131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:29]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli hv. þingmanns á því að vaxtagjöld ríkissjóðs, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, hafa verið að lækka ár frá ári. Það er vegna þess að menn hafa verið að greiða niður skuldir. Það er alveg rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að það eru vissar ástæður til að hafa áhyggjur og skiptir miklu hvernig haldið er á spilunum.

Það sem ég gagnrýndi einkum í málflutningi hv. þingmanna Vinstri grænna er að ég hef ekki heyrt tillögur um hið aukna svigrúm sem myndast út af hagvaxtarskeiðinu sem við erum að fara inn í, lengsta hagvaxtarskeiði sögunnar eins og spáð er. Ég hef ekki heyrt að tillögurnar gangi út á að skilja þetta allt saman eftir í ríkissjóði eins og mér fannst hv. þingmaður gefa undir fótinn með að ætla að gera. Tillögur þeirra hafa fyrst og fremst gengið út á að nota allt svigrúmið til að auka útgjöld ríkissjóðs og það er auðvitað stórhættuleg stefna.