131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:50]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er aðallega vegna þess að þetta er svo sjálfgefinn hlutur. Þeir sem eitthvað hafa skoðað og kynnt sér skattkerfi vita að ef það er annaðhvort byggt upp á þrepum eða skattleysismörkum koma sjálfkrafa út svona prósentur þegar þessir hlutir eru reiknaðir. Það er ekki fyrr en vægi skattleysismarkanna minnkar verulega sem þessar prósentur fara að fletjast út og allir menn færast nær og nær því að borga hámarksskattprósentuna.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn átti sig á því að tekjujöfnunin og aðstöðujöfnunin í samfélaginu gerist hvort tveggja, og á að gerast þannig að okkar dómi, gegnum það að menn greiði í samræmi við getu sína til þess í sameiginlega sjóði. Þá kemur upp spurningin: Er 100 þús. kr. maðurinn aflögufær? Er framfærslukostnaðurinn og kostnaðurinn við að lifa sómasamlegu lífi í þessu landi ekki það mikill að það sé í raun og veru óhæfa að láta mann sem hefur aðeins 100 þús. kr. greiða af því skatt á sama tíma og menn með milljónir í tekjur borga þó ekki meira en raun ber vitni?

Við skulum samt ekki gleyma hinu, að kannski kemur mikilvægari hluti jöfnunarinnar í gegnum velferðarútgjöldin, þ.e. í gegnum það að menn hafi heilsugæslu, skóla og aðra félagslega þjónustu án endurgjalds. Þar á sér mesta aðstöðujöfnunin stað (SKK: … leikskólunum í Reykjavík?) og við gagnrýnum skattapakka ríkisstjórnarinnar líka frá þeirri hlið að undirstöður samneyslunnar veikjast, velferðarþjónustunnar. Í henni er mesta aðstöðujöfnunin fólgin. Sem menn hafa lægri laun munar þá meira um að geta farið til læknis og komið börnunum sínum í nám án þess að borga sérstaklega fyrir það. Við viljum ekki af þeim ástæðum veikja undirstöður velferðarsamfélagsins með því að kasta milljarðatugatekjum fyrir borð.