131. löggjafarþing — 39. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[01:25]

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Eins og margir ræðumenn á undan mér í kvöld ætla ég að byrja á því að taka fram að ég ætla ekki að vera langorð í þessari umræðu. Fjölmargir hafa tekið sig út af mælendaskránni af tillitssemi við það hvað umræðan hefur dregist á langinn. Enn þreyja þó einhverjir þingmenn þorrann og góuna og sitja í þingsal, fylgjast með umræðunni og aðrir bíða eftir því að komast að.

Ég ætlaði aðallega að tala um heilbrigðismál og ég ætlaði aðallega að gera grein fyrir áliti meiri hluta heilbrigðisnefndar á þeim kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði nefndarinnar.

En umræðan hér í dag hefur snúist um eitt og annað og á margan hátt hefur frekar mátt heyra að hér færi fram almenn stjórnmálaumræða. Eiginlega má segja að ræða síðasta ræðumanns, hv. þm. Valdimars Friðrikssonar, hafi kveikt í mér og ræða hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur sem ræddi mikið um friðargæsluna.

Hv. þm. Valdimar Friðriksson nefndi áðan strákana okkar sem við gerum allar kröfurnar til þegar þeir keppa á erlendri grund og við höfum geysilegar væntingar til. Þjóðin öll situr spennt og gerir sér alltaf vonir um sigur. Ef vel gengur er þeim fagnað eins og hetjum. En ef illa fer og þeir tapa fer heldur minna fyrir þeim þegar heim er komið. Mér datt þetta í hug áðan þegar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talaði um friðargæsluna og tillögu sem hún og annar hv. þingmaður frá Vinstri grænum leggja fram í fjárlagaumræðunni um að leggja niður friðargæsluna. Ég held því fram að ef við getum verið stolt af einhverju liði sem við höfum átt á erlendri grund þá sé það einmitt Íslenska friðargæslan. Ég er líka þeirrar skoðunar að ef við viljum vera þjóð meðal þjóða, fullvalda þjóð í samfélagi þjóðanna og axla ábyrgð okkar getum við það m.a. með því að halda úti öflugri friðargæslu.

Vissulega gagnrýndi hv. þm. Álfheiður Ingadóttir fyrst og fremst það að friðargæsluliðar okkar eru vopnaðir. Sú umræða varð fyrst og fremst eftir hina hörmulegu atburði á dögunum í Kabúl, hið hörmulega slys sem þar varð. En mér finnst það lýsa ákveðinni vanþekkingu og ákveðnum tvískinnungi þegar menn setja síðan alla friðargæsluna og allt sem við erum að gera undir þennan sama hatt og leggja til að leggja hana niður. Þeim sem hafa komið á átakasvæði eins og á Balkanskaganum er fullljóst að hætta fylgir því að taka þátt í þessu jafnvel þótt menn séu ekki vopnaðir, jafnvel þótt menn séu ekki í Kabúl. Lögreglan á Balkanskaganum, bæði í Kosovo og Bosníu, er vopnuð. Það er hættulegt að vera þar bara sem ráðgjafi á vegum UNIFEM vegna þess að aðstæðurnar eru þannig. Það verður líka að horfa til þess að þar sem menn eru að starfa í Kabúl starfa þeir undir merkjum NATO, eru hluti af því liði, hlíta þeim reglum og þar með er það talið tryggja öryggi þeirra sem þar starfa að ganga með vopn. En því verður að halda til haga að íslenskir friðargæsluliðar sem þar starfa eru ekki þar til að beita vopnum. Það er fyrst og fremst þeim sjálfum til varnar og öðrum til varnaðar.

Svo þegar slysin verða vill enginn af þessu vita en mér finnst það tvískinnungur að leggja áherslu á að Íslendingar séu alls staðar í öruggri höfn, þegar hættur fylgja friðargæslunni meira og minna hvar sem okkar fólk kemur að. Það er heldur ekki eðlilegt að halda því á lofti að við eigum fyrst og fremst að útvega lækna og hjúkrunarfræðinga í friðargæsluna því að á átakasvæðum og annars staðar þar sem friðargæslan er að störfum er þörf fyrir margs konar fólk. Þetta fólk fer vel upplýst um ástandið á svæðunum sem það fer til og ágætlega þjálfað til að sinna störfum sínum.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, herra forseti, ætlaði ég fyrst og fremst að tala um heilbrigðismálin. Hins vegar hefur umræðan hér snúist meira og minna um skattalækkunartillögur ríkisstjórnarinnar og þær snúast um kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna. Framsóknarflokkurinn lofaði m.a. 4% lækkun tekjuskatts og að hækka barnabætur, bæði tekjutengdar og ótekjutengdar, að ógleymdu því loforði Framsóknarflokksins að lækka endurgreiðsluhlutfall námslána.

Ég vil líka minna á það, herra forseti, að Framsóknarflokkurinn kom fyrstur flokka fram með fyrirheit sín til kjósenda. Framsóknarflokkurinn tók ekki þátt í yfirboðinu, kapphlaupi annarra flokka, heldur lögðum við alltaf alla áherslu á að við ætluðum að hafa borð fyrir báru og standa vörð um velferðarkerfið.

Framsóknarflokkurinn stendur við það sem hann heitir kjósendum, nú sem fyrr, en í þeim umræðum sem hafa farið fram í dag virðist Samfylkingin og ekki síst formaður hennar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hafa allt á hornum sér. Samfylkingin lofaði 16–20 milljörðum í skattalagabreytingar og mér skilst að í dag megi reikna þær skattalagabreytingar á eina 30 milljarða. Í dag vill þessi sama Samfylking ekki kannast við neitt. Formaður Samfylkingarinnar gefur því þó undir fótinn með að ef hann hefði komist í ríkisstjórn hefði hann hugsanlega farið í skattalækkanir. Hv. formaður Samfylkingarinnar sagði í fréttatíma á Stöð 2, með leyfi forseta:

„Ég hugsa að ef aðstæður hefðu boðið upp á að hægt væri að fara í ríflegar skattalækkanir hefðum við notað töluvert af því svigrúmi sem kann að skapast en er ekki í hendi til þess að lækka skatta …“

Þar með er þó ekki öll sagan sögð um málflutning hv. þingmanns því síðan snýst hann í annan hring og segir tímann ekki réttan vegna hugsanlegra þensluáhrifa skattalækkananna.

Ég spyr, herra forseti: Lágu ekki allar forsendur fyrir, þar með taldar forsendurnar og áhrif stóriðjuframkvæmdanna? Allar forsendur sem liggja fyrir í dag lágu fyrir þegar skattalækkanatillögur ríkisstjórnarinnar voru kynntar í undanfara síðustu kosninga.

Nú kemur í ljós að a.m.k. hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, þarf að hugsa sig um. Hann þarf að hugsa sig um hvort Samfylkingin hefði efnt kosningaloforð sín sem auðvitað reyndi ekki á nema Samfylkingin kæmist í ríkisstjórn.

Það sem síðan gerist, herra forseti, er að hv. formaður Samfylkingarinnar í vandræðagangi sínum snýr öllu upp í áróður gegn Framsóknarflokknum. Það er öll ábyrgðin sem hv. formaður Samfylkingarinnar vill bera á kosningaloforðum flokks síns.

Því er haldið fram aftur og aftur, bæði af hv. formanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, og öðrum hv. þingmönnum, að Framsóknarflokkurinn sé á móti því að lækka matarkostnað heimilanna, Framsóknarflokkurinn sé á móti því að lækka virðisaukaskatt á matvælum um 7%.

Þetta er í fyrsta lagi ekki rétt, herra forseti, enda liggur það fyrir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að ríkisstjórnin ætli að huga að endurskoðun virðisaukaskattskerfisins auk þess sem hæstv. forsætisráðherra hefur áréttað það í ræðu sinni hér á hinu háa Alþingi.

Formanni Samfylkingarinnar gengur vitaskuld það eitt til að draga athyglina frá eigin vandræðagangi og tvískinnungi, ég ætla að fjalla aðeins um tvískinnunginn síðar, en vegna þessa áróðurs langar mig til að benda á að hag heimilanna má bæta á annan hátt en með lækkun útgjalda, t.d. með hækkun ráðstöfunartekna. Þetta veit hv. þm. Össur Skarphéðinsson, og þetta er sú leið sem ríkisstjórnin ákvað að fara í þessari atrennu. Með því að lækka tekjuskattsprósentuna og hækka bæði tekjutengdar og ótekjutengdar barnabætur, með því að fella niður eignarskattinn og með því að lækka endurgreiðsluhlutfall námslána. Þetta eru allt leiðir til að auka ráðstöfunartekjur heimilanna, og þegar á heildina er litið eru þetta líka leiðir til tekjujöfnunar í samfélaginu.

Hækkun skattleysismarka nemur 20%, skattleysismörkin fara úr 71 þús. í 86 þús. kr. (JGunn: 2007.) Þetta eru 15 þús. kr., 5 þús. kr. hærri skattleysismörk en Samfylkingin lofaði fyrir síðustu kosningar. 2007, grípur hv. þm. Jón Gunnarsson fram í. Hefði þingmaðurinn viljað ráðast í meira á þessari stundu? (JGunn: Öðruvísi.) Herra forseti. Hefði hv. þingmaður viljað gera meira á þessari stundu og sér hv. þingmaður ekki rökin fyrir því að beðið er með að skattalækkanirnar taki gildi af fullum þunga til ársins 2007?

Hækkun barnabóta kemur öllum barnafjölskyldum til góða og mest hinum tekjulægri, sem m.a. ASÍ hefur lagt áherslu á í ályktun sinni. Afnám eignarskattsins kemur sér vel fyrir íbúðareigendur, best fyrir eldra fólk og ellilífeyrisþega sem búa í lítið skuldsettum íbúðum og greiða því hlutfallslega hæstan eignarskatt.

Fyrir þá sem leggja upp úr því að fara með rétt mál má benda á að upplýsingar úr skattframtölum sýna að flestir sem greiða eignarskatt eru með tiltölulega lágar tekjur, gagnstætt því sem oft er haldið fram eða látið í skína. Sem dæmi um skattalækkunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar má nefna að ráðstöfunartekjur einstæðs foreldris með eitt barn undir sjö ára aldri og 125 þús. kr. tekjur á mánuði hækka um 12.500 kr. á mánuði, þ.e. um 10%.

Ráðstöfunartekjur hjóna með samanlagt 300 þús. kr. á mánuði og tvö börn, annað yngra en sjö ára, hækka um 23.500 kr., þ.e. um 9,5%.

Það er alveg sama hvernig á málið er litið, herra forseti, það er ljóst að hinir tekjulægri bera hlutfallslega meira úr býtum en hinir tekjuhærri. Þessar aðgerðir eru öðrum fremur tekjujafnandi.

Í þessu samhengi er líka vert að skoða hvað 7% lækkun matarskattsins skilar fjölskyldum í landinu. Það fer auðvitað eftir því hvað matarkarfan kostar hjá hverjum og einum. Ef hún kostar 10 þús. kr. skilar 7% lækkun 700 kr. á mánuði. Ef verð hennar er 100 þús. kr. skilar hún 7 þús. kr. á mánuði, og allt þar á milli.

Þetta er sú leið sem Samfylkingin hefur básúnað í allan dag sem hina miklu tekjujöfnunarleið og kjarabót öðrum fremur fyrir fjölskyldurnar í landinu. Formaður Samfylkingarinnar er hugsi yfir því hvort Samfylkingin hefði gert betur þrátt fyrir stórkarlaleg kosningaloforð sem leggja sig á allt að 30 milljarða.

Áherslur ríkisstjórnarinnar gera fyrst og fremst ráð fyrir aðhaldi um opinberar framkvæmdir til að hamla gegn þensluáhrifum stóriðjuframkvæmda. Áfram er hins vegar gert ráð fyrir auknum útgjöldum til að halda uppi umfangsmikilli velferðarþjónustu. Aukið aðhald í opinberum framkvæmdum án þess að skera niður í velferðarþjónustunni. Og auðvitað á að kynna skattalækkunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar tímanlega og með góðum fyrirvara.

Sú leið er öðrum fremur fallin til að skapa öryggi og vissu um efnahagsþróunina og til að stuðla að stöðugleika. Við framsóknarmenn leggjum mikla áherslu á stöðugleikann og að í kjarasamningum verði lögð megináhersla á hóflegar launahækkanir og að megináherslan verði lögð á hækkun lægstu launa. Einmitt núna á ríkisstjórnin að kynna skattalækkunartillögur sínar þannig að verkalýðshreyfingin og ekki síst samtök opinberra starfsmanna, sem nú eru með lausa samninga, hafi færi á að taka mið af þeim við kröfugerð sína.

Lífskjarabótin sem kaupmáttaraukningin sem við höfum búið við á undanförnum árum felur í sér er einsdæmi í heiminum. Almenningur allur getur nýtt sér þennan tekjuauka til framfærslu eða hann getur nýtt sér hann til að auka sparnað, greiða niður skuldir eða mynda nýjar eignir.

Ég nefndi áðan tvískinnung Samfylkingarinnar og talsmanna hennar í umræðunni vegna þess að hv. þingmenn hennar tala í allar áttir og að mínu mati án allrar heildarsýnar eða ábyrgðar. Hluti hv. þingmanna Samfylkingarinnar, svo sem hv. þingmenn í fjárlaganefnd, tiltekur í áliti sínu, áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar, hækkun tekna ríkissjóðs um 8,6% sem hann segir að endurspegli þá miklu þenslu sem búist sé við á næsta ári og síðan tiltekur hann aukningu útgjalda á milli ára um 7,6%, sem hann segir að endurspegli ekki það aðhald í ríkisfjármálum sem sé nauðsynlegt á þenslutímum.

Annar hluti Samfylkingarinnar — og nú man ég ekki hvað hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kallaði þann hluta í dag, (Gripið fram í.) þá deildina, mildu deildina segir hv. þm. Jón Gunnarsson — leggur hins vegar alla áherslu á að auka útgjöld ríkisins, ekki í eina átt, heldur í allar áttir. Ýmis dæmi er að finna um þetta í áliti minni hluta heilbrigðisnefndar til fjárlaganefndar, þ.e. um þann kafla frumvarpsins sem er á málefnasviði heilbrigðisnefndarinnar. Það er ekki nóg með að í áliti minni hlutans sé aftur og aftur gerð krafa um aukin útgjöld, heldur er þar líka haldið á lofti mikilli aukningu á heildarútgjöldum til heilbrigðismála á síðustu fimm árum. Þar er ekki verið að gagnrýna þetta, heldur eru gerðar kröfur um enn meiri aukningu útgjalda.

Raunveruleikinn er sá, herra forseti, ef ég sný mér að heilbrigðismálunum að samkvæmt frumvarpinu eru heildargjöld heilbrigðisráðuneytisins tæpir 120 milljarðar kr. Hækkunin á milli ára nemur rúmum 8 milljörðum kr. Þar af eru launa- og verðlagsbætur rúmir 4 milljarðar kr. og raunaukning útgjaldanna er 3,9%, þ.e. 4,3 milljarðar. Af þessu nemur kerfislæg breyting í almannatryggingum — og kerfislæg breyting þýðir í þessu tilfelli fjölgun öryrkja — 2.935 millj. kr.

Sá hluti Samfylkingarinnar sem stendur að þessu áliti vill enn meiri útgjöld, ekki bara til þessa málaflokks, þ.e. heilbrigðismálanna, meðan annar hluti hennar gagnrýnir útgjaldaaukningu og ríkisstjórnina fyrir að sýna ekki nægjanlegt aðhald. Ég spyr, herra forseti, hvernig á fólk að skilja upp eða niður í því hvað Samfylkingin er að fara?

Það sem hv. talsmenn Samfylkingarinnar hér, ágætir þingmenn á hinu háa Alþingi, gera síðan er að reyna að beina kastljósinu frá eigin stefnuleysi og tvískinnungi með því að halda því á lofti statt og stöðugt í ræðum í dag að Framsóknarflokkurinn sé á móti lækkun matarskatts.

Í áliti sínu leggur meiri hluti hv. heilbrigðisnefndar m.a. áherslu á Landspítala – háskólasjúkrahús, einkum á þá miklu styrkingu sem hefur orðið í starfsemi sjúkrahússins á liðnum árum, mest á þessu ári og á því síðasta, og á þá miklu framleiðniaukningu sem hefur orðið á sjúkrahúsinu. Raunveruleikinn er sá að í mörgum sérgreinum eru nú engir biðlistar, í öðrum er bið sem er talin viðunandi og í örfáum greinum, augnaðgerðum og aðgerðum vegna offitu, er bið of löng þó að meira að segja hafi biðin eftir þeim aðgerðum styst um helming.

Meiri hlutinn leggur líka áherslu á að til þess að Landspítalinn geti náð fram frekari hagræðingu og aukinni skilvirkni í rekstri sjúkrahússins þurfi m.a. að tryggja Landspítala – háskólasjúkrahúsi áfram forgang að hjúkrunarrýmum í nágrenninu. Þrátt fyrir að grynnkað hafi verið á biðlistunum og sjúklingunum á Landspítalanum hafi fækkað er raunveruleikinn sá að enn bíða hundrað sjúklingar á sjúkrahúsinu, sem hafa lokið sérhæfðri bráða- og endurhæfingarmeðferð, eftir rýmum á hjúkrunarheimilum.

Það er álit meiri hlutans í heilbrigðisnefnd að eitt brýnasta viðfangsefni heilbrigðisþjónustunnar sé að fjölga hjúkrunarrýmum, bæði fyrir aldraða, geðfatlaða og unga fatlaða einstaklinga.

Í áliti sínu leggur hv. heilbrigðisnefnd áherslu á að afar mikilvægt sé, til að nýta þá miklu möguleika á hagræðingu í þjónustunni sem muni skapast með byggingu nýs bráðaspítala, að halda áfram þeirri vinnu sem unnin hefur verið á liðnum mánuðum og árum við að byggja nýjan bráðaspítala, og þá fyrst og fremst með það í huga að sameina bráðastarfsemina á einn stað en því er haldið fram — það liggja fyrir áætlanir um það — að það muni spara mörg hundruð milljónir króna árlega þegar sú bygging hefur risið.

Meiri hluti heilbrigðisnefndar leggur áherslu á þýðingu þess, m.a. fyrir aðhald og hagræðingu í heilbrigðiskerfinu, að ráðist verði í að byggja upp heilbrigðisnet og innleiða rafræna sjúkraskrá í heilbrigðisþjónustu. Það er ósk meiri hluta heilbrigðisnefndar að sem fyrst verði tekin skref til innleiðingar á rafrænni sjúkraskrá fyrir alla heilbrigðisþjónustu. Þegar talað er um alla heilbrigðisþjónustu, herra forseti, er jafnt átt við sjúkrastofnanir sem heilsugæslustöðvar og líka sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn.

Nefndin leggur áherslu á að ráðist verði í kostnaðarmat og að framkvæmdaáætlun um verkið verði unnin án tafa.

Í áliti meiri hluta heilbrigðisnefndar kemur fram að samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir að fjárfesting vegna rafrænnar sjúkraskrár nemi tæpum 2 milljörðum kr. en að fjárhagslegur ávinningur að lokinni fjárfestingu geti numið allt að 850 millj. kr. á ári.

Meiri hlutinn leggur í áliti sínu áherslu á að sérstaklega verði skoðaðar ástæður fyrir fjölgun öryrkja. Það hlýtur að mega nefna fjölgun öryrkja án þess að þeir sem það gera þurfi annaðhvort að sitja undir því að vera óvinveittir öryrkjum eða að vera með fordóma í þeirra garð. Það liggur fyrir að fjölgunin hefur verið tæplega 40% á fimm árum, frá 1998, og að heildarbætur vegna öryrkja og endurhæfingarlífeyrisþega hafi á sama tíma hækkað úr rúmlega 5 milljörðum kr. í rúmlega 12 milljarða kr.

Sérstaka athygli vekur breyting á aldursskiptingu öryrkja og kynjahlutföllum, 63% fleiri konur á aldrinum 25–29 ára eru öryrkjar en fyrir fimm árum, svo að ég nefni eitt dæmi. Þeim hefur líka fjölgað mjög misjafnlega eftir landshlutum sem er annað sem vekur athygli.

Tryggingastofnun ríkisins hefur unnið greinargerð um þetta til heilbrigðisráðherra og þar er ýmsum skýringum velt upp. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur í samráði við hæstv. fjármálaráðherra ákveðið að fela forstöðumanni Hagfræðistofnunar að grafast fyrir um ástæður mikillar fjölgunar öryrkja og endurhæfingarlífeyrisþega og skila um það skýrslu við upphaf næsta árs.

Við í meiri hlutanum leggjum áherslu á að sérstaklega sé hugað að því hvort um sé að ræða kerfislægan vanda. Með því eigum við við að sérstaklega verði skoðað samspil lægstu launa, fjárhæða atvinnuleysisbóta og lífeyrisgreiðslna.

Herra forseti. Sem fyrr leggur meiri hlutinn í heilbrigðisnefnd mikla áherslu á eflingu heilsugæslunnar og mikilvægi þess að hún sé hæf til að sinna því hlutverki að vera fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu. Meiri hlutinn fagnar því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir 347 millj. kr. hækkun framlaga til heilsugæslunnar milli áranna 2004 og 2005. Við leggjum áherslu á eflingu þverfaglegs samstarfs heilbrigðisstarfsmanna sem hefur gefið góða raun, svo sem reynslan af ýmsum geð- og meðferðarteymum hefur sýnt.

Ég vil sérstaklega halda því til haga að hluti af auknum framlögum til heilsugæslunnar, þ.e. rúmar 42 millj. kr., er ætlaður til eflingar geðheilbrigðisþjónustu innan heilsugæslunnar og við leggjum áherslu á að a.m.k. hluti þeirrar fjárhæðar verði nýttur til að mæta aukningu sálfélagslegra vandamála í öllum aldurshópum sem kalla á fjölgun sálfræðinga, félagsráðgjafa og iðjuþjálfa, svo að dæmi séu nefnd, innan heilsugæslunnar.

Aðgangur að heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hann hefur verið takmarkaður undanfarin ár vegna fólksfjölgunar, hefur batnað mjög síðustu tvö ár. Aðsóknin hefur aukist og komum til lækna hefur fjölgað um 12 þúsund árið 2003 og fyrstu átta mánuði þessa árs fjölgaði komum um 16.700.

Við leggjum áherslu á að heilsugæslunni sé áfram gert kleift að halda úti starfrækslu síðdegisvakta þannig að tryggt sé að sjúklingar þurfi ekki að leita í önnur dýrari og óþörf úrræði. Meiri hlutinn telur og brýnt að starfsemi heilsugæslunnar og vinnutími starfsmanna sé skipulagður með tilliti til þessa svo að hægt sé að halda þjónustunni úti á sem hagkvæmastan hátt.

Að lokum fögnum við sérstaklega hækkun framlaga til öldrunarþjónustu en með frumvarpinu verður tryggð fjárveiting til reksturs 128 nýrra hjúkrunarrýma. Þar af fara 83 í notkun hluta yfirstandandi árs. Þar er líka lögð áhersla á fjölgun dagvistarrýma fyrir heilabilaða um 20% og enn fremur eru hækkaðar fjárveitingar til hvíldarinnlagna. Allt eru þetta tillögur og aukin framlög sem ekki aðeins meiri hluti heilbrigðisnefndar heldur heilbrigðisnefndin öll hefur lagt mikla áherslu á það sem af er þessa þings og undanfarin ár.