131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:32]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þingmaður virði það við mig að ég get ekki slegið á hve mikil áhrif 2% hækkun vaxta mundi hafa á skuldirnar. (JBjarn: En málið er áhrifin.) Ég held að ég hafi komið því ágætlega til skila í máli mínu að það skiptir máli hvernig haldið er á þeim tækjum sem við höfum til að stýra ríkisfjármálunum. Mér finnst það bara endurspeglast í máli hv. þingmanns. Þess vegna skil ég ekki þá stefnu að gjörnýta svigrúmið sem myndast við tekjuaukninguna sem verður til á næstu árum.

Ég neita að trúa öðru en að hv. þingmaður sé sammála því að stórkostleg aukning verði á tekjum ríkissjóðs á því hagvaxtarskeiði sem fram undan er. Ég skil ekki hvernig hv. þingmenn Vinstri grænna geta kynnt þá stefnu hér að ekki megi skila þessu aukna svigrúmi til almennings heldur eigi að nota þetta allt á vettvangi ríkissjóðs. (JBjarn: Þetta er skuldasöfnun erlendis.)