131. löggjafarþing — 39. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[02:14]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Herra forseti. Þetta er búin að vera löng og ströng umræða og víða hefur verið komið við. Það eru þó nokkrir þættir sem standa upp úr í umræðunni og þá fyrst og fremst það að ríkisstjórnin heldur uppteknum hætti og mun ekki taka á þeim málum sem nauðsynleg eru í því ástandi sem efnahagsmálin eru komin í. Það eru auðvitað engin tíðindi því við höfum séð þetta undanfarin ár og það virðist vera sívaxandi hætta á að þau ósköp sem gerðust á árinu 2000–2001 þegar verðbólga fór úr böndunum, muni endurtaka sig. Við vonum auðvitað að svo verði ekki en það er því miður ekki að sjá nein iðrunarmerki á ríkisstjórninni og því mikil hætta á ferðum.

Hér hefur orðið veruleg umræða um skattamál sem eðlilegt er því í gær kom skattafrumvarp ríkisstjórnarinnar til 1. umr. Markverðast í þeirri umræðu er að sjálfsögðu sá kafli sem snýr að hugmyndum um matarskatt og þar hefur auðvitað opinberast það sama og í gær að þar hefur Framsóknarflokkurinn staðið í vegi fyrir að sú leið væri farin, þrátt fyrir að ýmislegt hafi bent til þess á seinni dögum að flokkurinn muni hugsanlega fara um borð í þá lest sem vill fara þá leið í skattalækkunarmálum.

Það er fyrst og fremst eitt mál, herra forseti, sem ég hafði minnst á í andsvari við hv. þm. Bjarna Benediktsson sem ég tel nauðsynlegt að nefna hér, örfá atriði sem mikilvægt er að sá hv. þingmaður átti sig á, en það eru hin svokölluðu samanburðarfræði, þ.e. hversu mikilvægt er að fjárlög séu unnin með markvissri áætlunargerð og að við getum ætíð borið saman hina endanlegu niðurstöðu sem kemur auðvitað fram í lokafjárlögum og ríkisreikningi, borið það saman við fjárlög þannig að við áttum okkur á hversu góð áætlunargerðin er. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að undanfarin ár hefur ríkisstjórnin ekki staðist próf í þeim efnum og eru því miður ekki miklar líkur á því að svo verði.

Ég kom aðeins inn á það í andsvarinu að nýlega er komið út merkt rit á vegum Ríkisendurskoðunar þar sem fjallað er um þennan samanburð og hvernig þetta er hugsað, bæði á markaði, í ríkisrekstri og í alþjóðlegu samhengi. Þar eru auðvitað færð sterk rök fyrir því og bent á að það sem hæstv. fjármálaráðherra og ýmsir stjórnarliðar hafa sagt að samanburðurinn væri óraunhæfur þar sem mikill fjöldi óreglulegra liða ætti sér stað, sú röksemd er raunverulega kaffærð algjörlega í því ágæta riti og er vonandi að þau fræði heyri sögunni til og hv. þm. Bjarni Benediktsson tileinki sér þessi vísindi líka og við getum þá átt orðastað við hv. þingmenn og farið í þennan samanburð á einfaldan hátt.

Herra forseti. Það var eitt athyglisvert til viðbótar sem kom fram í ræðu hv. þingmanns en það var rökstuðningur hans varðandi skattatillögur ríkisstjórnarinnar. Það kom fram að það væri býsna nauðsynlegt að lækka skatta til að draga úr tekjum ríkisins, minnka þann sjóð sem ríkisstjórnin hefði úr að spila og hv. þingmaður taldi það eina meginröksemdina að núverandi ríkisstjórn mætti í raun og veru ekki fá meiri tekjur því hún gæti ekki með þær farið, hún mundi sjálf missa þær út og auka þensluna. Þetta eru út af fyrir sig líklega ein bestu rök sem við höfum fengið fyrir skattalækkunum en þetta sýnir auðvitað traust hv. þingmanns til núverandi ríkisstjórnar varðandi það að eiga við ástandið sem nú blasir við í efnahagslífinu. Og úr þessum herbúðum er þetta okkur auðvitað sönnun þess að sá málflutningur sem við höfum haldið fram að undanförnu er réttur og nýtur væntanlega vaxandi hljómgrunns meðal stjórnarliða.

Herra forseti. Það er rétt nú þegar klukkan er langt gengin í þrjú að þessari umræðu ljúki. Ég þakka þeim sem tekið hafa þátt í henni og vona að fjárlaganefnd muni bæta frumvarpið sem kostur er áður en það kemur aftur til 3. umr.