131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

320. mál
[13:02]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi ekki nokkrar áhyggjur af stjórnsýslulegri stöðu Fjármálaeftirlitsins, að það skuli í fyrsta lagi heyra beint undir ráðherrann og í öðru lagi að það skuli vera fjármagnað af þeim aðilum sem það hefur eftirlit með.

Því er ekki að leyna að í umræðunni að undanförnu, í þeim miklu sviptingum sem verið hafa í fjármálaheiminum, hefur Fjármálaeftirlitið verið gagnrýnt fyrir hversu seint það hefur komið inn í, þó að tilkynna beri Fjármálaeftirlitinu fyrir fram og fá um það mat fyrir fram um uppstokkun eða eignabreytingar á hlutum í fjármálaheiminum hafa þeir yfirleitt verið um garð gengnir þegar Fjármálaeftirlitið hefur rankað við sér og er oft löngu eftir á að spekúlera í því hvort hlutirnir hafi verið löglegir eða ekki.

Ég vil því spyrja ráðherrann hvort hún hafi ekki áhyggjur af þessari veiku stjórnsýslulegu stöðu. Hæstv. ráðherra og ráðuneytið stóðu jú fyrir mestu einkavæðingu og sölu á fjármálafyrirtækjum, bönkum, og sá aðili sem hafði eftirlit með því var starfsmaður stofnunar sem heyrir beint undir ráðuneytið, sem hlýtur að vera mjög óheppileg stjórnsýsluleg staða. Vafalaust hafa þeir staðið sína plikt varðandi það mál en óneitanlega er það óskemmtileg staða að vera settur í að staðfesta eða fara yfir gjörðir ráðuneytisins sem viðkomandi heyrir undir.

Ég leyfi mér því að ítreka hvort ráðherrann telji ekki eðlilegt að breyta stjórnsýslulegri stöðu, stjórnun og fjármögnun (Forseti hringir.) þessarar mikilvægu eftirlitsstofnunar.