131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Fullnusta refsingar.

336. mál
[12:40]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Eins og áður hefur komið fram var frumvarp um sama efni lagt fram á síðasta þingi. En eins og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir hefur bent á var það frumvarp svo slæmt að það var dregið til baka af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra. Vert er að minnast þess að það frumvarp fékk alveg gríðarlega miklar og alvarlegar athugasemdir. Í heilu umsögnunum voru gerðar athugasemdir við nánast allar greinarnar. Það má nefna að þeir sem gerðu alvarlegar athugasemdir voru t.d. trúnaðarráð fanga og Aðgát, félag áhugamanna og aðstandenda fanga. Mannréttindaskrifstofa Íslands kallaði frumvarpið afskaplega varhugavert. Laganefnd Lögmannafélags Íslands sagði í umsögn sinni að þetta frumvarp væri fyrst og fremst samið með hagsmuni fangelsisyfirvalda í huga fremur en hagsmuni fanga og lagðist gegn samþykkt þessa frumvarps. Meira að segja Barnaheill gerði athugasemdir við frumvarpið sem var lagt fram síðast.

Við þurfum ekki að dvelja allt of lengi við það. Nú er komið nýtt frumvarp sem betur fer og vonandi eitthvað til batnaðar. Við sem höfum fylgst með fangelsismálum hér á landi sjáum að víða er pottur brotinn hvað þau varðar. Það fyrsta sem stingur strax í augu er meðferðarþátturinn. Hann er svo að segja ekki til í íslenskum fangelsum. Eitt aðalmarkmið fangelsismála eða fangelsisvistar ætti að vera það að einstaklingurinn komi ekki verr út en þegar hann fór inn. En í því samhengi er rétt að rifja það upp að þessi stefna hefur algjörlega brugðist hvað varðar íslensk fangelsismál.

Fróðlegt er að skoða rannsókn Helga Gunnlaugssonar, prófessors í félagsfræði. Hann skoðaði fangelsismálin hér. Sú rannsókn sýndi að fyrir þá sem luku fangavist var ítrekunartíðnin mjög há. Menn lentu iðulega aftur í fangelsi eða lögreglan þurfti að hafa afskipti af þeim stuttu eftir að fangavistinni lauk. Í rannsókninni kemur fram að 37% þeirra voru fangelsaðir á ný, 44% voru dæmdir á ný og af 73% þeirra sem hafa lokið fangavist þurfti lögregla að hafa afskipti á ný innan fimm ára. Við sjáum því að ítrekunartíðnin er allt of há hér á landi. Þessi rannsókn sýndi að ítrekunartíðnin var almennt hærri hjá hinum yngri afbrotamönnum en öðrum aldurshópum þannig að það er eitthvað að varðandi þá sem taka út sína refsingu. Allt of margir virðast falla í sama far aftur og lenda aftur í klóm réttvísinnar. Við þurfum því aðeins að hugsa þetta upp á nýtt og taka meðferðarþáttinn fastari tökum en gert hefur verið. Við þurfum að taka tillit til þess að fangar eru ekki allir eins en meðal þeirra má finna einstaklinga sem þurfa góða og djúpa meðferð, sérstaklega á sviði vímuefna og geðræns vanda. Þetta hefur legið fyrir lengi. Það vita allir sem fylgjast með þessum málaflokki að meðferðarþættinum hefur alls ekki verið sinnt í fangelsismálum. En það er vonandi að breyting verði þar á.

Ég hef fyrir framan mig skýrslu eða samantekt Fangelsismálastofnunar ríkisins sem kallast Markmið í fangelsismálum og framtíðaruppbygging fangelsanna. Þar er tekið fram að eitt af markmiðum með fangelsisvist sé að draga úr líkum á endurkomu einstaklings í fangelsi vegna nýrra brota. Sú markmiðssetning er mjög mikilvæg í þessu samhengi. Í samantektinni kemur líka fram að lengi hefur staðið til að byggja upp meðferðardeild í fangelsinu Litla-Hrauni en ekki hafi fengist fjármagn í það. Þannig er þetta iðulega að menn fylgja því ekki alveg eftir sem þeir segja og eins og staðan er núna þá er engin skipuleg meðferðardeild á Litla-Hrauni. Við höfum meira að segja dæmi um alvarlega geðsjúka einstaklinga sem hafa verið vistaðir á Litla-Hrauni og jafnvel í einangrunarklefanum við alveg skelfilegar aðstæður. Við höfum sorgleg dæmi um afdrif þessara einstaklinga, sem er óþarfi að fara nánar í.

Í allsherjarnefnd þurfum við að skoða afskaplega vel þetta nýja frumvarp í ljósi þess hve gallað hið fyrra frumvarp var. Ég vænti þess að nefndin taki góðan tíma í það og þetta fari víða til umsagnar. Það er fróðlegt að skoða hvernig þetta er gert erlendis. Við erum oft á eftir öðrum þjóðum, sérstaklega norrænum þjóðum í mörgum málum, því miður, en norrænu þjóðirnar hafa hugsað þennan málaflokk aðeins upp á nýtt. Eins og einhver benti á hafa t.d. Svíar verið feikilega öflugir í fangelsismálum en grunnhugsunin hjá þeim er að reyna að komast hjá því að læsa manneskjur inni í öryggisfangelsum. Slíkt sé samfélaginu einfaldlega ekki í hag. Þeir hafa keyrt á hinum opnu fangelsum. Að sjálfsögðu þarf fólk að taka út refsingu sína en þeir hafa nálgast það með öðrum hætti. Hér er ekki bara verið að tala um hagsmuni og réttindi fangans sem hefur brotið af sér, við megum ekki gleyma því að hér er verið að tala um hagsmuni samfélagsins og okkar allra, almennings, að einstaklingurinn komi ekki skaddaður eða verri út eftir að fangavist lýkur. Við þurfum að nálgast þetta aðeins út frá því að það er okkur í hag að vel sé staðið að fangelsismálum og að aðbúnaði fanga. Þetta tengist hagsmunum okkar allra ef menn vilja líta út frá sínum eigin hagsmunum.

Finnar hafa margs konar markmið með fangelsismálum. Þar segir m.a. að framkvæmd fangelsismála eigi að vera örugg fyrir samfélagið, bæði fyrir hinn dæmda og starfsfólkið. Þeir hafa það einnig að markmiði að eftir að fangavist lýkur sé reynt að stuðla að því að hinum dæmda gangi vel í samfélaginu og að auknum möguleikum hans á lífi án afbrota, og um það snýst þetta. Við viljum að einstaklingur sem leiðist til afbrota láti af þeirri hegðun og við eigum ekki að búa til þannig kerfi að það auki líkurnar á að hann haldi tilteknum hætti áfram.

Ég vil aðeins koma inn á samfélagsþjónustuna, en þegar frumvarpið var lagt fyrir síðast fengum við umsagnir frá Dómarafélagi Íslands og dómstólaráði. Báðir aðilar benda á að samfélagsþjónustan eigi að vera dómsathöfn. Í umsögn Dómarafélags Íslands frá í fyrra stendur, með leyfi forseta:

„Dómarafélag Íslands telur að ákvörðun um samfélagsþjónustu sé í eðli sínu dómsathöfn. Skilgreina beri samfélagsþjónustu sem tegund refsingar. Er hún almennt þannig flokkuð af fræðimönnum.“ Dómstólaráð segir svipað í sinni umsögn, með leyfi forseta:

„Samfélagsþjónusta er í eðli sínu refsing og hefur verið skilgreind á þann veg af fræðimönnum í refsirétti. Þar sem samfélagsþjónusta hefur verið í lög leidd í Evrópu er hún hvarvetna hluti af viðurlagakerfi viðkomandi ríkis. Það eru því dómstólar sem ákveða hvort þessu refsiúrræði er beitt.“

Eins og menn vita höfum við þetta ekki, það er Fangelsismálastofnun sem ákveður hvort viðkomandi einstaklingur fái að sinna samfélagsþjónustu eða ekki. Þetta ættum við að taka til umræðu í allsherjarnefndinni, hvort við viljum breyta þessu í þá átt sem aðrar þjóðir hafa gert eða ekki. Mér finnast rök Dómarafélagsins og dómstólaráðs vera sannfærandi en mig langar líka til að taka fram, og ég fagna orðum hæstv. dómsmálaráðherra um að hann sé að opna á ýmsar nýjar leiðir, eins og t.d. aðskilnað yngri og eldri fanga. Fyrir þinginu liggur þingsályktun sem ég hef lagt fram, um þennan aðskilnað og með það að markmiði að sérstaða hinna ungu fanga verði viðurkennd og hægt verði að bregðast við sérþörfum þeirra, sérstaklega á sviði geð- og vímumeðferðar. Ég held að kostirnir séu fleiri en gallarnir hvað þetta varðar. En ég vil taka fram að slíkur aðskilnaður kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að fangelsismálayfirvöld hafi úrræði til að bregðast við einelti eða taka einstaklinga út úr þeirri deild ef þannig mætti vinna gegn hugsanlegri hættu á klíkumyndun o.s.frv. Þetta sýnir ákveðna hugmyndafræði og ég fagna því að hæstv. dómsmálaráðherra opnar þennan möguleika.

Ég vil líka minnast á aðstæður kvenfanga. Eins og komið hefur fram eru þær ekki nægilega góðar. Konur sem eru í fangelsi hafa ekki sömu möguleika og fjölbreytileika og karlkynsfangar og við þurfum að bæta stöðu þeirra því að að sjálfsögðu á að vera jafnræði í þessu eins og í öllu öðru.

Mig langar líka að minnast á aðstandendur fanga. Fráfarandi eða fyrrverandi fangelsismálastjóri sagði einu sinni í fjölmiðlum þegar imprað var á þessu að fangar ættu yfirleitt enga aðstandendur og þá var málið útrætt af hans hálfu. Svona ummæli eru í rauninni ekki svaraverð en við sem erum að reyna að byggja þetta kerfi upp eigum líka að hafa það að markmiði að þetta má ekki snúast um að refsa fjölskyldu fangans. Við þurfum að búa til þannig aðstæður, heimsóknaraðstöðu, símareglur o.s.frv. að aðstandendum og fjölskyldu og ekki síst börnum fanga, því að fangar eiga börn, sé ekki refsað líka. Þetta er auðvitað vandmeðfarið. En þarna vega hagsmunir barns fanga þungt að mínu mati og við þurfum að vera meðvituð um þetta. Að sjálfsögðu eiga fangar foreldra, börn, ættingja og vini sem við þurfum að hafa í huga.

Ég held að við ættum að skoða betur, varðandi fangelsismálin almennt, að fara meira inn í opin fangelsi eins og við sjáum vísi að á Kvíabryggju. Norðurlandaþjóðirnar hafa gert þetta með góðum árangri. Mér fannst svolítið leiðinlegt að lesa í samantekt Fangelsismálastofnunar ríkisins þar sem komið er inn á fyrirhugað nýtt fangelsi sem hefur verið ákveðið að byggja, en eins og staðan er núna hefur ekki verið varið neinum fjármunum í það enn, að samkvæmt skýrslu fangelsismálastjóra er gert ráð fyrir að þetta nýja fangelsi verði öryggisfangelsi í anda Litla-Hrauns. Ég held að við ættum að nota tækifærið og hugsa þetta upp á nýtt og taka tillit til annarra þátta en þeirra sem öryggisfangelsi þarf að uppfylla. Við sjáum að margt er úrelt í þannig hugsun og var meira að segja þegar Litla-Hraun var endurbyggt og gert upp. Við sem höfum heimsótt Litla-Hraun sjáum þennan gríðarlega stóra turn sem gnæfir yfir allt svæðið og við vitum að hann er ekki notaður. Hann er tómur að staðaldri. Þetta sýnir ákveðna hugsanavillu í þessum málaflokki og við eigum að læra af því og fylgjast með nýrri þekkingu á þessu sviði. Það er kannski ekki sérstaklega mikil þörf fyrir einhvers konar turna og háar girðingar.

Við eigum líka að hafa það að markmiði að gera vinnustaðinn eftirsóknarverðan. Þá er ég að tala út frá sjónarhóli fangavarða og forstöðumanna, að það sé eftirsóknarvert að vinna í fangelsum, að þetta sé faglegur og spennandi vinnustaður sem hæfir einstaklingar vilja leita til. Að sjálfsögðu á það við um þessa stofnun eins og allar aðrar stofnanir að eftir því sem vinnustaðurinn er faglegri og betri, þá aukast líkur á að þangað fáist hæfir einstaklingar. Þetta eigum við líka að hafa á bak við eyrað, þ.e. hagsmuni fangavarðanna.

Að lokum langar mig að rifja upp að allsherjarnefnd heimsótti Litla-Hraun í fyrra og nefndin hafði mjög gott af þeirri heimsókn. Í kjölfar heimsóknarinnar ræddum við að okkur langaði til að gera eitthvað sameiginlega í þessum málum þó ekkert yrði úr því á síðasta ári. En þar sem ég sé að formaður allsherjarnefndar er í hliðarsal langar mig til að minna á að við ákváðum að lagfæra eitthvað sem nefndin var sammála um að mætti bæta. Ég held að okkur flestum í nefndinni hafi verið svolítið brugðið hvernig ýmsum fangelsisreglum er háttað, t.d. símareglum, útivistarleyfum og hvernig heimsóknaraðstaðan er. Þetta er eitthvað sem við ættum að geta komið okkur saman um en þurfum ekki að deila um.

Þetta er viðamikið frumvarp og hefur sem betur fer tekið þó nokkrum breytingum frá hinu fyrra frumvarpi. Við í allsherjarnefndinni munum skoða þetta vel og vandlega og senda víða til umsagnar svo að markmið okkar um að einstaklingurinn komi ekki út verri en hann fór inn, nái að rætast samhliða öðrum markmiðum sem að sjálfsögðu er einnig að finna í fangelsismálum.