131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[15:02]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Nú er þetta mál enn einu sinni til umræðu. Ég hef haft það hlutverk í gegnum tíðina, frá því að ég a.m.k. fór að taka þátt í umræðum um þetta mál, að reyna að biðja um umræðu um grundvallaratriðin hvað varðar eignarhald á þeim fyrirtækjum sem eiga að taka þátt í þessari samkeppni. Stjórnvöld, sérstaklega hæstv. ráðherra, hafa aldrei lagt fram neinar hugmyndir um það hvernig þessum hlutum yrði sem eðlilegast fyrir komið. Það er gjörsamlega óþolandi þegar stjórnvöld ganga fram með að einkavæða — einkavæðingarhugmyndir eru alla vega á bak við ráðstafanir eins og þessar yfirleitt — að þá skuli menn ekki gera sér grein fyrir því hverjir eigi að taka þátt í samkeppni á markaðnum sem á að búa til.

Nú er Landsvirkjun fyrirtæki sem Íslendingar eiga, ríkissjóður og tvö bæjarfélög í landinu. Þetta fyrirtæki hefur fengið að velja hagkvæmustu virkjunarkosti í landinu fram að þessu, sameiginlegar auðlindir okkar til nýtingar.

Nú er niðurstaðan sú að það eigi að skapa samkeppnisumhverfi. Það er auðvitað fráleitt að þetta fyrirtæki geti verið eignaraðili að flutningsfyrirtækjum. Það hlýtur að þurfa að skilja með trúverðugum hætti þættina að. Það er ekki gert í þeim málatilbúnaði sem hér liggur fyrir. Ég kýs að ræða málið út frá þeirri stöðu sem það er komið í. Það er búið að taka ákvörðun um að þetta fyrirkomulag verði og ég ætla þess vegna ekki að fara í umræðu um það hvort fara hefði átt í þessa göngu eða ekki. Sú umræða hefur tekið enda. Ég hef hins vegar margreynt að fá fram umræður um það hvernig menn sjái þetta fyrir sér og mér finnst eiginlega að hæstv. ráðherra ætti að vera tilbúin til þess að lýsa fyrir okkur á hv. Alþingi hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér samkeppnisumhverfið í framtíðinni. Hver verður framtíð Landsvirkjunar? Finnst hæstv. ráðherra að það gangi inn í framtíðina að Landsvirkjun eigi stóran hlut í flutningskerfinu, í Landsneti? Ég sé ekki fyrir mér að það geti gengið til framtíðar og mér finnst að það þurfi að tala um það.

Mér finnst líka að hæstv. ráðherra þurfi að útskýra fyrir okkur hvað hún sjái fyrir sér með framtíð Rariks. Hvernig verður því fyrirtæki fyrir komið? Æðimargir spyrja mann um þá hluti. Þar vita menn nákvæmlega ekkert hvað er fram undan eða hvernig því fyrirtæki á að reiða af í þessari samkeppni eða samkeppnisumhverfi sem menn tala hér um.

Ótalmargt sem hlýtur að vera óljóst þegar menn leggja í svona göngu og ég skil svo sem vel að koma þurfi inn með einhverjar breytingar á þeim lögum sem hér liggja fyrir. En það er líka mjög ádeiluvert að menn skuli ekki leggja í þessa göngu með skýrar yfirlýsingar um hvert þeir ætli að fara. Ég sé það fyrir mér að ef menn ætla að gera þessa hluti þá verði að leysa með einhverjum hætti Reykjavíkurborg og Akureyri út úr Landsvirkjun og að það verði líka að leysa Landsvirkjun út úr flutningsfyrirtækinu, að því þurfi menn að stefna. Það þurfa einnig að liggja fyrir yfirlýsingar um að svoleiðis skuli staðið að málum því annars verður aldrei hægt að líta á þessa hluti þannig að það sé ekki samkrull í þessu öllu saman. Hvernig ætla menn að koma í veg fyrir að þessi fyrirtæki verði tortryggð í framtíðinni ef eignarhaldið á allt saman að vera samkrullað eins og það liggur fyrir núna?

Ég hef ekki getað séð fyrir mér að eignarhald á Landsvirkjun geti verið annað en það að ríkið eigi hana. Landsvirkjun á og rekur í dag mikilverðustu orkulindir landsins. Það er fráleitt annað en að hún verði áfram fyrirtæki í eigu almennings. Eina hugsanlegu aðilarnir aðrir sem komið gætu til greina að ræða í því sambandi væru lífeyrissjóðir landsmanna eða einhverjir slíkir. En þá þurfa menn að velja á milli hvort lífeyrissjóðirnir geti orðið eignaraðilar að Landsvirkjun eða hvort þeir gætu orðið hugsanlega eignaraðilar að flutningsfyrirtækinu, ekki á báðum stöðum. Að mínu viti er það útilokað.

Mér finnst líka að hér þurfi að ræða um Rarik og þá stöðu sem sveitarfélögin önnur í landinu en þau sem eiga í Landsvirkjun eru í. Fólkið á landsbyggðinni hefur byggt upp eignir Rariks. Við höfum líka horft upp á það að þau bæjarfélög sem eiga í Landsvirkjun hafa eignast gífurleg verðmæti í gegnum það að reka fyrirtæki sem nýta sameiginlegar auðlindir. Það var ekki björgulegt að fara svona af stað með þetta í upphafi. Nú er tækifæri til þess að rétta þetta af. Ég sé ekki betur en það gæti t.d. gerst með því að sveitarfélögin önnur í landinu eignuðust hlut í Rarik eða flutningsfyrirtækinu.

Mér finnst alla vega ekki að hægt sé að skilja þannig við þessi mál að ekki sé reynt að rétta eitthvað af þar sem hallast á eftir að tvö bæjarfélög í þessu landi hafa verið eignaraðilar og rekstraraðilar að sameiginlegum auðlindum okkar og hagnast á því gífurlega. Það er engin ástæða til þess að hliðra sér hjá þessari umræðu. Það liggur allt fyrir um það hvernig þessar eignir hafa orðið til. Það er vel hægt að reikna út að hvaða leyti Akureyri og Reykjavík hafa hagnast á framlögum sínum og að hvaða leyti þau hafa hagnast á því að hafa haft aðgang að þessum sameiginlegu auðlindum og hvað vanti þá upp á gagnvart öðrum sveitarfélögum í landinu. Út úr þessu gæti auðvitað komið fyrirtæki sem væri skipt eðlilega. Mér finnst að það sé aðalatriði málsins að menn viti hvert þeir ætla í þessu. Hæstv. ráðherra hefur aldrei látið frá sér fara orð svo ég hafi heyrt um það hvernig menn sjái þessa framtíð fyrir sér.

Ég tek undir það að ljóst er að það frumvarp sem hér liggur er bara eitt af fyrstu frumvörpunum. Þau munu verða fleiri því hér er á ferðinni mál sem er ekki undirbúið með þeim hætti að það sé komið í framtíðarhorf. Mér finnst reyndar full ástæða til þess að halda að sumt af því sem hér er sett fram muni kannski ekki standast allt of vel. Ég vek t.d. athygli á því að í e-lið 2. gr. frumvarpsins stendur, með leyfi forseta:

„Krefjast skal greiðslu ef tenging nýrra virkjana eða stórnotenda við flutningskerfi veldur auknum tilkostnaði annarra notenda kerfisins.“

Síðan stendur í útskýringu með þessu, með leyfi forseta:

„Tenging nýrra virkjana eða stórnotenda hefur að sjálfsögðu kostnað í för með sér, en ákvæðinu er ætlað að taka af tvímæli um að sú tenging megi ekki auka kostnað annarra notenda flutningskerfisins verulega.“

Það er nákvæmt orðalagið. Hver á að skera úr um þetta? Á Orkustofnun að finna út úr því hvort þetta sé verulegt eða ekki? Er hægt í lagasetningu að taka svona til orða? Ég held að menn verði nú að skoða þetta betur í nefndinni.

Síðan finnst mér ástæða til þess að benda á annað. Hér er talað um að hafa eigi að þetta fyrirtæki, Landsnet, í gjörgæslu og fyrirtækin sem selja orkuna í gjörgæslu, a.m.k. næstu árin, og hafa í huga hvað þau hafi hagnast eða hvort þau hafi tapað. Í máli sem dreift var á þinginu og var á dagskránni í dag, en komst ekki til umræðu, segir í lok skýringa, með leyfi forseta:

„Miklar sveiflur hafa verið í afkomu orkufyrirtækjanna á síðustu árum. Þannig voru fimm af sex stærstu orkufyrirtækjunum rekin með tapi á rekstrarárinu 2001 og á árinu 2000 voru þrjú af fyrirtækjunum sex rekin með tapi. Hins vegar voru öll fyrirtækin nema eitt rekin með hagnaði á árinu 1999.“

Það virðist hafa farið að ganga heldur verr hjá þeim eftir aldamótin. Það er kannski þetta sem menn hafa í huga núna þegar þeir velta því fyrir sér hvernig eigi nú að passa upp á að allir fái sitt. Þetta segir okkur auðvitað enga aðra sögu en þá að það trúir enginn af þeim sem hefur staðið í því að setja saman reglur og lög um þessi fyrirtæki að hægt verði að gera þetta öðruvísi en með því að hafa þetta allt saman í gjörgæslu, sjá til þess að hver fái sitt. Hver er svo á hinum endanum? Það er bara neytandinn. Reikningurinn til hans á að taka sveiflurnar af öllu saman.

Er þetta þá einhvers konar samkeppnisumhverfi? Nei, ég held að þetta lýsi því nú bara best að þeir sem þarna um véla trúa því ekki því í samkeppni taka menn ábyrgð á því að bjóða fram þjónustu og standa við tilboð sitt. Það getur gengið upp og niður og þá kemur upp úr dúrnum hverjum gengur best á samkeppnismarkaði.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig sér hún fyrir sér samkeppni milli orkuframleiðenda á Íslandi? Hvað telur hæstv. ráðherra að muni gerast ef eitt af stærstu orkufyrirtækjunum í landinu ákveður nú að virkja í þeim tilgangi að ná sér í stærri hlutdeild á markaðnum, hefur hagkvæman orkukost til þess og virkjar virkilega til þess að taka þátt í samkeppni, bjóða fram verulegt magn af raforku inn á markaðinn? Hvað gerist þá?

Ég held að menn hafi ekki alveg áttað sig á því hvernig markaðurinn er vegna þess að þeir sem virkja, þeir sem fjárfesta í orkufyrirtækjum eru fyrst og fremst að fjárfesta í vélum og tækjum, en ekki í rekstri. Þegar búið er að virkja sitja menn uppi með nánast allan kostnaðinn. Rekstrarkostnaður virkjunarinnar er hins vegar mjög lítill og ef of mikið af raforku verður til á markaðnum, hvað gerist þá? Þeir sem eru í samkeppninni hafa hagnað eða öllu heldur fjármuni út úr því að selja orkuna, jafnvel fyrir mjög litla fjármuni, vegna þess að annars fá þeir ekki neitt.

Ég tel að þetta vandamál sé nánast óleysanlegt og ég veit að þeir sem reka orkufyrirtækin í landinu treysta því að ekki verði farið út í samkeppni af þessu tagi. En þetta segir allt um að á þessum markaði, sem er allt of lítill til þess að stórframleiðendur á orku geti keppt á honum, er ekki hægt að reka samkeppni milli orkuframleiðenda, það er ekki mögulegt. Sú samkeppni mundi kosta rekstrargrundvöll fyrirtækjanna á auga lifandi bragði.

Ég geri ráð fyrir að þetta vandamál komi ekki upp alveg á næstunni, einfaldlega vegna þess að menn hamast við að virkja upp í verkefni sem munu taka krafta á næstunni. En stóru orkufyrirtækin hafa samt gert ráð fyrir því að sjá markaðnum í landinu fyrir raforku. Með fyrirkomulaginu er búið að gefa öðrum aðilum möguleika á því að fara að virkja. Það er nánast búið að segja við þá alla: Ef þið virkið getið þið fengið að selja á markaðnum.

Það gæti því komið upp sú staða að stóru orkuframleiðendurnir stæðu frammi fyrir því að ýmsir aðilar á Íslandi væru allt í einu farnir að bjóða verulegt magn af raforku á markaðinn og draga færi úr því sem þeir stærri gætu selt.

Ég held að þetta sé vandamál sem hafi ekki verið rætt mjög mikið en sé virkilega mikið umhugsunarefni og segir manni að á næstunni verði þetta býsna mikið miðstýrt fyrirkomulag. Ég sé alla vega ekki fyrir mér samkeppnisumhverfi á þessum markaði þar sem framleiðendur raforku fari að keppa af einhverju viti. Það verða stóru fyrirtækin, ekki kannski með samráði en svona með tilliti hver til annars, sem ákveða hvaða verð verður á raforku á Íslandi. Þeir litlu munu auðvitað nýta sér þá gjaldskrá sem þannig verður til og þeir stóru verða alla vega að taka tillit til þess. Ég ætla þeim svo sem ekki að þeir verði í vandræðum með að keppa við litlu fyrirtækin um verðið, en ég dreg afar mikið í efa að þetta verði trúverðug samkeppni.

Mig langar líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvort og hvernig gangi með allan þann skóg af reglugerðum sem getið var um í raforkulögunum að þyrfti að setja. Ég hef ekki talið það saman en það eru býsna margar reglugerðir sem gert er ráð fyrir að verði settar um þessi efni og spyr hvort þær séu farnar að líta dagsins ljós og séu allar að koma.

Einnig langar mig til að spyrja eftir því hvað hafi orðið um málefni sem komu upp í tengslum við þetta, t.d. afslættir Landsvirkjunar og Rariks til fiskeldis og garðyrkju, hvort hæstv. ráðherra sé búinn að finna leiðir til að koma í veg fyrir að raforka hækki verulega til þessara aðila eða hvort þeir þurfi að sitja uppi með að breytingin út af fyrir sig verði til þess að framleiðslukostnaður þeirra hækki verulega. Ég hefði áhuga á að heyra um þetta.

Hæstv. forseti. Ég ætla að endurtaka það í lok ræðu minnar að mér finnst kominn tími til að hæstv. ráðherra sýni okkur svolítið inn í þá framtíðarsýn sem ríkisstjórnin hefur hvað þessi mál varðar, sérstaklega eignarhaldið á fyrirtækjunum sem eiga að leika stærstu hlutverkin því ég tel afar brýnt að menn fari að komast til ráðs með að hverju þar er stefnt. Þarna þurfa að verða trúverðug skil á milli fyrirtækjanna. Hvernig sem svo mönnum gengur að búa til einhvers konar samkeppni í þessum geira í framtíðinni er það náttúrlega fyrst og fremst grundvöllurinn til þess að menn trúi því að ekki sé verið að snúa á þá að neytendur hafi traust á því hvernig staðið er að málum, jafnvel þótt miðstýrt verði, að ekki sé eignarhald öllum megin við borðið.