131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:19]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem vísað var til, hafi í umræðum um málið bent á að skýrslan staðfesti að endanlegur ríkisreikningur og fjárlögin séu einmitt sambærileg, öfugt við það sem málflutningur hv. þingmanns gengur út á. (Gripið fram í.)

Ég leyfi mér að spyrja í þessu samhengi: Ef ríkisfjármálin hefðu verið þannig þau ár sem vísað er til í umræðunni, að afgangurinn hefði verið neikvæður upp á 90 milljarða, hvernig í ósköpunum hefði þá ríkið átt að greiða svona mikið í lífeyrissjóðina? Hvernig í ósköpunum hefði þá ríkisreikningurinn átt að geta sýnt þann afgang sem gert hefur verið? Hvernig í ósköpunum hefðu menn þá getað haft svigrúm til þess að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir og bæta kjörin eins og gert hefur verið, hækka launin o.s.frv.?