131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[15:28]

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þá er byrjað að tína plástrana upp úr sjúkrakassa iðnaðarráðuneytisins til að lappa upp á þetta götótta kerfi sem var sett saman fyrir ári eða svo.

Það verður að segjast eins og er að það er mikið til í því sem haft var eftir bandarískum fræðimanni og iðnjöfri held ég sem kom hingað til lands í fyrravetur þegar hann lýsti raforkuiðnaðinum sem iðnaði í fjötri kreddukenninga. Kreddukenningarnar eru í markaðsvæðingunni, sem eru eins og trúarbrögð sem hafa farið eins og eldur í sinu og undantekningarlaust leitt til hækkunar á raforkuverði til heimilanna þó svo að kannski stærstu fyrirtæki og í sumum tilfellum meðalstór fyrirtæki hafi getað lækkað raforkukostnaðinn hjá sér.

Kerfið var innleitt á Íslandi þvert á hagsmuni neytenda og þvert á þá sérstöðu sem íslenskur raforkumarkaður hefur, eins og hér hefur verið lýst áður. Þetta er lítill markaður, þetta er einangraður markaður, þetta er heildstæður markaður og er allur í almannaeigu og á Íslandi er rafmagnið ódýrt. Aðstæður hér voru ekki eins og í henni Evrópu þegar sameiginlegur evrópskur markaður var tekinn upp, að þar væri bullandi raforkuskortur á köflum en mikið aukaafl í kerfinu annars staðar. En þetta skyldi gert og var gert.

Hitt er svo annað mál að það sem er verst við þetta, og þar sem ráðherrann reyndist og í rauninni allir sem að málinu komu kaþólskari en sjálfur páfinn, það var að hlutafélagavæða flutningsfyrirtækið, vegna þess að þegar litið er til landanna í kringum okkur kemur í ljós að þar hafa ríkin haldið flutningskerfunum hjá sér og kemur ekki til hugar að setja þau út á almennan markað. Þó svo að framleiðslufyrirtækjunum sjálfum og sölufyrirtækjunum hafi verið breytt í hlutafélög og þau hafi jafnvel verið seld út á almennan markað og einkavædd með þeim hætti þá er það þannig á öllum Norðurlöndunum að flutningskerfið er lykilatriðið í öryggi raforkukerfanna, þ.e. að tryggja flutningsgetuna og öryggi í kerfinu, að það sé næg flutningsgeta og að flutningurinn sé öruggur.

Því miður hefur ríkisstjórnin og þessir páfar einkavæðingar og markaðshyggju í ríkisstjórninni komið óorði á hlutafélagaformið með því að nota það alltaf sem undanfara einkavæðingar. Hér er skýrt dæmi um það þar sem er þetta flutningsfyrirtæki vegna þess að það er innbyggt í lögunum að það megi fara á almennan markað, ef ég man rétt, 1. janúar 2011. Verslunarráðið kvartaði stórum undan því á fundi sínum í gær, sem hér var lesið upp úr að hluta af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að ekki væri hægt að versla út fyrir eigendahópinn fyrr en þá með hluti í þessu flutningsfyrirtæki.

Meðan við erum að fást við það hér að hlutafélagavæða flutningsfyrirtækið vil ég geta þess að í Danmörku eru tvö flutningsfyrirtæki sem flytja rafmagn. Annað heitir Eltra og hitt er Elkraft System. Annað er sameignarfyrirtæki, hitt er samvinnufyrirtæki. Í Noregi er það Statnett sem sér um flutninginn. Og hvernig skyldi rekstrarformið á því vera, ætli það sé einkavætt? Ónei, það er ríkisfyrirtæki. En hvernig er það þá í Svíþjóð? Þar er það Svenska Kraftnett sem er flutningskerfið. Og í hvaða rekstrarformi skyldi það vera, hæstv. ráðherra? Jú, það er ríkisfyrirtæki. En á Íslandi erum við náttúrlega kaþólskari en páfinn, eins og ég sagði, og þar skal þetta vera hlutafélag samkvæmt almennum hlutafélagalögum hér á landi og það er meira að segja gengið svo langt að búið er að ákveða hvenær fara eigi í einkavæðingu á þessu fyrirtæki.

Hæstv. forseti. Það skapast mýmörg álitamál og sjónarmið og hagsmunir skarast þegar starfsemi, rekstur félags, er flutt af sviði opinberra hagsmuna yfir á svið einkaréttar í formi hlutafélags. Þetta hafa nágrannalönd okkar farið í gegnum á undanförnum árum og þar hefur orðið mikil umræða um málið. Hún hefur ekki verið fyrirferðarmikil hér á landi.

Með háeffun fyrirtækja, opinberra fyrirtækja, er reksturinn færður út fyrir ýmsar reglur og lög sem um opinberan rekstur gilda og skuldbindingar sem gilda um hann gilda þá ekki lengur. Þannig gilda stjórnsýslulög ekki um hlutafélög samkvæmt íslensku hlutafélagalögunum og upplýsingalög gilda ekki heldur enda þótt þau gildi á sviði opinbers réttar. Hvað þýðir það? Jú, það vita menn í þessum sölum mætavel, það er ekki aðgangur fyrir eigandann, sem er íslenska ríkið, og fulltrúa hans í þessum sölum að upplýsingum svo sem eins og um laun stjórnenda og stjórnarmanna né heldur um aðrar stórar ákvarðanir sem teknar eru á vegum fyrirtækisins og það er lítil sem engin leið að fylgjast með rekstri og árangri af rekstri fyrirtækisins.

Lög um opinbera starfsmenn gilda ekki heldur þegar opinberu fyrirtæki er breytt í hlutafélag. Og nú skal sett undir þennan eina leka, þ.e. hér er í rauninni verið að tryggja stöðu starfsmanna þessa flutningsfyrirtækis, að þeir hafi stöðu opinberra sýslunarmanna, hafi ekki verkfallsrétt, og þeir hafi væntanlega tryggt allt annað í starfsumhverfi sínu sem þeir hafa í gegnum kjarasamninga hingað til.

Í nágrannalöndum okkar er til annað rekstrarform sem er ríkishlutafélag eða opinbert hlutafélag. Í Danmörku — en við höfum löngum tekið mikið mið af dönskum rétti í þessum efnum — eru ákvæði um ríkishlutafélög og í raun má segja að í dönsku lögunum sé gerð sú krafa að um hlutafélög sem eru að meiri hluta til í opinberri eigu gildi það að þau séu tilkynningarskyld, þau séu opin sem um opinbert fyrirtæki væri að ræða. Þannig eru til að mynda hluthafafundir og aðalfundir þessara félaga opnir fyrir fjölmiðla og allan almenning og það gilda líka um þau ákvæði samsvarandi þeim sem gilda um hlutafélög sem skráð eru á markað eða skráð eru í kauphöll. Í hvoru tveggja er fólgið mikið aðhald og í rauninni er verið að tryggja að um þennan rekstur gildi áfram opinbert eftirlit svo lengi sem meirihlutaeignin er í eigu opinberra aðila. Og ég vil upplýsa það, virðulegi forseti, að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði munum flytja á næstu dögum þingsályktunartillögu um að almennu hlutafélagalögunum íslensku verði breytt í þá veru sem gildir í dönskum rétti og að við fáum ákvæði í okkar hlutafélagalög um hlutafélög sem eru að meirihlutaeign í opinberri eigu, þ.e. sveitarfélaga eða ríkis, og þau hafi sömu stöðu og móðurfélög skv. 2. gr. núgildandi hlutafélagalaga, sem er sú sama og er í dönsku hlutafélagalögunum.

Ef ríkisstjórnin og ráðherra bera gæfu til þess að fylgja okkur á þeirri vegferð að breyta ákvæðum hlutafélagalaga þá þarf hún ekki að vera með sjúkrakassann á lofti á þriggja til fimm mánaða fresti á næstu árum, vegna þess að þar er sett undir þá leka sem eru gallarnir á því formi að breyta opinberum rekstri yfir á svið einkaréttar. (Iðnrh.: Það hefur nú aldrei verið ljótt að vera með sjúkrakassa.) Ja, það er ljótt ef menn þurfa alltaf hreint að vera með hann á lofti, hæstv. ráðherra, það er eiginlega betra að setja undir lekana fyrir fram.

Það er auðvitað margt sem væri áhugavert að ræða varðandi stöðu raforkumála í landinu um þessar mundir. Ég get ekki neitað mér um að svara aðeins því sem hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi áðan, þ.e. eignarhaldið á Landsvirkjun og staða Reykjavíkurborgar í því. Ég tek ekki undir að það hafi verið svo mikill gróði hjá Reykjavíkurborg vegna aðildarinnar að Landsvirkjun, mönnum sýnist sitt hvað um það. En það er ljóst að hjá Reykjavíkurborg hefur lengi verið áhugi á að losna úr þeim selskap, það er bara þannig. En stóriðjudraumarnir, skuldsetningin, stefnan sem eiginfjárhlutfall fyrirtækisins er að taka kemur auðvitað í veg fyrir að það verði á næstu árum. Það er ekkert hægt að rugga þessum báti vegna þess að þá mun lánshæfi fyrirtækisins minnka verulega og þegar eitt stykki sveitarfélag, hvort sem það heitir Reykjavík eða annað, á 45% eignarhlut í fyrirtæki við þær aðstæður þá eru það auðvitað hagsmunir þess sem eiganda að það gangi vel og þá ruggar það ekki bátnum.

Við tillögugerð um mótun orkustefnu fyrir Reykjavíkurborg var gerð grein fyrir nokkrum leiðum sem fara mætti til að minnka hlut Reykjavíkurborgar í raforkuvinnslu Landsvirkjunar. Ein af þeim er að ríkið hreinlega greiði Reykjavíkurborg út eignarhluta sinn eða að Reykjavíkurborg fái afhentan einhvern hluta af eigum Landsvirkjunar og þar hafa Sogsvirkjanir verið nefndar. Eða þá að Reykjavíkurborg eignist stærri hlut í flutningsfyrirtækinu en hún á í Landsvirkjun og taki þannig út sinn eignarhluta og loks að Landsvirkjun yrði breytt í hlutafélag og hlutur Reykjavíkurborgar einfaldlega seldur. Ég vil taka fram af því að ég átti sæti í þeirri nefnd sem undirbjó þessa tillögugerð hjá Reykjavíkurborg að ég var ekki sammála því síðasta þar sem ég tel að ekki eigi að selja hluti í Landsvirkjun á almennum markaði og er sammála hv. þm. Jóhanni Ársælssyni þar um.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar. Það mætti segja margt um þetta flutningskerfi, hversu miklu betra það væri kannski að hafa sjálfstæðan, óháðan kerfisstjóra í því, en ég held að versti kosturinn hafi í rauninni verið valinn og við eigum eftir að súpa seyðið af því á næstu árum og, eins og ég sagði, ráðherrann mun þurfa að vera með sjúkratöskuna hér á þriggja til fimm mánaða fresti ef þessari hugsun og ramma verður ekki gjörbreytt.