131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:18]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Heilbrigð skynsemi á að sjálfsögðu alltaf við, en við höfum lög, reglur og ákveðna samanburði sem eru nauðsynlegir þegar við berum saman hluti. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður hefur greinilega ruglað þessu öllu saman, vegna þess að auðvitað eru fjárlög sett og fjáraukalög. Við erum að tala um að niðurstaða fjáraukalaganna eigi að standast og vera sem næst ríkisreikningi. Það hefur farið forgörðum, því er nú verr og miður.

Þau viðhorf sem hv. þingmaður lýsir og hæstv. fjármálaráðherra hefur því miður einnig gert er lýsandi dæmi um hvernig áætlanagerðin er hugsuð. Því miður virðist meiri hluti á þinginu líta þannig á að hinir svokölluðu óreglulegu liðir eigi að vera einhverjir liðir sem hægt sé að leika sér með til að tryggja að við getum haft glansmynd á fjárlagafrumvarpinu og í fjárlögum og svo sé ríkisreikningurinn eitthvað allt annað.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur þó sagt það í umræðunum í dag að þetta sé fyllilega sambærilegt og eigi að vera það, þ.e. ríkisreikningurinn og fjárlögin. Það er nákvæmlega sem það er og nákvæmlega þetta sem við höfum borið saman.