umræðunni sé ódýr, menn sem hafa ekki einu sinni fyrir því að reikna hlutina út áður en þeir halda einhverri vitleysu fram í ræðustól.