131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[10:34]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Komið er að lokum 2. umr. um fjárlög ársins 2005. Við höfum heyrt í aðdraganda þessarar atkvæðagreiðslu mörg aðvörunarorð vítt og breitt úr þjóðfélaginu og ekki að ástæðulausu. Því miður hefur ríkisstjórnin valið það enn einu sinni að draga upp glansmynd í fjárlagafrumvarpi sínu. Ýmsar vanáætlanir koma hér fram. Agaleysið heldur áfram. Það eru ekki nægjanlegar viðvaranir varðandi þá þenslu sem fram undan er. Því miður er hætta á að ríkisstjórnin missi tökin á efnahagsmálunum og verðbólgan taki völdin.

Við erum með nokkrar tillögur þar sem við reynum á táknrænan hátt að bæta það frumvarp sem hér liggur frammi. Það eru tillögur í mennta-, heilbrigðis- og félagsmálum. Við munum að sjálfsögðu berjast áfram fyrir mörgum þeirra við 3. umr. en nokkrar þeirra munu koma til afgreiðslu hér.

Herra forseti. Það eru vissulega blikur á lofti en við vonum að meiri hlutinn átti sig áður en við afgreiðum frumvarpið endanlega við 3. umr. þó að vonin sé lítil. Það segir fortíðin okkur. Við munum að sjálfsögðu láta meiri hlutann bera ábyrgð á gjörðum sínum og munum þess vegna sitja hjá við breytingartillögur meiri hlutans en vonum að hann átti sig og greiði þeim tillögum sem við erum með til bóta atkvæði sitt.