131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[14:32]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum, sem er 328. mál þingsins. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt um hafa miklar breytingar orðið á skipulagi raforkumála hér á landi á undanförnum missirum. Er þess skemmst að minnast að í vor sem leið samþykkti Alþingi frumvarp sem varð að breytingalögum við raforkulög, nr. 65/2003.

Frumvarp þetta var byggt á afrakstri svokallaðrar 19 manna nefndar sem í ofangreindum lögum var einkum falið að gera tillögur um fyrirkomulag flutningskerfis raforku, rekstur þess og kerfisstjórnun auk annarra þátta svo sem hvernig jafna skyldi kostnað í raforkukerfinu. Ljóst var í vor að líklegt væri að gera þyrfti frekari breytingar á raforkulögum þegar undirbúningur markaðsopnunar væri lengra á veg kominn.

Í sumar og haust hafa komið fram nokkur atriði sem rétt þykir að skýra eða skipa með öðrum hætti en koma fram í gildandi lögum. Það frumvarp sem hér er lagt fram er unnið af starfsmönnum iðnaðarráðuneytisins í nánu samstarfi við Orkustofnun en stofnunin gegnir veigamiklu hlutverki við nýskipan raforkumála.

Þá er rétt að geta þess að frumvarp þetta hefur verið kynnt Samorku, samtökum raforkufyrirtækja.

Herra forseti. Ég mun á eftir rekja veigamestu atriði frumvarpsins. Ég tel rétt að taka fram að nokkur atriði frumvarpsins snúa aðeins að því að skýra eða leiðrétta einstaka þætti gildandi raforkulaga, nr. 65/2003, og mun ég ekki dvelja við þau atriði sérstaklega.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að stjórn og fastráðnir starfsmenn flutningsfyrirtækisins hafi stöðu opinberra sýslunarmanna. Þótt hér sé farin sú leið að setja ákvæði um þetta inn í III. kafla raforkulaga er ljóst að það kemur til með að gilda um starfsmenn Landsnets hf. en það fyrirtæki mun um áramót taka við rekstri allra flutningsstyrkja raforkukerfisins.

Sú breyting sem hér er lögð til er gerð í því skyni að starfsmenn flutningsfyrirtækisins hafa sömu réttarstöðu og þeir starfsmenn er nú starfa við flutning raforku. Hér er enda um að ræða sömu starfsmenn og ekki heppilegt að breyting verði á réttarstöðu starfsmanna þótt hlutafélag annist þau verkefni sem áður voru falin Landsvirkjun. Landvirkjun hefur hingað til rekið meginflutningskerfið. Fastráðnir starfsmenn þess fyrirtækis hafa stöðu opinberra sýslunarmanna. Af því leiðir að um þá gilda lög nr. 33/1915, um verkfall opinberra starfsmanna. Þeir hafa því ekki verkfallsrétt og eru kjör þeirra við það miðuð.

Telja verður að þungvæg rök hnígi að því að tryggt sé að starfsmenn flutningsfyrirtækisins verði ekki fyrir truflunum vegna vinnudeilna. Hér er því lagt til að sama fyrirkomulag og gilt hefur gagnvart þeim starfsmönnum sem hafa starfað við flutning raforku gildi einnig eftir þá kerfisbreytingu sem fram undan er.

Í 2. gr. frumvarpsins er fjallað um breytingu á 12. gr. laganna. Þar er að finna heimild til að taka tillit til þess við gjaldskrárgerð ef arðsemi undanfarandi þriggja ára er utan þeirra marka sem sett eru í lögunum. Ekki er hins vegar tekið á því hvernig með skuli fara ef innheimtar tekjur samkvæmt gjaldskrá eru utan tekjumarka viðkomandi fyrirtækja en þó innan arðsemismarka. Þannig gæti verið að fyrirtæki innheimti of há gjöld og færi því upp fyrir tekjuhámark sitt en væri illa rekið og arðsemin því innan marka. Orkustofnun hefur heimild í 2. mgr. 26. gr. raforkulaga til að breyta gjaldskrám til að stöðva of háa gjaldtöku en heimildin nær ekki til þess að ná með lækkun gjaldskrár til baka ofteknum gjöldum aftur í tímann. Hér er lagt til að við endurskoðun tekjumarka á þriggja ára fresti verði heimilt að færa of- eða vanteknar tekjur milli ára og að í reglugerð verði sett hámark á það hlutfall tekjumarka sem heimilt verði að geyma milli ára. Slík heimild þekkist víðast hvar erlendis þar sem opnun raforkumarkaðar hefur þegar átt sér stað.

Við undirbúning frumvarps um breytingu á raforkulögum er varðaði flutningskafla raforkulaga sem varð að lögum sl. vor var gengið út frá því að dreifiveitur greiddu til flutningsfyrirtækisins fyrir alla raforku sem notuð væri á viðkomandi dreifiveitusvæði. Skipti þar ekki máli hvort orkan kæmi frá flutningskerfinu eða frá virkjunum á viðkomandi dreifiveitusvæði beint inn í dreifikerfi, enda væri það sú raforka sem flutningsfyrirtækið þyrfti að hafa til reiðu ef bilanir kæmu upp. Hér er verið að samræma gjaldtöku fyrir innmötun og úttekt og að greitt sé sama gjald hvort sem orkan fer beint inn í flutningskerfið eða tengist dreifiveitu. Ekki var kveðið nægilega skýrt á um þetta í lögum nr. 89/2004 sem kváðu á um breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, og samþykkt voru sl. vor. Hér er lagt til að úr þessu verði bætt og tekinn af allur vafi um hvernig reikna beri út úttektargjald.

Samkvæmt gildandi raforkulögum skal innmötunargjald af virkjunum undir 7 megavöttum sem ekki tengjast flutningskerfinu beint skipt milli dreifiveitu og flutningsfyrirtækis. Hér er lagt til að allar virkanir búi við sömu meginreglur, að þær allar greiði innmötunargjald til flutningsfyrirtækisins en viðkomandi dreifiveita sjái um innheimtu þess. Á hinn bóginn er lagt til að kveðið verði á um skyldu flutningsfyrirtækisins til að greiða viðkomandi dreifiveitu fyrir þá þjónustu sem hún veitir við að annast tengsl virkjunarinnar við flutningskerfið.

3. gr. frumvarpsins fjallar um breytingu á 17. gr. laganna. Í 8. mgr. 12. gr. laganna segir að virkjanir sem tengjast flutningskerfinu beint geti þurft að greiða sérstakt upphaflegt tengigjald ef tekjur eru ekki taldar standa undir tengingunni og hún geti notið þess að tenging hennar er hagkvæm. Hliðstætt ákvæði er ekki að finna um virkjanir undir 7 megavöttum sem ekki ber að tengja flutningskerfinu heldur tengjast dreifikerfinu. Þó má krefja þær um viðbótarkostnað en ekki er beint ákvæði um hið gagnstæða, að slík virkjun geti notið þess hagræðis sem af tengingu hennar kann að leiða. Á því er tekið hér. Dreifiveitum er gert skylt að láta virkjun mundir 7 megavöttum sem tengist dreifikerfi beint njóta þess hagræðis sem kann að leiða af tengingu hennar, til að mynda vegna minnkandi tapa í viðkomandi dreifikerfi.

Opnun raforkumarkaðarins fer fram í áföngum. Um næstu áramót munu stærri notendur geta valið sér raforkusala en almennir notendur ekki fyrr en 1. janúar 2007. Þrátt fyrir það er í gildandi lögum ekki gert ráð fyrir að eftirlit Orkustofnunar með gjaldskrám til raforku verði nema til næstu áramóta. Því er lagt til að haft verði eftirlit með því að ekki verði óeðlilegar hækkanir á gjaldskrám fyrir raforku á árunum 2005–2006, þ.e. umfram raunkostnað, og heimilað að grípa til setningar reglugerðarákvæða um hámarksverð ef óeðlilegar hækkanir á raforku koma í ljós.

Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að setning tekjumarka fyrir dreifiveitur og flutningsfyrirtæki verði fyrst um sinn einungis til eins árs. Almenna reglan verði hins vegar að tekjumörk verði sett til þriggja ára. Ástæða þess að heppilegt þykir að setja takmörk á aðeins til eins árs í fyrstu er sú að vænta má að upp kunni að koma atriði sem lagfæra þarf og er því heppilegt að setja tekjuramma til eins árs í fyrsta skipti.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.