131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

320. mál
[14:26]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hvað varðar skýrsluna og rekstur Fjármálaeftirlitsins held ég að þar sé allt í tiltölulega góðu lagi og ég gat ekki betur heyrt en að þeir hv. þingmenn sem töluðu séu líka þeirrar skoðunar.

Miklar breytingar hafa átt sér stað á fjármálamarkaði á tiltölulega fáum árum og náttúrlega fyrst og fremst vegna þess að við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Þær lagabreytingar sem hafa átt sér stað á því tíu ára tímabili eru gríðarlega miklar og frumvörpin því mörg sem hér koma fram á ári hverju og varða Fjármálaeftirlitið.

En grundvallaratriðið sem allir þekkja er að við búum við frjálst flæði fjármagns og Seðlabankinn stjórnar með verðbólgumarkmið að leiðarljósi. Öll erum við sammála um að vilja setja skorður við því að verðbólgan nái að komast á skrið því það yrði öllum Íslendingum, ekki síst hinum hefðbundnu neytendum og fjölskyldufólki, mikið áhyggjuefni.

Ég get tekið undir með hv. þingmönnum að sú þróun sem hefur orðið hvað varðar útlán er nokkuð glannaleg. Hún kemur náttúrlega til af því að bankarnir fara í samkeppni við Íbúðalánasjóð og stíga stór skref í þeim efnum. Við vonum svo sannarlega að þeir ráði við það en við höfum eftirlitsstofnanir til þess að fylgjast með þessum þáttum þó að við getum haft á þeim skoðanir og auðvitað höfum við það öll. Að sjálfsögðu eru lánastofnanir og fjármálafyrirtæki ekki að þröngva lánum upp á fólk, það er einstaklingurinn sem tekur ákvörðun um hvernig hann hagar lántökum sínum og við verðum að vona að fólk sé almennt ekki að reisa sér hurðarás um öxl. En breytingarnar eru gríðarlegar og fjármagnið sem er í umferð er mjög mikið.

Hvað varðar hinn þátt málsins sem hefur fyrst og fremst verið ræddur hér og varðar sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins finnst mér, eins og ég lét koma fram áðan, að hv. þingmenn geri óþarflega mikið úr því að þar sé ekki um fullt sjálfstæði að ræða. Ég get svarað því með ákaflega góðri samvisku að stofnunin, þetta eftirlit, starfar algjörlega sjálfstætt. Það er meira að segja svo sjálfstætt að ég man ekki einu sinni hverjir eru í stjórninni. Látið var að því liggja að ég væri í dálítið miklu sambandi við þetta (Gripið fram í.) allt saman en það er ýmislegt sem ráðherrar þurfa að fást við og það segir sína sögu um hvort mikið samband sé þarna á milli. Nú geta hv. þingmenn komið fram með tillögur eins og þeim sýnist og hér kemur fram tillaga frá Vinstri grænum sem verður að sjálfsögðu rædd í þinginu en mér finnst hún á einhverjum misskilningi byggð.

Ég vil líka segja, eins og kom fram áðan, að það mun birtast frumvarp á vorþingi sem snýr að því að auka gagnsæi í starfsemi Fjármálaeftirlitsins þannig að við vitum meira um hvað Fjármálaeftirlitið er að gera hverju sinni. Ég held að það séu ekki nógu mikil varnaðaráhrif af starfseminni að stofnunin vinni í svo mikilli kyrrþey sem raun ber vitni. Þess vegna verður fyrsta skrefið stigið í þeim efnum að meira gagnsæi ríki hvað varðar verðbréfamarkaðinn.

Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa orðin fleiri. Ég þakka fyrir umræðuna og tel að hún sé mikilvæg en ítreka að sú starfsemi sem þarna fer fram kemur mér þannig fyrir sjónir að vera mjög fagleg og skýrslan ber þess vitni. Útlánastarfsemin og aukið fjármagn í umferð er ákveðið áhyggjuefni sem ég veit að bæði Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn horfa á, eins og þeim ber að gera, en meira hef ég í sjálfu sér ekki um það að segja.