131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[15:22]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Við fjöllum enn á ný um frumvarp til raforkulaga. Það er ekki liðið hálft ár frá því að raforkulög voru síðast afgreidd á Alþingi. Ég ætla ekki að endurtaka það sem fram hefur komið í umræðunni en vil nota tækifærið til að gagnrýna þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við lagasetninguna alla.

Eins og margoft kom fram í umræðunni á síðasta þingi er ég þeirrar skoðunar að við hefðum ekki þurft að setja þessi lög. Við hefðum átt að geta fengið undanþágu, en menn voru ekki vakandi á sínum tíma þegar unnt hefði verið að fá hana, því það gilda auðvitað allt aðrar reglur um raforkumarkaðinn á Íslandi sem er einn og sér úti í miðju Atlantshafi. Það er skiljanlegt að Evrópuríkin hafi þurft að setja svona lög þar sem verið er að selja raforku yfir landamæri og samkeppni getur verið virk, en við erum sem sagt í lokuðu kerfi.

En það þýðir ekki að að tala um það, búið er að setja lögin og auðvitað mátti vita að lappa þyrfti upp á þessa nýju lagasetningu fljótlega. Það var óttaleg handarbakavinna á frumvarpinu sl. vetur og enn á ný er komið allt of seint inn með þetta frumvarp. (Gripið fram í.) Allur veturinn? Mér skilst að klára þurfi lagasetninguna fyrr en síðar vegna gjaldskráa í kerfinu og spyr hæstv. ráðherra: Er það rétt eða höfum við allan veturinn fyrir okkur í að sinna lagasetningunni, því auðvitað þurfum við að vinna almennilega að þessu? Málið var keyrt allt of hratt í gegnum hv. iðnaðarnefnd sl. vor því ýmsir annmarkar eru á lagasetningunni og hefði betur verið farið almennilega yfir það og málið skoðað betur en að keyra það áfram í hv. iðnaðarnefnd eins og gert var.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra út í reglugerðirnar. Það er fjöldinn allur af reglugerðarheimildum í raforkulögunum eins og þau eru núna og gott ef ekki er verið að bæta við reglugerðarheimild í frumvarpinu. Það væri því full ástæða til þess þegar iðnaðarnefndin fær málið til umfjöllunar að hún fái drög að þeim reglugerðum sem eru í farvatninu frá hæstv. ráðherra.

Ég ætla ekki að fara í mikla umræðu um málið en vildi koma að gagnrýni minni um vinnubrögðin. Það eru lok nóvember og næsta umfjöllun um málið verður ekki fyrr en einhvern tíma í desember eða í lok janúar, sýnist mér ef maður horfir á dagskrá þingsins, og hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra er ekki löngu kominn með málið í þingið? Við höfum fundað í sölum Alþingis frá 1. október og nánast ekkert komið inn af málum frá ráðherrunum. Svo seint og um síðir er komið með málið inn og ætlast til þess að menn flýti fundum í iðnaðarnefnd til þess að koma málinu frá.

Hvað hefur dvalið málið? Hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra var ekki tilbúin með þetta 1. október þegar við komum saman til þings ef það er svona áríðandi að afgreiða þetta?

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra skýri það og tel fulla ástæðu til þess að við tökum okkur góðan tíma í nefndinni til að fara yfir málið og skoða það frá öllum hliðum og kanna þá þætti sem fram hafa komið í umræðunni hjá þeim sem hafa tekið til máls á undan mér og að við skoðum reglugerðirnar og annað sem að málinu öllu snýr. Ég frábið mér að við fáum frumvörp til breytinga á raforkulögum árvisst eða jafnvel oftar á ári á næstunni. Ég fer því fram á að hv. iðnaðarnefnd taki sér góðan tíma til að skoða málið.