131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:33]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Þessa dagana er verið að setja hinu opinbera fjárhagsramma fyrir næsta ár. Miklu máli skiptir að vanda til verksins. Síðasti ríkisreikningur sem við höfum undir höndum er ríkisreikningur fyrir árið 2003. Það ár var gert upp með 6,1 milljarðs kr. halla. Sömuleiðis var halli árið 2002. Ef að líkum lætur er útlit fyrir að árið 2004 verði gert upp réttu megin við strikið, sem væri í fyrsta sinn frá árinu 2001.

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2005 var kynnt með 11,2 milljarða kr. afgangi en í meðförum fjárlaganefndar hefur sá afgangur minnkað. Útgjöld hafa verið áætluð meiri, þ.e. tæpir 2 milljarðar kr., og sömuleiðis hafa tekjur verið áætlaðar meiri. Ef þróunin verður með svipuðum hætti og undangengin ár mun afgangurinn að öllum líkindum minnka þegar á líður og verða líklegast enn minni þegar lokafjárlög liggja fyrir.

Í allri umræðu um fjármál hins opinbera, skattahækkanir og -lækkanir, er rétt að líta um öxl, horfa yfir farinn veg og skoða hvernig gengið hefur á umliðnum árum. Vert er að skoða hvernig Sjálfstæðisflokknum hefur gengið að halda kúrs í þeim málum sem varða útgjöld hins opinbera. Ef við skoðum þau frá árinu 1991 þegar flokkurinn tók við völdum hafa útgjöld hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, vaxið. Þau hafa vaxið gífurlega sem hlutfall af landsframleiðslu, þ.e. um heil 5% sem er gífurlega mikið.

Menn hafa talað um að báknið eigi að fara burt. En báknið hefur vaxið og ekki ber á öðru en að flokkurinn sé sífellt að auka báknið. Ég minni á síðasta ævintýri flokksins í að auka báknið. Þar var verið að ríkisvæða sjónvarpsstöðina Skjá einn. Landssíminn tók þátt í þeirri ríkisvæðingu þannig að flokkurinn er samur við sig. Hann boðar minni afskipti en þau verða alltaf meiri og meiri. Afskiptin hafa aukist sem hluti af þjóðarframleiðslu.

Af og til eru þó fyrirtæki í eigu ríkisins afhent velunnurum flokkanna og vert að rifja upp í þessum ræðustól að ekki hafa fengist upplýsingar um ýmsar gjafir, svo sem um hvaða málamyndaverð var sett á hlut Landsbankans í VÍS þegar það fyrirtæki var afhent einum velunnara stjórnarflokkanna.

Það er vert að fara yfir það að menn hafa talað um mikla hægri stefnu. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talar um að Sjálfstæðisflokkurinn sé hægri flokkur. Ég er ekki tilbúinn að skrifa undir það vegna þess að stjórnmálaflokkar eru metnir til hægri og vinstri eftir því hvaða umfang þeir vilja að hið opinbera hafi í þjóðlífinu. Ef við skoðum tölur yfir það þá kemur skýrt fram að mikill vöxtur hefur orðið á starfsemi hins opinbera sem hluta af þjóðarframleiðslu í valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Af því leiðir að Sjálfstæðisflokkurinn er vinstri flokkur. Ég hef hlustað á hv. þingmenn flokksins, t.d. hv. þm. Bjarna Benediktsson. Ég gat ekki heyrt betur en að hann væri hvað eftir annað að hreykja sér af auknum ríkisútgjöldum á hinum og þessum sviðum. Þessi málflutningur fer ekki saman við það að báknið sé að fara í burtu, þegar menn auka sífellt ríkisútgjöldin.

Það er óneitanlega skrýtið að verða vitni að því að vinstri flokkurinn, Sjálfstæðisflokkur, berji sér á brjóst núna þegar hann skilar örlitlu af sköttunum til baka til fólksins í landinu. Ég held að það séu um 4–5 milljarðar kr. á næsta ári.

Við í Frjálslynda flokknum erum ekki sátt við hvernig þeir skila þessum upphæðum til landsmanna. Við hefðum skilað þessum sköttum öðruvísi. Við höfum gagnrýnt það hvernig þeir ætla að skila þeim peningum til baka. Þeir hafa fjármagnað eyðslu sína og aukið tekjur sínar umliðin ár, m.a. með því að skerða barnabætur. Nú á að skila einhverju af því aftur en ekki fyrr en eftir tvö ár. Ég hefði talið eðlilegra að fylgja þeirri leið sem við í Frjálslynda flokknum lögðum til um skattbreytingar, þ.e. að hækka skattleysismörkin. Slíkt hefði nýst fólkinu í landinu jafnt. Nei, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn ákveða að skila þeim peningum sem þeir hafa haft af fólki að mestu til þeirra sem hafa hæstu tekjurnar. Við erum þessu ósammála.

Ég vil vitna í einn ágætan þingmann, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún lýsti því hvernig ríkissjóður aflar tekna. Hið athyglisverðasta sem fram kom í máli hennar, að því er mér fannst, var að 29 þúsund skattgreiðendur hafa undir 100 þús. kr. á mánuði og eru skattlagðir af ríkinu. Ríkið nær af þessu fólki, sem hefur mjög lágar tekjur — ég held að við getum öll verið sammála um það sem erum hér inni að það séu lágar tekjur — 2 milljörðum kr. Það má eflaust byggja sendiráð og fínerí og flottheit fyrir þessa 2 milljarða en ég hefði farið aðra leið.

Við í Frjálslynda flokknum teljum, og ég finn ákveðinn samhljóm hjá stjórnarandstöðunni um þá skoðun, að ef fara ætti í skattalækkanir — þótt þingmenn Vinstri grænna hafi kannski verið skeptískir á skattalækkanir — þá væru menn miklu viljugri til að hækka skattleysismörkin. Það er meira vit í því. Það er í raun undarlegt að sjá eyðsluútþenslu ríkisins, ef við horfum á tölurnar sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir birti okkur. Útþenslan er jafnvel byggð á skattfé af þeim sem minnst hafa í landinu. Það er náttúrlega ótækt. Það að vera vinstri flokkur, eins og Sjálfstæðisflokkurinn, á kostnað smælingjanna í landinu finnst mér alveg furðulegt.

Það má segja að stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, séu samir við sig með stjórnlyndi og hálfstalíníska stjórnarhætti. Þeir vilja t.d. binda niður kvótakerfið, bæði til sjávar og sveita. Þeir njörva niður atvinnulífið þrátt fyrir að allar skýrslur, hagtölur og hvaðeina bendi til að það að njörva atvinnulífið niður skili ekki nokkrum sköpuðum hlut. Hvað sjávarútveginn varðar þá er það augljóst að kvótakerfið, sem var sett á til að byggja tímabundið upp fiskstofna, sett upp tímabundið, hefur ekki náð að byggja upp fiskstofna í kringum landið. Það verður ekki nógu oft tekið fram að þorskaflinn er helmingi minni nú en fyrir daga kerfisins. Samt er það heilagt hjá stjórnarflokkunum að halda í kerfið. Þeir eru hræddir við að ef því yrði eitthvað hnikað þá færi bara allt á hliðina. Kerfið er það vitlaust að það stendur ekki steinn yfir steini í röksemdafærslunni fyrir því.

Það má ekki láta lítið síldarminjasafn norður í landi fá 1–2 tonn af síld við bryggjusporðinn. Nei, það má ekki. Það er stórvarasamt. Ég veit ekki hvers vegna en ég sá hv. þm. Birki Jón Jónsson færa ákveðin rök fyrir því í viðtali við DV í sumar að kerfið væri það gott að varasamt væri að láta Síldarminjasafnið í heimabæ hans fá 1,5 eða 2 tonn af síld. Ég náði ekki alveg hvort hann teldi það varasamt fyrir síldarstofninn.

Það væri réttast að hv. þm. Birkir Jón Jónsson segði okkur frá því hvers vegna ekki má láta Síldarminjasafninu þetta eftir. Hann lýsti því yfir að það væri undirstaða byggðarinnar á Siglufirði ásamt snjóflóðavörnunum. Hann taldi að ríkisstjórnin hefði byggt upp atvinnulíf og byggð á Siglufirði með Síldarminjasafni og snjóflóðavörnum. Ég man ekki hvort hann nefndi eitthvað fleira, mögulega Héðinsfjarðargöng en ég verð að minna á að það kosningaloforð var svikið. Ég hef samt sem áður ekki trú á að stjórnarflokkarnir svíki það endanlega. Ég vona að svo fari ekki. Það væri mjög vafasamt og erfitt fyrir pólitískan feril hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. Það virðist haldreipi hans, að lofa Héðinsfjarðargöngum æ ofan í æ.

Ríkisstjórnin finnur matarholur víðar. Hún fann eina drjúga hjá námsmönnum þjóðarinnar. Hún gat fundið þar 100 millj. kr. sem renna til háskólans. Það er kallað skráningargjöld en við köllum þetta þá a.m.k. furðuleg skráningargjöld, að það kosti 45 þús. kr. að skrá nemendur í skóla. Ég fæ ekki séð að það geti staðist. Þetta eru í raun ekkert annað en skólagjöld og þær 100 millj. kr. sem stjórnarflokkarnir ætla að ná í skólagjöld af nemendum eru náttúrlega þvert á allar samþykktir annars stjórnarflokksins, Framsóknarflokksins. Undir það hefur m.a. hv. þm. Dagný Jónsdóttir skrifað. Ég hef heyrt að hún ætli ekki að greiða þessu máli atkvæði sitt. Hún sér að þetta er þvert á það sem flokkurinn hefur samþykkt. Hún er yfirlýstur andstæðingur skólagjalda og með því að treysta sér ekki til að greiða þessu frumvarpi atkvæði sitt tel ég staðfest að um sé að ræða hrein og skólagjöld en ekki innritunargjöld.

Það væri mjög sérstakt ef það kostaði 45 þús. kr. að innrita nemanda í skóla. Ég hefði talið að ef það kostaði 45 þús. kr., sem er samræmt verðlag, þ.e. hinn samræmdi kostnaður í öllum þessum skólum, Kennaraháskóla Íslands, Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri, þá þyrfti að fara yfir þessa hluti og athuga hvar kostnaðurinn liggur. Ég held að menn hljóti hins vegar að sjá að þetta er hreint yfirvarp yfir hrein og tær skólagjöld.

Ég furða mig reyndar á því að Framsóknarflokkurinn sé eitthvað feiminn við að gangast við samþykktum sínum í þessu efni. Ekki vafðist fyrir flokknum að svíkja öryrkja um 500 millj. kr. Það vafðist ekki fyrir Framsóknarflokknum. Hefðu þeir þá ekki getað komið hreint fram hvað þetta mál varðar? Ég hefði talið að flokkurinn yrði meiri við að koma til dyranna eins og hann er klæddur. Þeir svíkja öryrkja og er þá ekki nærtækt að fara gegn þessari flokkssamþykkt og gera það undir réttu flaggi en ekki fölsku?

Það hefur verið sérstakt að fylgjast með umræðum í dag og bæði átakanlegt og sorglegt að fylgjast með hæstv. heilbrigðisráðherra afsaka svik sín gagnvart örykjum. Þegar maður les Morgunblaðið sem sýnt var í umræðunni í dag og skoðar málið þá nennir maður varla að rökræða það meira við framsóknarmenn. Helstu rökin gegn málflutningi hæstv. ráðherra Jóns Kristjánssonar eru orð hans sjálfs.

Það er sérstakt og átakanlegt að þurfa að horfa upp á stjórnmálamann berjast í að höggvast á við eigin orð og eigin athafnir. Hann lét mynda sig í Þjóðmenningarhúsinu og skreytti sig með myndum þaðan fyrir kosningar. Hann kemur í þennan ræðustól hvað eftir annað til að ganga á bak orða sinna. Mér finnst það mjög sérstakt.

Maður fer að velta fyrir sér: Hve langt er hægt að ganga? Öll eigum við einhvern refsskap í okkur en ég tel að hér sé fulllangt gengið. Ég verð að taka undir þau orð sem féllu í umræðunni í dag. Sömu menn og hneyksluðust á kennurum, sem mættu ekki í vinnu dagspart vegna þess að þeir voru í uppnámi vegna lagasetningar, bera síðan í bætifláka fyrir svik sem ég tel algjörlega óafsakanleg.

Hvað sem því líður tel ég rétt að ræða stuttlega annað mál, þ.e. þá breytingu sem verður á vaxtabótakerfinu. Lækka á útreikning á vaxtabótum úr 5,5% í 5% af vaxtagjöldum skulda. Vaxtabætur renna til þeirra tekjulægri og með þessari breytingu er Sjálfstæðisflokkurinn enn þá að útfæra vinstri stefnu sína á kostnað smælingjanna. Það er í raun undarlegt að fylgjast með þessu. Það verður að taka með í reikninginn að breytingar hafa orðið á fasteignaverði, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Þær eru ekki óútskýrðar, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson heldur fram, heldur eru mjög greinargóðar ástæður fyrir því.

Með breytingu, hækkun á verði fasteigna, hefur orðið eignamyndun. Vegna þess að vaxtabætur eru miðaðar við bæði tekjur og eignir hefur myndast eign og þarna er verið að raska ákveðnum grunni hjá efnalitlu fólki sem hefur reiknað með vaxtabótunum. Þessa hluti þarf að fara yfir. Þarna eru stjórnarflokkarnir enn á ný að kroppa í þá sem hafa lægri tekjurnar og færa til þeirra sem hafa hærri tekjur.

Sérstök áhersla hefur verið lögð á það í þeim skattbreytingum sem fylgja þessari fjárlagaumræðu að skila þeim sem hafa háar tekjur, hærri en 450 þús. kr., meira til baka. Þeir sem hafa lægri tekjur fá lítið sem ekki neitt. Jú, barnafólk fær eitthvað árið 2006, ekkert á árinu 2005. Þetta er mjög sérstök forgangsröðun.

Ég hefði talið vænlegra og eðlilegra að byrja á barnafólkinu og láta þá sem hafa hæstu tekjurnar bíða til 2006. Ég held að mjög margir í samfélaginu væru tilbúnir að skrifa undir þá stefnu og að hægt væri að ná almennri sátt um hana.

Hvað varðar orð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar um hina óútskýrðu verðhækkun á fasteignum þá var á honum að skilja að það væri einhver mystík í kringum það. Í raun held ég að verð á fasteignum stjórnist bara af framboði og eftirspurn. Ég verð að minna þennan ágæta þingmann á að hann er þingmaður landsbyggðarinnar. Því miður hefur orðið lækkun á fasteignaverði víða á landsbyggðinni. Ég hef a.m.k. ekki orðið var við mjög mikla hækkun á Hofsósi, Skagaströnd, Patreksfirði og víðar. Þvert á móti hefur jafnvel orðið lækkun, a.m.k. miðað við fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu. Í rauninni er lágt fasteignaverð á landsbyggðinni afleiðing af stefnu stjórnarinnar. Atvinnurétturinn í þessum byggðum hefur verið gerður að söluvöru. Með því hefur verðið á fasteignunum einfaldlega lækkað.

Á þessu ári bætti hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson um betur og lagði enn einn stein í götu þessara byggða ásamt félaga sínum hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni þegar þeir samþykktu að kvótasetja trillurnar. Það er furðulegt í ljósi þess að þessir þingmenn koma af Vestfjörðum. En það er ekki ólíklegt að kvótasetning á trillum hafi einmitt komið Vestfjörðum hvað verst. Það er mjög sérstakt og maður fer að velta fyrir sér: Hvað gengur mönnunum til? Ég átta mig ekki á því.

Ég ætla að ítreka það að í rauninni er engin mystík í kringum þetta. Fasteignaverðið stjórnast af framboði og eftirspurn og fólksflutningurinn af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar hefur enn aukið á eftirspurn eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem vafalaust hefur hækkað verð.

Að mörgu leyti er það afar sérstætt, í ljósi stöðu landsbyggðarinnar, að verða vitni að niðurskurði í hjá hinu opinbera á störfum á landsbyggðinni, m.a. í Norðvesturkjördæmi. Lagt er til að kroppa í heilsugæslustöðvar, m.a. í Norðvesturkjördæmi á sama tíma og Framsóknarflokkurinn býr til mjög merkilega skýrslu um byggðamál og atvinnumál í kjördæminu. Á sama tíma segir hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson að nú sé komið að atvinnuuppbyggingu í Norðvesturkjördæmi. Ég verð að segja eins og er, að ég finn þeirri stefnu, úr skýrslu Framsóknarflokksins og orðum hæstv. forsætisráðherra, ekki nokkurn stað í fjárlagafrumvarpinu. Alls ekki.

Ég er að velta fyrir mér hvað þau meina með þessu. Eru þetta bara orð út í bláinn, eitthvert orðagjálfur. Það er kominn tími til að menn fari að standa fyrir máli sínu. Hvað meina þeir með að láta þetta ágæta fólk úr Framsóknarflokknum sem vann þessa skýrslu — ég kannast ágætlega við marga þeirra — um atvinnumál í Norðvesturkjördæmi, vinna skýrslu sem ekkert er gert með? Mér finnst sérstakt að horfa upp á þetta. Mér finnst lítið úr þessu fólki gert með því að láta það vinna mikla vinnu og gera ekkert með hana.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson bað um niðurskurðartillögur. Ég ætla að benda á að gífurleg aukning hefur orðið á útgjöldum hinna og þessara málaflokka sem maður botnar ekkert í. Ég var með fyrirspurn um fjölda sendiherra. Þeim hafði fjölgað ógurlega. Margir sendiherranna voru staddir á Íslandi og vinna örugglega mjög þarft starf. Ég veit það ekki, en mér finnst það illa útskýrt. Hv. þm. Bjarni Benediktsson ætti að fara ofan í saumana á því. Hvað eru þessir menn að gera á launum sem virðast í kringum milljón á mánuði? Ég tel að þar gæti verið um sparnað að ræða.

Í ræðu hæstv. utanríkisráðherra komu fram ákveðin skilaboð um að kannski mætti skoða hvort utanríkisþjónustan, sem hann taldi vera óaðskiljanlegan þátt af fullveldi Íslands og skipta miklu máli að hún hefði verið efld mikið, þyrfti að fara í einhverja hagræðingu. Ég held að menn ættu einmitt að skoða þá þætti. Eins þá vitleysu, vil ég leyfa mér að segja, að sækja um sæti í öryggisráðinu. Hvað eru menn að hugsa? Hverju ætla menn að breyta í öryggisráðinu? Ég átta mig ekki á því. Ég tel einsýnt að við getum einungis tapað á því að fá sæti þarna í öryggisráðinu. Ef við fylgjum stefnu Bandaríkjamanna í einu og öllu er hætt við að við bökum okkur óvinsældir og jafnvel óvild þjóða sem utanríkisstefna Bandaríkjamanna fer á skjön við. Við gætum jafnvel orðið aðhlátursefni.

Ég minnist þess að hafa séð ágæta bíómynd þar sem við vorum talin upp sem ein af stuðningsþjóðum innrásarinnar í Írak. Þar var gert óspart grín að Íslendingum. Ég tel að við ættum að hugsa okkur tvisvar um áður en við reynum að koma okkur inn í öryggisráðið. Ég tel einsýnt að við getum í raun einungis tapað á því.

Ég tel að við ættum að skoða hvað við erum að gera með 14 sendiherra starfandi á Íslandi. Ég átta mig ekki á því. Ég hefði talið að því fé betur borgið annars staðar, m.a. í Norðvesturkjördæmi. Það er alveg með ólíkindum að horfa upp á menn búa til skýrslu og kroppa í eitt og annað í atvinnulífinu og brjóta jafnvel gegn stjórnarskránni með því að ráðast gegn atvinnustarfsemi í byggðarlagi eins og Búðardal, sem stendur höllum fæti. Þá gengur ríkisstjórnin með hæstv. landbúnaðarráðherra Guðna Ágústsson í broddi fylkingar og meinar fyrirtæki og fólki í Búðardal að starfa. Auðvitað gengur þetta á svig við stjórnarskrána. Maður hefði haldið, eftir ég hafði látið stór orð falla um að þar væri mögulegt stjórnarskrárbrot, þá kæmi hæstv. landbúnaðarráðherra fram og segði fólkinu hvers vegna hann treysti því ekki fyrir starfsleyfi. Nei, hann treystir sér ekki til að útskýra það heldur bjó hæstv. landbúnaðarráðherra til moðreyk og reyndi að fela slóðina. Það er með ólíkindum.

Það er örugglega hægt að ná fram miklum sparnaði víða í ríkisrekstrinum. Ég ætla að benda á einn lið í viðbót fyrir hv. þm. Bjarna Benediktsson, vegna þess að hann hafði áhuga á að fá leiðbeiningar. Ég tel vert að fara að skoða Ábyrgðarsjóð launa. Þar er milljarður. Ég tel að menn eigi að skoða, ef þar eru það háar upphæðir, hvort fyrirtækin í landinu kaupi sér ekki tryggingar sjálf hvað þetta varðar í stað þess að þetta sé tekið af tryggingagjaldi, jafnvel af fyrirtækjum sem standa ætíð skil á reikningum sínum. Þau greiða með gjöldum sínum launakostnað fyrirtækja sem eru sífellt að skipta um kennitölur.