131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[23:03]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég leyfi mér að taka undir orð síðasta ræðumanns. Mér finnst ekki góður svipur á þessari umræðu. Hér hefur varla sést ráðherra nema með höppum og glöppum. Það má kalla að lengsta viðveran hafi verið þegar hæstv. heilbrigðisráðherra sat hér undir skömmum í kannski eins og klukkutíma og átti það auðvitað sannarlega skilið. En hæstv. fjármálaráðherra hefur verið afar kvikur hér við og núna klukkutímum saman hefur enginn einasti fulltrúi ríkisstjórnarinnar verið á svæðinu, alla vega ekki í þingsalnum. Ég beindi þeim orðum til hæstv. forseta rétt fyrir kvöldmatarleyfi að þetta væri kannski ekki alveg sá svipur sem bestur væri á þessari umræðu. En það virðist ekki hafa komið fyrir mikið.

Mér finnst algert svartasta lágmark að einn ráðherra sé í salnum að meðaltali og sé þá til staðar til að taka við skilaboðum til hæstv. ríkisstjórnar frá þeim þingmönnum sem hér flytja mál sitt. Nú er þetta löng umræða og það hefur legið fyrir strax frá því í dag að mælendaskráin var löng og það yrði hlutskipti einhverra þingmanna að flytja mál sitt í kvöld og jafnvel inn í nóttina. Mér finnst bara lágmarksvirðing sem þeim ræðumönnum væri sýnd að einhverjir ráðherrar séu hér til staðar. Þeim getur varla verið vandara um en okkur öðrum.

Þegar hæstv. forseti tekur þannig til orða að einhverjir ráðherrar hafi þurft að víkja af fundi eða bregða sér frá þá er það nú nokkuð vægt til orða tekið því miklu nær væri að orða það eins og það er, virðulegur forseti, að allir ráðherrarnir virðast hafa þurft að bregða sér frá, allir með tölu. Það er ekki mikið skipulag á hlutunum ef þeir geta ekki haft verkaskipti þannig að einn eða tveir séu hérna til staðar.

Svo vil ég leyfa mér að rifja það upp, frú forseti, að menn hafa verið að hafa dálitlar áhyggjur af virðingu þingsins, svona einn og einn maður. T.d. höfðu forseti Alþingis, hv. 2. þm. Norðaust., og ráðherrar í ríkisstjórninni miklar áhyggjur af virðingu þingsins og sóma í sumar þegar verið var að ræða um fjölmiðlalögin. Þá spratt upp í þeim ofboðsleg þingræðisást og þeir höfðu miklar áhyggjur af því að nú væri sóma Alþingis og virðingu ekki sýnd nægjanleg athygli. En hvar eru nú þessir höfðingjar sem höfðu svona miklar áhyggjur af sóma Alþingis og virðingu? Eru þeir með verkum sínum og viðhorfum að sýna Alþingi og þeim störfum sem hér fara fram þá virðingu sem skyldi?

En þetta snýr auðvitað, frú forseti, að lokum að forsetunum. Mér finnst að það eigi að vera í valdi forsetanna að meta hvort forsvaranlegt sé að umræður fari fram við aðstæður af þessu tagi og að forsetar, sem er annt um virðingu þingsins, eigi ekki að láta bjóða þinginu að umræður fari fram við algera fjarveru ráðherra og að ráðherrarnir komist þannig upp með að sýna Alþingi lítilsvirðingu. Þetta er auðvitað ekkert annað en hrein lítilsvirðing. Ég vil því bara hvetja hæstv. forseta til að athuga hvort (Forseti hringir.) ekki sé hægt að gera ráðstafanir til að ráðherrabekkirnir séu eitthvað skipaðir en fresta ella fundi.