131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:28]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Sem lið í aðhaldsaðgerðum ríkisstjórnarinnar og til þess að mæta skattalækkununum er reisn þessarar ríkisstjórnar svo mikil að hún ákveður að hækka komugjöld á heilbrigðisstofnanir og til heilsugæslustöðva. Þangað á að sækja fjármagn í ríkissjóð, til sjúklinga, til þeirra sem þurfa að nota heilbrigðisþjónustuna.

Tillagan sem ég flyt miðar að því að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar verði felld, að það verði fellt að hækka skatta á því fólki sem þarf að sækja sér heilbrigðisþjónustu, hækka komugjöldin. Ég legg til að sú ákvörðun verði felld og treysti á þingmenn að fella þessa óhæfu og samþykki tillögu mína.