131. löggjafarþing — 39. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[02:12]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Herra forseti. Ég mæla hér fyrir einni breytingartillögu sem mér láðist að mæla fyrir þegar ég flutti ræðu mína í dag. Hún er á þingskjali 446 og er um framhaldsskólana almennt, um auknar fjárveitingar í því skyni.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings árið 2003 kemur fram að fjárhagsstaða margra framhaldsskóla var slæm í árslok 2003. Í skýrslunni eru nefndir 11 skólar þar sem neikvætt eigið fé er samtals 662 millj. kr. Margir framhaldsskólar eru í slíkri stöðu ár eftir ár og er ljóst að taka verður á þeim vanda. Það er ótæk stjórnsýsla að okkar viti að láta framhaldsskólana bera stöðugt uppsafnaðan halla milli ára og hefur Ríkisendurskoðun ítrekað bent á að slíkt sé ekki heimilt samkvæmt fjárreiðulögum. Þá hafa forsvarsmenn framhaldsskólanna og ríkisháskólanna harðlega gagnrýnt að sjálft reiknilíkanið skuli ekki vera skólunum aðgengilegt þó að þeim sé gert að haga rekstri sínum í samræmi við það og duttlunga þess.

Við leggjum til, virðulegi forseti, að aukið verði í liðinn Framhaldsskólar, óskipt, og bætt við 330 millj. Tillagan er þá samtals upp á 466,8 millj. kr. til eflingar framhaldsskólanna og greiðslu uppsafnaðs vanda í skólunum.