131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:30]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson lítur ansi þröngt á málið. Það sem skiptir máli eru skuldir þjóðarbúsins í heild sinni erlendis, ekki bara ríkissjóðs. Það eru skuldirnar í heild sinni. Vissulega eru lágir vextir nú en skuldirnar vaxa gríðarlega. Hvað ef yrði örlítil vaxtahækkun? Vextirnir erlendis eru nú í algjöru lágmarki. Þessi gríðarlega skuldasöfnun sem nú á sér stað … (Gripið fram í: Og eignaaukning.) Eignaaukning. Það verður ekki eignaaukning þegar 60% af viðskiptahallanum eru vegna neyslu. (Gripið fram í.) Ég tel að skattalækkanir í því umhverfi séu afar óskynsamlegar.

Ég vil bara spyrja hv. þingmann: Hvaða áhrif mundi það hafa á þjóðarbúskapinn ef vextir hækkuðu erlendis um 2%, á þeim skuldum sem þjóðarbúið ber erlendis? Er engin ástæða til að hafa áhyggjur af því? Við búum hér við pappírshagvöxt. Það er ekki nema að litlum hluta hagvöxtur vegna raunaukningar á þjóðarverðmætum.