131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[23:54]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að stæla við hv. þm. Einar Odd Kristjánsson um þetta atriði. Ég veit að hv. þingmaður er þrjóskur að endemum. Reyndar er sá er hér stendur það líka. Ég ætla því ekki alveg að hætta núna vegna þess að hér í Stefnum og horfum frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2005 er tafla um það hvernig fjármálaráðuneytið reiknar með að magnbreyting verði á helstu þjóðhagsstærðum á næstu árum, 2005, 2006, 2007 og 2008.

Ég vek athygli á því að þetta er í fjárlagafrumvarpinu sem við erum að ræða núna. Í þessari töflu stendur: „Áætlun ársins 2004“, þ.e. er áætluð lokaútkoma ársins 2004. Það er fyrsti dálkurinn í þessari nýju töflu í nýja frumvarpinu. Þar stendur 1,5%. Alveg eins og stóð í fjáraukalagafrumvarpinu. (EOK: Innan við 2% ...) Í frumvarpi 2005 eru það 2%, 2006 2%, 2007 2% og 2008 2%. (EOK: Þetta er markmiðið.) Ég er alveg sammála hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að það verður ekki auðvelt fyrir ríkisstjórnina að halda þessu markmiði. Það var heldur ekkert auðvelt og hefur ekki verið auðvelt að gera það á yfirstandandi ári. (EOK: En tókst samt.) Ég ætla að vona, satt best að segja, að það sé niðurstaða þessa árs, þetta 1,5% sem við erum að horfa á eða innan við 2%. En ég verð þó að reka ákveðinn varnagla þar eins og reynslan, mín stutta reynsla hér á þingi hefur kennt mér því við eigum eftir að sjá ríkisreikninginn. Við eigum eftir að sjá hvernig hann lítur út. Ef hann er í svipuðum dúr og áætlun 2004, þ.e. frumvarp til fjárlaga og fjáraukalaga, ef það stenst nú á árinu 2004 þá verður þetta svona. Ef aftur á móti verða aðrar tölur í ríkisreikningi þá er ekki víst að þetta verði svona.