131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[10:41]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér kemur til atkvæða breytingartillaga okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Við leggjum til að viðbótartekna verði aflað með því að hverfa frá lækkun hátekjuskatts og hann verði innheimtur og áfram við lýði upp á 6% eins og verið hefur. Við erum algerlega andvíg þeim sértæku aðgerðum ríkisstjórnarinnar í skattamálum sem felast í sérstakri skattalækkun á hátekjufólk. Við leggjum jafnframt til breytta innheimtu fjármagnstekjuskatts þannig að innheimtuprósentan verði 18 í stað 10 en með frítekjumarki, þannig að tekjur upp að 120 þús. kr. verði án skattlagningar. Þessi tekjuöflun skilar ríkissjóði 3,8 milljörðum og breytingartillögur sem við flytjum að öðru leyti við frumvarpið eru því í góðu jafnvægi.