131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

320. mál
[13:31]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þó að hér sé verið að mæla fyrst og fremst fyrir breytingum á kostnaðarþátttöku eftirlitsskyldra aðila sem greiða gjald sitt m.a. til að standa undir starfsemi Fjármálaeftirlitsins fylgir líka frumvarpinu ítarleg greinargerð um ýmis verkefni Fjármálaeftirlitsins. Það er ástæða til að fara nokkrum orðum um þessar eftirlitsstofnanir ríkisins, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið upp á síðkastið, t.d. í tengslum við það mál sem hefur komið upp varðandi samráð olíufélaganna og hversu miklu máli það skiptir að eftirlitskerfið sem við höfum hér sé trúverðugt og að markaðurinn og þjóðin treysti því að það ráði við það mál.

Það er ágætt að taka útgangspunkt í olíusamráðsmálinu. Í viðtali í Morgunblaðinu 6. nóvember sl. er Þórólfur Árnason borgarstjóri spurður hvers vegna hann hafi ekki gengið út þegar honum varð ljóst að hann var þátttakandi í ólöglegu athæfi. Þórólfur hefur nú axlað ábyrgð og sagt af sér borgarstjóraembættinu þó að störfum hans í því embætti hafi síður en svo verið í neinu áfátt, þvert á móti vann hann starf sitt með miklum sóma. Það er einungis vegna tengsla hans við þessi fyrri mál sem sú ákvörðun var tekin. Í viðtalinu segir Þórólfur, með leyfi forseta:

„Sú spurning horfir öðruvísi við þegar horft er til baka heldur en þegar maður er á bólakafi í vinnunni sjálfri. Að hluta til verður að skoða það í þessu pólitíska andrúmslofti. Ég hefði verið að segja öllu valdakerfi landsins stríð á hendur ef ég ætlaði að brjótast út úr olíuviðskiptunum.“

Þetta eru mjög athyglisverð ummæli sem hljóta að vekja alla til umhugsunar, ekki síst þegar við höfum undanfarið mátt búa við helmingaskiptareglu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins á ríkisstofnunum sem þeir hafa verið að skipta upp og selja, eins og t.d. ríkisbönkunum á sínum tíma sem heyrðu undir viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins.

Við þekkjum líka þessa umræðu varðandi aðrar eftirlitsstofnanir. Það var valið að taka Ríkisendurskoðun undan framkvæmdarvaldinu, setja hana beint undir þingið og láta hana fá sjálfstæða stöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það hefur reynt á. Framkvæmdarvaldið hefur oft verið með óvægna gagnrýni á álit Ríkisendurskoðunar. Gott og vel með það, en Ríkisendurskoðun hefur getað starfað sjálfstætt af því að hún heyrir beint undir þingið og á aðeins að svara fyrir mál sín gagnvart því. Þetta var valið og ég er viss um að sú ákvörðun að taka Ríkisendurskoðun undan fjármálaráðuneytinu sem er að öðru leyti umsjónaraðili með starfsemi og fjármuni ríkisins í landinu hefur reynst happadrjúg.

Stofnun umboðsmanns Alþingis hefur haft gríðarlega mikið og vaxandi hlutverk í að fylgjast með og gæta réttar einstaklinga gagnvart framkvæmdarvaldinu, gagnvart ráðuneytunum, og gagnvart ráðherrunum ekki hvað síst. Það hefur umboðsmaður getað gert í skjóli þess að hann heyrir beint undir Alþingi en ekki undir einstök ráðuneyti. Hann hefur fengið bágt fyrir. Það hefur verið veist að honum, reynt að koma höggi á hann af hálfu framkvæmdarvaldsins. Það þekkjum við úr umræðunni hér á þingi, um skipan dómara svo að dæmi sé tekið þar sem hann hefur gefið umsögn og veitt framkvæmdarvaldinu alvarlegar snuprur og ámæli þó að umboðsmaður hafi í sjálfu sér ekki neitt framkvæmdarvald. Hefði sú valdastaða verið til hefði það getað gengið svo langt að honum hefði verið gert erfitt með að starfa. Staða hans undir Alþingi tryggði honum hins vegar þessa sjálfstæðu stöðu.

Við þekkjum aðra stofnun sem fór á annan veg, Þjóðhagsstofnun. Samt var hún ekki talin tiltölulega óvilhöll ríkisvaldinu. Hún hafði engu að síður sjálfstæða stöðu og skilaði áliti um stöðu efnahagsmála og forsendur þeirra til þingsins. Þjóðhagsstofnun starfaði með Alþingi við mat á fjárlögum og skilaði áliti til efnahags- og viðskiptanefndar hvað það varðaði þannig að Alþingi þyrfti ekki eingöngu að reiða sig á tölur fjármálaráðuneytisins. Hvað gerðist þar? Þjóðhagsstofnun kom með tölur og álit sem ekki voru að skapi framkvæmdarvaldsins og þá voru viðbrögðin þau að leggja Þjóðhagsstofnun niður. Nú búum við við það að í sjálfu sér er engin sjálfstæð efnahagsstofa af hálfu Alþingis til að meta stöðu og t.d. forsendur fjárlaga, enda upplifum við það að álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem átti að fara yfir þessar tekjuforsendur var ekki neitt sem heitið gat, kom varla fram að þeir hefðu lesið frumvarpið. Þannig kom það til Alþingis. Staða Alþingis hvað það varðar er fyrir vikið orðin mjög veik.

Víkjum aftur að stöðu Samkeppnisstofnunar. Henni er ætlað stórt hlutverk. Hún heyrir undir viðskiptaráðherra og hún hefur verið gagnrýnd fyrir að bregðast ekki nógu hratt við, hún hafi ekki gripið nógu ákveðið inn í mál en þó hefur henni tekist að komast það langt að birta skýrslu og skoðun á þessum málum olíufélaganna. Hverju má hún búast við? Hæstv. ráðherra boðaði að nú yrði gerð breyting á skipulagi þessara mála. Vonandi á ekki að fara að refsa Samkeppnisstofnun fyrir að hafa komist svona langt. Ég vona að það verði ekki viðbrögð ráðuneytisins, ríkisstjórnarinnar að fara að refsa Samkeppnisstofnun fyrir það að hún skuli hafa komist þetta langt. En í því andrúmslofti sem við höfum mátt búa við undanfarið, valdbeitingu af hálfu stjórnvalda, getum við búist við öllu í þeim efnum.

Það er ekki að ósekju að maður velti þá líka fyrir sér sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins. Það hefur verið rætt í sambandi við eftirlit með títtnefndu samráði olíufélaganna, samstarfi tryggingafélaganna o.s.frv. hvort Fjármálaeftirlitið hafi komið þar nógu vel að málum. Það vitum við ekki en hitt vitum við að hæstv. viðskiptaráðherra fór með einkavæðingu og sölu á ríkisbönkunum, öllum fjármálastofnunum landsins. Og hvernig var háttalagið þar? Fyrst var gefin út yfirlýsing um að það ætti að bjóða þá til sölu á almennum markaði. Síðan var það tekið til baka. Þá var ákveðið að auglýsa þá og leita eftir tilboðum. Svo komu ekki réttir tilboðsgjafar, tilboðsgjafar sem hugnaðist helmingaskiptaregla Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins varðandi bankana. Þá var sú auglýsing bara gerð ómerk og samið samkvæmt gamla laginu, Framsókn fær þennan og Sjálfstæðisflokkurinn fær hinn. Þetta er staðreynd.

Eftirlitið með þessu átti svo aumingja Fjármálaeftirlitið að hafa. (Gripið fram í: Er það einhver aumingi?) Stjórnsýsluleg staða þess er svo veik í svona máli. Við skulum líta á stjórnsýslustöðu Fjármálaeftirlitsins. Með leyfi forseta stendur í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi:

„Með eftirlit samkvæmt lögum þessum fer sérstök stofnun er nefnist Fjármálaeftirlitið. Fjármálaeftirlitið er ríkisstofnun og lýtur sérstakri stjórn. Stofnunin heyrir undir viðskiptaráðherra.“

Og hver ætli skipi þessa stjórn? Með stjórn Fjármálaeftirlitsins fer þriggja manna stjórn sem viðskiptaráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Reyndar skal einn stjórnarmaður skipaður eftir tilnefningu frá Seðlabanka Íslands en aðrir eru skipaðir af ráðherra, meiri hluti stjórnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann stjórnar og ákveður þóknun stjórnarmanna. Það er að vísu alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að þessi stjórn sem ráðherra hefur skipað ræður síðan forstöðumann þannig að stjórnin er fullkomlega í höndum hæstv. viðskiptaráðherra og á ábyrgð hans. Það væri kannski ekkert óvenjulegt ef bara væri um venjulega stofnun að ræða sem væri með ákveðin skilgreind verkefni og gegndi ekki svo viðamiklu eftirlitshlutverki eins og Fjármálaeftirlitið gerir. Það gæti verið allt í lagi. Hér er hins vegar einn af hornsteinum þess að skapa trúverðugleika í kringum fjármálaheim landsins sem viðskiptaráðherra hefur verið hvað umsvifamestur í að keyra fram breytingar á, umdeildar mjög. Menn hafa velt fyrir sér eftir hvaða reglum hafi verið unnið.

Ég verð hér að leggja áherslu á að að mínu mati er stjórnsýsluleg staða Fjármálaeftirlitsins allt of veik og sú veika staða stendur fyrir þrifum trúverðugleika íslensks fjármálamarkaðar. Það er ekki við starfsmenn þess að sakast. Við skulum vona að þeir vinni verk sín vel en þessi beinu stjórnsýslulegu tengsl við ráðherrann og ríkisvaldið eru ekki trúverðug, síst í ljósi þess hvernig við sjáum að aðrar eftirlitsstofnanir hafa lent í hremmingum í samskiptum við þetta sama ríkisvald. Þjóðhagsstofnun var lögð niður, kom með áætlun sem ekki líkaði. Umboðsmaður Alþingis fær snuprur en heldur sjálfstæði sínu og stöðu vegna þess að hann heyrir beint undir Alþingi. Ríkisendurskoðun var sem betur fer flutt frá fjármálaráðuneytinu til Alþingis og hefur getað starfað þannig innan þeirra marka.

Nú er það Samkeppnisstofnun. Hæstv. ráðherra boðaði áðan að þar mætti búast við breytingum. Ég vona að það eigi ekki að fara að ráðast á Samkeppnisstofnun vegna þess að hún hafi þó komist þetta langt í endurskoðun. Er að furða þó að ágætur borgarstjóri, Þórólfur Árnason, segi það sem hann sagði í viðtalinu sem ég vitnaði til áðan? Það hlýtur að vera okkur öllum áminning um stöðu mála. Ég leyfi mér að ítreka, frú forseti, þau orð sem höfð voru eftir Þórólfi Árnasyni í Morgunblaðinu 6. nóvember sl.:

„Að hluta til verður að skoða það í þessu pólitíska andrúmslofti. Ég hefði verið að segja öllu valdakerfi landsins stríð á hendur ef ég ætlaði að brjótast út úr olíuviðskiptunum.“ — Hann hefur ekki verið að segja þetta að gamni sínu. Það vitum við.

Því höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagt fram tillögu til þingsályktunar um sjálfstæði og eflingu Fjármálaeftirlitsins. Tillögugreinin, með leyfi forseta, er þá lund að Alþingi feli ríkisstjórninni að skipa nefnd sem geri úttekt á starfsskilyrðum Fjármálaeftirlitsins og stöðu þess gagnvart ráðherra, ríkisstjórn og aðilum á fjármálamarkaði. Nefndin geri tillögur um hvernig sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins verði bestu tryggt og starfsemi þess efld. Í því skyni skoði nefndin m.a. stjórnsýslulega stöðu þess og hvort heppilegt sé að það heyri undir Alþingi.

Í greinargerð með þessari tillögu, sem lögð var fram sem eitt fyrsta málið hér í haust en ekki hefur verið ráðrúm til að mæla fyrir, er einmitt rakið mikilvægi sjálfstæðis Fjármálaeftirlitsins, að það sé engin stjórn yfir því sem ráðherra skipi að sínu vali. Þar sé sjálfstæð stjórn. Fjármálaeftirlitið væri langbest komið undir Alþingi þannig að það gæti starfað óháð valdbeitingu eða afskiptum framkvæmdarvaldsins. Þannig yrði trúverðugleiki íslensks fjármálamarkaðar aukinn því það skiptir miklu máli fyrir efnahagslíf þjóðarinnar, fyrir allt siðferði í viðskiptum, að það sé ótvíræður trúnaður í kringum þær eftirlitsstofnanir sem hafa þetta gríðarlega veigamikla hlutverk að fylgjast með.

Það væri t.d. fróðlegt að vita hvað er að gerast núna í fjármálaheiminum. Hæstv. ráðherra minntist á að fyrir dyrum stæðu miklar sameiningar og uppstokkanir á sparisjóðamarkaðnum. Við erum nýbúin, fyrir tæpu ári, að taka mikla umræðu í þinginu um stöðu sparisjóðanna.

Frú forseti. Ég ítreka að ég tel að stjórnsýsluleg staða Fjármálaeftirlitsins sé algjörlega óviðunandi, það eigi að taka þau skref að færa Fjármálaeftirlitið frá viðskiptaráðherra, frá helmingaskiptareglum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, og færa það undir Alþingi.