131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:15]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í svo stuttu andsvari er náttúrlega alveg vonlaust að koma öllum þeim athugasemdum á framfæri sem nauðsynlegt væri við hv. þingmann. Ég verð því að biðja hv. þingmann að hinkra eftir seinni ræðu minni þar sem ég verð að eigna honum sérstakan kafla.

Það er augljóst mál að hv. þingmaður hefur ekki fylgst með umræðunni í allan dag. Í byrjun umræðunnar fór ég sérstaklega yfir þá samanburðarfræði sem hv. þingmaður taldi að umræðan væri tæmd um. Hann býður okkur enn upp á sama málflutning og boðið var upp á í 1. umr. um fjárlagafrumvarpið. Í millitíðinni hefur Ríkisendurskoðun gefið út bók, skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings árið 2003. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt fyrir hv. þingmann að kynna sér sérstaklega 3. kaflann sem heitir Reikningsskilaaðferðir. Sá kafli er augljóslega skrifaður til heiðurs hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, og lærisveina hans um það hvað má bera saman og hvað má ekki bera saman. Til þess að vita það er algjörlega nauðsynlegt (Forseti hringir.) að lesa þennan kafla í þaula. Ég get aðstoðað hv. þingmann (Forseti hringir.) við að fara yfir kaflann ef hann hefur áhuga á.