131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

320. mál
[13:05]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að mikill misskilningur felist í því sem fram kom hjá hv. þm. Jón Bjarnasyni vegna þess, eins og ég hef margítrekað á hv. Alþingi, að Fjármálaeftirlitið er sjálfstæð stofnun. Þó að það heyri í fjárlögum undir viðskiptaráðuneytið er því ekki stjórnað úr viðskiptaráðuneytinu, langt frá því.

Sannleikurinn er sá að það er ekki fyrr en forstjóri eftirlitsins afhendir mér skýrslu Fjármálaeftirlitsins um starfsemi, sem mér er kunnugt um hvað Fjármálaeftirlitið er að gera. Ég tel því að hlutirnir geti ekkert verið miklu betri hvað þetta varðar. Varðandi það að eftirlitsskyldir aðilar sjái um rekstur Fjármálaeftirlitsins hvað varðar kostnað er það almennt gert með þeim hætti þar sem við þekkjum til og ég tel að það sé ágætisfyrirkomulag. Ýmsir hafa bent á að sama fyrirkomulag ætti að vera í sambandi við Samkeppnisstofnun, eðlilegra væri að eftirlitsskyldir aðilar stæðu undir þeim kostnaði sem þar verður til, en ég tel að það sé miklu flóknara mál vegna þess að í rauninni nær það til allra Íslendinga.

Það er rétt að eitthvað hefur Fjármálaeftirlitið verið gagnrýnt fyrir að það grípi ekki nægilega snemma inn í. En við verðum að gera okkur grein fyrir því að almenningur og ráðuneytið hefur ekki einu sinni vissu um hvað Fjármálaeftirlitið er að sýsla hverju sinni. Bráðlega verður gerð bragarbót á því vegna þess að, eins og ég hef látið koma fram, við munum leggja fram frumvarp á næstunni þar sem þessu verður breytt og (Forseti hringir.) gagnsæið verður aukið.