131. löggjafarþing — 39. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[01:57]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að spyrja mig um það hvort ég vilji standa við yfirlýsingar um skattalækkanir. Verkin tala. Samfylkingin hefur lagt fram tvær tillögur um skattalækkanir, annars vegar um að lækka matarskattinn um helming, sem væri orðin að veruleika ef forusta Framsóknarflokksins hefði ekki verið á móti því að lækka matarreikning íslenskra heimila. Í öðru lagi hefur Samfylkingin, ásamt stjórnarandstöðunni, lagt fram tillögu um að barnabætur verði hækkaðar um 2,5 milljarða kr. á þeim fjárlögum sem við erum nú að véla um. Við erum ekki eins og Framsóknarflokkurinn sem lætur allt annað í forgang, eins og að lækka hátekjuskatt, flata tekjuskattsprósentu og eignarskatt.

Þetta liggur klárt fyrir. Hvað hefur t.d. breyst á síðustu sex mánuðum? Stöðugleikinn sem áður var er ekki lengur fyrir hendi. Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra um að á meðan stöðugleiki ríki sé hægt að gera áætlanir eins og þessar fram í tímann. Það að lofa núna skattalækkunum árið 2007 — sem er bara tilraun til að kaupa sér atkvæði alveg eins og þegar Framsóknarflokkurinn samdi við öryrkja bara til þess að kaupa atkvæði þeirra — er ekki hægt við svona kringumstæður.

Hvað hefur breyst? Verðbólgan er farin úr böndum og viðskiptahallinn er mikill og vaxandi. Það segir allt sem segja þarf um málflutning hv. þingmanns að hún þekkir ekki skattstefnu eigin flokks. Hún þekkir ekki þær yfirlýsingar sem Framsóknarflokkurinn gaf fyrir síðustu kosningar. Hún fór rangt með tvennt, um þá skattprósentu sem Framsóknarflokkurinn vildi lækka, eins og hann lýsti því fyrir kosningar, og um barnabætur. Hvort tveggja var rangt hjá hv. þingmanni. Það segir allt sem segja þarf.

Framsóknarflokkurinn lofaði ekki að lækka skattprósentuna um 4% og hann lofaði ekki að hækka ótekjutengdar barnabætur bara til sjö ára.