131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:23]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Við leggjum til aukna fjárveitingu til heilbrigðismála til að fjölga hjúkrunarrýmum vítt og breitt um landið, þó aðallega á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjavík þar sem flestir hjúkrunarsjúklingar bíða eftir hjúkrunarrýmum. Þetta er líka til að koma til móts við fjárvöntun Landspítala þannig að hann geti veitt óbreytta bráðaþjónustu og þurfi ekki að grípa til sjúklingaskatta en þar bíða hundrað hjúkrunarsjúklingar í dýrum sjúkrarúmum.

Það vantar líka tilfinnanlega hjúkrunarrými fyrir hjúkrunarsjúklinga undir 67 ára aldri sem ekki fá inni á hjúkrunarheimilum í dag þannig að við leggjum til þessa fjárveitingu til að koma til móts við alla þessa sem bíða eftir hjúkrunarþjónustu. Þingmaðurinn segir að sjálfsögðu já.