131. löggjafarþing — 39. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[00:18]

Þuríður Backman (Vg):

Herra forseti. Við 2. umr. fjárlaga fyrir 2004 hafa hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gert ítarlega grein fyrir áherslum hreyfingarinnar og ég þakka sérstaklega hv. þm. Jóni Bjarnasyni, sem er fulltrúi okkar í fjárlaganefnd, fyrir störf hans, framsögu og þátttöku í umræðunum, og fyrir vinnu fyrir okkar hönd að þessari fjárlagagerð.

Ég vil taka fram nokkur atriði, bæði sem flutningsmaður breytingartillagna og eins eru nokkrar áherslur sem ég tel rétt að koma aðeins betur að en gert hefur verið. Þá er fyrst að nefna að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs teljum að ekki fari vel saman að fara af stað með skattalækkanir í það umhverfi sem við erum að sigla inn í, þessa miklu þenslu, og að það eitt geti aukið þensluáhrifin. En telji ríkissjóður sig geta orðið af þessum tekjum þá teljum við rétt að yfirfæra þær til sveitarfélaganna og láta þau njóta fjármagnsins sem ríkissjóður telur sig geta verið án. Sveitarfélögin vantar sannarlega rekstrar- og framkvæmdafé og það er mikilvægt að leiðrétta það sem allra fyrst, en bíða ekki eftir þeirri vinnu sem nú liggur fyrir, en vinna að breytingum á tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga með hliðsjón af breyttri verkaskiptingu og stækkun sveitarfélaganna stendur nú yfir. Það liggur á að koma meira fjármagni yfir til sveitarfélaganna áður en einhver þeirra hafa hreinlega ekki möguleika á áframhaldandi rekstri eins og stefnir í. Yfir þetta hafa hv. þingmenn Jón Bjarnason og Steingrímur J. Sigfússon farið sérstaklega og ég ætla ekki að gera það frekar í þessari umræðu.

Í þessu sambandi má líka nefna varðandi hinar miklu stóriðjuframkvæmdir sem standa yfir og eru að flestu leyti undirrót þenslutímabilsins sem fram undan er að það var fyrirséð að með því að velja stóriðjuleiðina yrðu afleiðingarnar m.a. að draga yrði úr opinberum framkvæmdum og rekstri á velferðarþjónustunni og því erum við sannarlega að finna fyrir núna.

Áður en ég held lengra með ræðu mína vil ég fyrst nefna einn lið í fjárlögunum en það er heimildin til sölu á ríkiseignum og ríkisjörðum. Ég hef nefnt það áður að ég tel að liðurinn um sölu ríkisjarða eigi að fara út þar til mótuð verði opinber stefna um hvernig eigi að fara með ríkisjarðir, hvort heldur það eru jarðir sem eru í búskap nú eða í eyði, það verður hið allra fyrsta að móta ákveðna stefnu um hvort og þá hvernig búsetu við viljum hafa á ríkisjörðum. Það er svo hröð breyting sem er að verða hvað varðar eigendaskipti á jörðum sem hafa verið í eigu bænda, það eru uppkaup á jörðum og jarðir eru í ríkari mæli að færast á fárra manna hendur. Ég tel að þetta sé þróun sem við getum ekki látið líða hjá án þess að vera meðvituð um hvert gæti stefnt og vera þá tilbúin til að grípa inn í. Ég tel að ríkið eigi að móta sér stefnu með jarðir sínar, hvernig með þær skuli farið í framtíðinni en ekki hafa svona margar á söluskrá. Ég vil enn einu sinni ítreka þá skoðun mína.

En þrátt fyrir að hæstv. ríkisstjórn telji sig geta farið í skattalækkanir má með sanni segja að það vantar sárlega fjármagn til sveitarfélaganna, í framhaldsskólana, í háskólana, það vantar inn í heilbrigðisþjónustunnar og til þess að halda samgönguáætlun eins og hún hefur verið lögð upp og halda áfram þeim framkvæmdum sem búið var að setja á áætlun. Það vantar fjármagn til ákveðinna byggðaaðgerða, til að styrkja byggð og atvinnu í landinu. Og þegar við erum að tala um að það sé varhugaverð stefna að draga svona úr framlögum til hins opinbera þá er það mjög varhugavert að þrengja svo að þeirri grunnþjónustu, að hún skerðist þannig að allur almenningur finni fyrir því. Eitt er að fara vel með og sýna aðhald en annað er að draga svo úr þjónustunni að það komi niður á öllum landsmönnum, sem ég tel að það muni gera og þá sérstaklega innan heilbrigðisþjónustunnar. Ef fram heldur sem horfir mun þetta leiða til þess að þeir sem þurfa að nota þjónustuna verði að greiða meira eða hafi ekki efni á að nota hana, ákveðin þjónusta verði orðin það dýr að hér verði hópar fólks sem ekki hafi efni á að sækja hana. Því miður er það þannig í dag, herra forseti, að stórir hópar fólks hafa hvorki efni á að fara til tannlæknis né til sérfræðinga þar sem þjónustan er hvað dýrust.

En það er til fjármagn í landinu, það sýna allar tölur, og þá er ég ekki að tala um ríkissjóð, ég er að tala um fjármagnið úti í þjóðfélaginu. Það eru miklar fjárfestingar í gangi. Því miður eru þær ekki svo miklar innan lands, stóru fjárfestingarnar eru á erlendri grundu og þær eru svo miklar að eftir því er tekið að við erum farin að slá stór högg inn í markaðinn á Bretlandi. Í dag vita Íslendingar sem fara til London að versla varla hvort verslanirnar sem þeir fara í eru í eigu Breta eða Íslendinga.

Því miður eru þessar stóru fjárfestingar erlendis, því ef þær væru í sama mæli hér heima þá væri atvinnulífið fjölbreyttara, það væri sterkara, mun meiri nýsköpun í gangi og meiri trú á framleiðni hér á landi og þar af leiðandi mundu atvinnuhjólin snúast hraðar á víðara sviði en er í dag. Nóg snúast þau en þau virðast öll vera í sömu hjólförunum, krafturinn virðist vera á mjög þröngu sviði. En til að styrkja undirstöður í atvinnulífi verðum við að fá fjármagn inn í fleiri greinar og inn í nýsköpun og þróunarstarf sem sárvantar fjármagn. Þar þarf hið opinbera að koma að, t.d. að styrkja atvinnuþróunarfélögin og Nýsköpunarsjóð til þess að komast í gang með verkefni sem geta svo skilað okkur inn í framtíðina.

Herra forseti. Við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, höfum lagt fram á þskj. 443 tillögu um að sérstakur tekjuskattur, öðru nafni hátekjuskattur, verði hækkaður í 6% og hlutfall fjármagnstekjuskatts hækkaði úr 10% í 18%. Þetta gerum við til þess að ná inn meiri tekjum í ríkissjóð og koma til móts við hluta af þeim tillögum sem við leggjum fram sem útgjaldaliði. En þegar við lítum til sveitarfélaganna og fjársvelti þeirra hafa þau orðið að hækka þjónustugjöld á flestum sviðum, leikskólagjöldin, sorphirðugjöldin, gjöld í tónlistarskólana og fleira. Eins hafa þau orðið að fara með útsvarsprósentuna eins hátt og þeim er heimilt þó að mörg hver hafi reynt að draga úr því til að hafa áhrif á búsetu fólks og laða til sín íbúa gengur þeim sífellt verr að halda útsvarsprósentunni niðri því þau eru flest farin að safna skuldum.

Ég vil aðeins nefna einn þátt hjá sveitarfélögunum sem ég tel að við ættum að horfa til þegar við skoðum hvort ekki sé brýnt að yfirfæra fjármagn til sveitarfélaganna miðað við núverandi stöðu. Áhersla innan heilbrigðis- og félagsþjónustu er að auka þjónustu sjúklinga, fatlaðra og aldraðra í heimahúsum. Sú stefna sem er meðvitað og ómeðvitað pólitísk, a.m.k. kemur hún fram í heilbrigðisstofnunum og ekki síst á Landspítala – háskólasjúkrahúsi þar sem þjónustan miðast orðið við að senda sjúklinga sem fyrst heim, bæði til að spara og eins þykir manneskjulegra að sem flestir geti verið sem lengst í heimahúsum en til þess að það gangi upp þá verður að stórefla heimaþjónustuna svo forsvaranlegt sé að senda fólk af sjúkrahúsum eða hafa það ekki á hjúkrunar- og dvalarheimilum eins og áður þótti sjálfsagt. Hugmyndafræði getur verið góð en það þarf að fylgja henni eftir og styrkja sveitarfélögin þannig að heimaþjónustan og heimilishjálpin sé til staðar svo við höfum í framtíðinni möguleika á að draga úr áherslum á stofnanaþjónustunni og færa hana inn á heimilin. En það þýðir ekki að segja a nema segja b líka. Við leggjum því til að m.a. verði framlag til jöfnunarsjóðsins hækkað um 700 millj. kr. til að koma til móts við sveitarfélögin í núverandi stöðu.

Hvað varðar heilbrigðismálin og fjárlögin hafa útgjöld til heilbrigðismála sannarlega aukist. Sífellt er verið að bera okkur saman við OECD-löndin og að þar séum við mjög ofarlega á lista, útgjöld okkar séu há. Því miður er almannatryggingakerfi okkar þannig uppbyggt að við erum með bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð samþættar útgjaldalið almannatrygginga sem eru ekki í flestum öðrum löndum. Við erum því að bæta allverulega í samanburðarlið okkar þegar við berum okkur saman við OECD-löndin. Ég vil alla vega taka vara á því að liðurinn sé tekinn inn í samanburðartölum í samanburðinum. Þá er hætt við að við rennum aðeins lengra niður eftir listanum og getum ekki verið svona góð með okkur hvað við notum hátt hlutfall af fjárlögum okkar í heilbrigðisþjónustuna.

Ég vil benda á annað sem hefur komið fram í umræðunni, að örorkuþegum hefur fjölgað mjög ört á allra síðustu árum. Þetta er auðvitað áhyggjuefni, sérstaklega þegar maður skoðar og sér að sífellt yngra fólk fær örorkubætur eða örorkulífeyri. Reikna má með að þetta séu einstaklingar sem njóta örorkulífeyris til frambúðar eða um langan tíma. Ég tel mjög brýnt að rannsaka vel hvað veldur, hvaða orsakasamband er á milli fjölgun örorkulífeyrisþega, hvað er í grunninn því varla er það svo að einhver einn þáttur hefur þarna áhrif. Ekki hefur geisað hér lömunarveiki eða einhverjar farsóttir. Að öllum líkindum spilar ástandið á vinnumarkaðnum þarna inn í. Einnig langvarandi atvinnuleysi og upphæð atvinnuleysisbóta og eins hvað vinnumarkaðurinn er orðinn harður og óvæginn og að menn víli ekki fyrir sér að segja upp fólki sem komið er yfir miðjan aldur og hafa ekki áhyggjur af því að það fái ekki vinnu. Einhverjir slíkir samspilandi þættir hafa örugglega áhrif á að örorkulífeyrisþegum hefur fjölgað svona mikið. Því er mjög mikilvægt að skoða þættina og reyna að komast fyrir orsökina þannig að hægt sé að komast að rót vandans og nýta fjármagnið til að bæta úr, en ekki horfa á lífeyrisþegana og á útgjöldin sem aukinn lífeyriskostnaður veldur þjóðarbúinu.

Það er ekki hægt að nefna öryrkja nema að nefna Öryrkjabandalagið, og ég hefði kannski átt að koma að því fyrst í ræðu minni. Það er ekki hægt að nefna það neinu öðru nafni en svik við gefin loforð um bætur til öryrkja eins og gengið var frá í — það liggur við að maður segi margrómuðum samningi, samkomulagi milli öryrkja og hæstv. heilbrigðisráðherra um tvöfalda hækkun bóta til yngstu öryrkjanna því svo var samkomulaginu hampað og margir ánægðir með það. Ég er ein af mörgum sem lýstu ánægju með samkomulagið, að tvöfalda hækkun til yngstu örorkuþeganna en það sem lá að baki samkomulaginu var að það átti að vera línuleg hækkun upp aldursskalann og hækkunin átti að deyja út hjá þeim elstu. Það er alveg ljóst að verið var að tala um línulega hækkun og þannig voru bæturnar reiknaðar út af Tryggingastofnun og á því byggði Öryrkjabandalagið samkomulag sitt og alveg ljóst að hæstv. heilbrigðisráðherra túlkaði það þannig líka í upphafi og fyrir kosningar þó reyndin hafi orðið önnur í ríkisstjórn. Síðan þekkjum við framhaldið. Því standa allir stjórnarandstöðuflokkarnir að tillögu um að staðið verði við samkomulagið og þeim hálfa milljarði sem upp á vantar verði bætt í fjárlögin og málið verði þar með út af borðinu með afgreiðslu í fjárlögunum en ekki með málaferlum eins og stefnir í ef ekki verður gerð breyting á fjárlögunum. Sú hækkun sem er rífleg í fjárlagafrumvarpinu er vegna fjölgunar öryrkja en ekki vegna samkomulagsins.

Ég vil aðeins fara nokkrum orðum um Landspítala – háskólasjúkrahús og þann mikla rekstrarvanda sem sú stofnun hefur verið í í nokkur ár og hefur ekki mikið lagast frá sameiningu sjúkrahúsanna fyrir fjórum árum. Vonandi verður sameiningarvandinn út af fyrir sig einhvern tíma að baki. Trúlega verður það ekki fyrr en stofnunin verður komin undir eitt þak og hægt að reka hana af meiri hagkvæmni en gert er í dag. Það er framtíðin. Rekstrarvandinn er af margvíslegum toga. Komið hefur verið til móts við stofnunina með því að gefa eftir 500 millj. kr. af þeim skuldum sem stofnunin átti að greiða á næsta ári, rekstrargrunnur verði styrktur með þeim 500 millj. kr. og síðan er líka gefin eftir, og það ber að virða, 1% sparnaðarkrafa eins og gerð er á allar opinberar stofnanir. Eftir sem áður er fyrirsjáanlegt að endar munu ekki ná saman á þessu ári og telja forstöðumenn stofnunarinnar að það stefni í um það bil 600 millj. kr. halla við næstu árslok.

Ég tel miklu raunsærra að ganga frá og afgreiða fjárbeiðni stofnunarinnar við afgreiðslu fjárlagafrumvarps. Við höfum áður staðið frammi fyrir því að settar voru mun lægri upphæðir í fjárlögin en fyrirsjáanlegt var að þyrfti til rekstursins sem hefur síðar skilað sér í fjáraukalögum og minni þjónustu. Ef ekki verður bætt um enn betur er ljóst að stofnunin mun fara í einhverjar aðgerðir til að mæta vandanum. Þær tillögur sem fram hafa komið eru mér ekki allar hverjar hugnanlegar, m.a. sú að koma á innritunargjöldum og ég gladdist yfir að hæstv. ráðherra tók ekki undir þá tillögu fyrr í dag. En það þarf áfram að segja upp fólki. Það þarf áfram að reyna að hagræða og er varla hægt lengur innan stofnunarinnar öðruvísi en að koma þeim rekstri út af stofnuninni sem flokkast ekki undir bráðaþjónustu, þetta geta verið rekstrareiningar eins og endurhæfingardeildin í Kópavogi sem er nú komin í einkarekstur og reynist dýrari en áður. Það er Arnarholt sem stofnunin ætlar að loka um næstu áramót, auka á göngudeildarþjónustu og auka fimm daga þjónustu. Af mörgu þessu er óhagræði og aukin sýkingarhætta sérstaklega ef komið er á fimm daga þjónustu. Því tel ég miklu eðlilegra að komið verði strax til móts við stofnunina og framlagið hækkað og reynt að koma á ró og draga úr því mikla álagi sem er á starfsmönnunum og hefur verið viðvarandi. Ég tel að ekki sé hægt að ganga nær starfsfólkinu og sjúklingunum með stofnunina í óbreyttum rekstri. Ég tel að það sé allt að því komið að hættumörkum hvað álag snertir.

Ég vil aðeins, hæstv. forseti, nefna Arnarholt því að það á að loka þeirri stofnun nú 1. janúar 2005. Á stofnuninni voru 40 sjúklingar. Hún er staðsett á Kjalarnesi í mjög vistvænu og fallegu umhverfi. Þar hefur verið starfsemi í um 40 ár. Margir þeirra sem þar eiga heima hafa búið þar í nær 40 ár. Sumir veiktust ungir að árum en eru fullorðnir í dag. Þeir fengu ekki þá læknismeðferð sem við þekkjum nú og voru oft það veikir að þeir gátu ekki búið í þjóðfélaginu eins og læknisþjónustan og hugmyndafræðin var á þeim tíma.

Eftir nokkurra áratuga búsetu á stofnunum eru margir sem ekki geta ekki búið einir eða í sambýlum. Því tel ég að stofnun eins og Arnarholt, sem er lítil stofnun, ódýr í rekstri og mannvæn, þar sem sjúklingar hafa búið við mikið öryggi, eigi að vera til. Í þjóðfélagi okkar verða alltaf einhverjir sem þurfa þannig stað. Þetta á við um þá sem ekki eru bráðaveikir, einstaklinga sem hafa fengið heilablæðingu, lent í alvarlegum slysum eða orðið alvarlega geðveikir. Þeir flokkast hugsanlega einhvers staðar á gráu svæði milli heilbrigðis- og félagsþjónustunnar. Slíka einstaklinga munum við alltaf hafa. Ég tel heppilegt að Arnarholt verði áfram rekið fyrir þá í stað þess, eins og nú á að gera, að þvæla þeim fram og til baka um stofnanir. Þeir verða áfram á stofnunum. Sumir fara jafnvel aftur til upprunabústaðarins á Kleppsspítala, þar sem þeir hugsanlega hófu sjúkrasögu sína. Ég tel þetta vanráðið.

Ég tek undir það að starfsemin á Arnarholti eigi ekki að vera undir Landspítalanum. Hún á að vera starfrækt undir heilbrigðisráðuneyti sem sérstök hæfingar- og endurhæfingarstofnun og má vera á þessu gráa svæði á milli heilbrigðis- og félagsþjónustu. Ég held að engum sé greiði gerður með því að flytja sjúklingana, 19 einstaklinga, inn á aðrar stofnanir og jafnvel dýrari. Svo koma aðrir í þeirra stað. Hvað á að gera við þá?

Umhverfið skiptir líka máli. Það er rólegt og mannvænt og þarna hefur fólkinu liðið vel. Ég vísa því til hæstv. heilbrigðisráðherra að hann skoði málið mjög vandlega, leysi Landspítalann undan því að hafa Arnarholt í rekstri en taki sjálfur við stofnuninni og reisi hana við á ný undir þeim formerkjum að þar sé hæfingar- og endurhæfingarheimili fyrir einstaklinga sem á þurfa að halda en með það markmið að allir sem útskrifast af stofnuninni komist á sambýli. Allt tekur þetta tíma en þeir sem hafa verið skemmst þarna hafa verið þar 2–3 ár.

Varðandi heilsugæsluna í landinu þá býr hún við það, eins og aðrar heilbrigðisstofnanir, að hafa þurft að sýna mikið aðhald í rekstri. Allt sem heitir þróunarstarf, nýmæli og aukin þjónusta hefur setið eftir. Það hefur verið hægt að sinna því allra brýnasta. Ég er ekki að segja að það hafi komið niður á heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar hafa komist til læknis og hvað heilsuverndina varðar þá hefur hún verið veitt. En þetta hefur allt saman verið undir pressu á að spara og hagræða. Lítið svigrúm hefur gefist til að fitja upp á nýjungum eða þróun.

Ég held við séum öll sammála um að heilsugæslan eigi að vera fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðisþjónustunni. Hún á að hafa möguleika á að veita víðtækari þjónustu en hún gerir í dag. Því er rík þörf fyrir að fjölga þar í starfsliði, fá sálfræðinga, félagsráðgjafa og iðjuþjálfa inn á heilsugæsluna. Í minni samfélögum yrði það í samvinnu með sveitarfélögunum, félagsþjónustunni. Þannig mætti með sameiginlegu átaki efla heilsuvernd líkama og sálar sem er svo nauðsynleg í dag.

Ég legg fram breytingartillögu, hæstv. forseti, á þskj. 455, sem er í fjórum liðum.

Í fyrsta lagi legg ég til að auka framlög til Landspítala – háskólasjúkrahúss umfram fjárlög upp á 600 millj. kr.

Til hjúkrunarheimila legg ég til aukningu um 150 millj. kr. Það er til að möguleikar séu á að nýta hjúkrunarrými umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlögunum.

Þá geri ég ráð fyrir viðbót til heilsugæslustöðvanna, að bæta við 40 millj. kr. við það sem gert er ráð fyrir í fjárlögunum til að efla enn frekar þjónustu heilsugæslustöðvanna og víkka starfssvið þeirra. Þá er ég að hugsa um landið allt. Á nokkrum stöðum væri hægt að fá starfskrafta inn á stöðvarnar þótt það yrði ekki endilega í fullu starfi. Þessar 40 millj. kr. væru rétt til að koma starfseminni af stað á nokkrum stöðum. Ég tel mikilvægt að vera ekki bara með tilraunastarfsemina á höfuðborgarsvæðinu heldur þurfi að gefa möguleika á að efla þetta um allt land.

Fjórði liðurinn er um hækkun til Heilbrigðisstofnunar Austurlands upp á 150 millj. kr. Þannig háttar til, eins og við vitum öll, að á því svæði er mikil uppbygging og þensla, tímabundið ástand sem kallar á mikla þjónustu. Fyrir hæstv. ríkisstjórn, sem keyrir atvinnulífið á stóriðjustefnunni og uppbyggingu, finnst mér að það ætti að vera umhugsunarefni að ekki hafi verið staðið betur að undirbúningi stóriðjuframkvæmda en gert var fyrir austan. Það er meira en að segja það að dengja inn á svæðið vinnubúðum sem eru jafnfjölmennar og þéttbýlið sem þar er fyrir. Uppi við Kárahnjúka eru yfir þúsund manns að störfum og niðri á Reyðarfirði eru þegar komnir um 300 manns í vinnubúðir.

Reiknað er með að fjölgun verði í Fjarðabyggð, aðallega á Reyðarfirði, um 1.800 manns næsta vor. Það segir sig sjálft að það þarf meiri undirbúning og fjármagn inn í starfsemi heilbrigðisstofnana á svæðinu. Það hefur ekki verið gert. Heilbrigðisstofnun Austurlands var í byrjun ársins með um 100 millj. kr. halla en hefur fengið á fjáraukalögum um 20 millj. kr. En þrátt fyrir framlögin á fjárlögum núna er ljóst að stofnunin mun halda áfram að safna skuldum og stjórn stofnunarinnar og heilbrigðisstarfsmenn hafa ekki hugmynd um hvernig í ósköpunum þeir eiga að vinna sig út úr næsta ári.

Hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands eru þrjár einmenningsstöðvar og ekki er hægt að skera þær niður. Það vantar fleiri stöðugildi til að anna eftirspurn og veita þjónustuna. Til þess að ná sparnaði verður hins vegar að skera niður, minnka þjónustuna og loka deildum, öfugt við það sem þyrfti að vera. Þannig að 150 millj. kr. eru rétt til að halda í horfinu. Slíkt framlag mundi ekki auka starfsemina. Enn vantar fjármagn til að undirbúa stækkun á heilsugæslustöðinni á Reyðarfirði, sem er nýbyggð. En áður en grunnurinn var tekinn var vitað að hún yrði helmingi of lítil. Hún var samt byggð vegna þess að það var ekki til fjármagn í stærra húsnæði en teikningin sagði til um. Stöðin varð þannig of lítil á teikniborðinu. Næsta vor er reiknað með að þangað komi 1.800 manns til viðbótar en heilsugæslustöðin er byggð utan um þá íbúa sem voru þar fyrir. Þessar 150 milljónir eru því bara rétt til að hægt sé að anda þótt ekki verði hægt að anda léttar.

Ég skora á hæstv. fjárlaganefnd að skoða starfsemi Heilbrigðisstofnunar Austurlands mjög vel fyrir lokaafgreiðslu fjárlaganna. Það er ekki forsvaranlegt að setja starfsmenn í þá stöðu að þurfa að taka við svo mikilli fjölgun á skömmum tíma án þess að búa þá undir það. Í tillögum mínum er ekkert til að bæta húsnæði sem löngu er sprungið, eins og heilsugæslustöðina á Egilsstöðum, eða bæta tækjakost á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað, sem er orðinn úreltur, röntgentæki og annað, þurfi að taka á móti slysum og slíku. Það er ekki inni í þessu. Þetta er bara til að halda rekstrinum gangandi.

Herra forseti. Ég ætla aðeins í nokkrum orðum að nefna hérna atvinnumál. Ég mæli fyrir breytingartillögu á þskj. 456 sem er í þremur liðum og svo er ég meðflutningsmaður á þskj. 453 ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni sem er um framlög til upplýsingamiðstöðva á landsbyggðinni.

Breytingartillaga sem ég legg fram er um hækkað framlag til skógræktar. Eins og við þekkjum öll í þessum sal var samþykkt þingsályktunartillaga í mars 2003 um áætlanagerð í skógrækt og markmið sett fram, m.a. með ákveðnu framlagi á fjárlögum. Þetta er ekki samningur en þetta var þingsályktunartillaga sem var vel undirbyggð og samþykkt með miklum meiri hluta á þinginu. Í raun og veru var samkomulag við a.m.k. landbúnaðarráðherra að því leytinu til að sú áætlun sem sérfræðingar innan skógræktarinnar unnu en féllu frá var miklu hærri og metnaðarfyllri en sú sem samþykkt var með þingsályktunartillögunni.

Ég tel mikilvægt, herra forseti, að ef á hinu háa Alþingi er samþykkt þingsályktunartillaga og áætlun eins og hér var gert með föstum fjárframlögum í fimm ár sem áttu svo að hækka samkvæmt verðlagsþróun sé mjög mikilvægt að við fylgjum því eftir og stöndum við tillöguna eins og um samning væri að ræða. Skógrækt er þannig atvinnugrein að það þarf að undirbúa hvert ár vel með plöntuframleiðslu. Því verða framlögin á allan hátt að standast, að þeir viti hvað þeir eigi að framleiða mikið til að eiga í útplöntun eftir tvö ár.

Í annað sinn ekki að standa við framlög til Skógræktar ríkisins, Héraðsskóga og landshlutabundnu verkefnanna sem ég tel mjög vítavert. Nauðsynlegt er að leiðrétta líka framlag til Héraðsskóga sem hefur séð um gagnagrunninn Grænsíðu sem nýtist til skipulagningar og skráningar allra skógræktarframkvæmda í landinu. Hann er mjög einstakur, hefur fengið mikla athygli og er á lokasprettinum. Það er verið að klára þetta verkefni en eitthvað hefur misfarist við afgreiðslu málsins því að enn vantar 8 millj. í það loforð sem gefið hafði verið til þess að hægt væri að klára gagnagrunninn á næsta ári. Ég hvet hv. fjárlaganefnd til að sjá til þess að þessi beiðni verði uppfyllt svo Grænsíðan verði kláruð á næsta ári.

Herra forseti. Ég nefndi ekki eitt hér áðan varðandi heilbrigðisstofnanirnar þegar ég var að fjalla um þær. Þær eru auðvitað fleiri sem væri verðugt að taka út úr og fjalla sérstaklega um, t.d. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem er að byggja upp starfsemi sína, bæði sem bráðaþjónustu og ekki síður sem endurhæfingu í Kristnesi. Ég tók út Heilbrigðisstofnunina á Austurlandi af því að sú stofnun býr við svo sérstök skilyrði og sérstök vandamál. Þetta hleypur ekki á hundruðum þúsunda en verður bara hreinlega að komast í lag.

Ég nefndi skógræktarverkefnin áðan, hæstv. forseti. Þau eru hluti af atvinnuuppbyggingu á stórum svæðum. Það er alveg ljóst að skógrækt sem slík, sem atvinnugrein, hefur styrkt byggðir á þessum svæðum og hreinlega forðað því að enn fleiri bændur flosnuðu upp af búum sínum. Það er fleira sem hægt er að gera en að horfa eingöngu til stóriðjunnar. Ferðaþjónustan hefur verið að eflast. Nýjustu spár sýna að fjölgun ferðamanna er miklu meiri og örari en okkur gat dreymt um fyrir bara fimm árum. Við erum við það að sprengja þann ramma sem við höfum hvað varðar móttöku á ferðamönnum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er atvinnugrein sem getur gefið miklar tekjur og mörgum vinnu ef rétt er að staðið. Því tel ég mjög mikilvægt að stuðlað verði að því að styrkja upplýsingamiðstöðvarnar og veita ferðaþjónustunni sem slíkri þá athygli sem nauðsynleg er þannig að hún geti orðið sá máttarstólpi úti um allt land sem hún er vísir að. Hún þarf þá fjármagn. Það þarf að undirbúa komu þessara ferðamanna ef við viljum hafa fulla nýtingu af komu þeirra, ef svo má segja, að ekki verði of mikil ánauð hér á litlu svæði og að aðrir landsmenn njóti ekki þjónustu og tekna af þessum ferðamönnum.

Það er mikilvægt að stuðla að uppbyggingu upplýsingamiðstöðvanna eins og nú á að gera í Gljúfrastofu í Jökulsárgljúfrum. Annað áhugavert framtak er fuglaathugunarstöðin á Höfn í Hornafirði sem mikill metnaður liggur á bak við að koma á og fær svolitla fjárhæð núna af fjárlögum. Ég tel að starfsemi af þessu tagi eigi að skoðast mjög vandlega hvað varðar möguleika á framlögum úr ríkissjóði til að koma þarna á öflugu starfi og metnaðarfullu eins og til stendur.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra og ekki að grípa niður í fleiri þætti þótt full ástæða væri til. Það er orðið mjög áliðið og ég hef jafnvel staðið í þessum ræðustól lengur en ég taldi mig þurfa til að fara yfir þessi mál. Ég vil benda hæstv. forseta á álit heilbrigðis- og trygginganefndar til fjárlaganefndar. Þar get ég tekið undir margt í áliti meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar en í áliti minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar koma einnig fram ábendingar sem ég tel vert að fjárlaganefnd og Alþingi skoði til þess að við getum eflt heilbrigðisþjónustuna og oft og tíðum á ódýrari hátt en við gerum í dag, enda kostar oft byrjunin meiri peninga.