131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[15:48]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Þetta er orðin þó nokkur umræða og ég þakka fyrir það. Þetta er stórt mál og margt um það að segja. Það er alveg óhætt að segja það.

Ég reiknaði svo sem með að einhver orð yrðu látin falla um það að ekki væri mikil reisn yfir því að koma hingað með frumvarp til breytinga á raforkulögum þar sem ekki er svo langur tími liðinn síðan við settum nýju lögin. Ég vil geta þess að t.d. í Danmörku þurfti á fyrstu tveimur árunum sex sinnum, held ég, að koma inn með frumvörp til breytinga. Það segir kannski sína sögu um það hvað þetta er gríðarlega mikil breyting sem er verið að gera á raforkukerfi landsins. Það er ekki alveg hægt að sjást fyrir um alla hluti. Þess vegna kemur þetta frumvarp hér inn og hefur í sjálfu sér ekki róttækar breytingar í för með sér. Það er frekar um það að ræða að þegar farið var að vinna í reglugerðum og gjaldskrársetningum kom í ljós að það þurfti að hnykkja á ákveðnum atriðum. Ég tel að hv. þingmenn taki því í sjálfu sér ekkert illa. Þetta er mál sem fer til iðnaðarnefndar og vona ég að það geti fengið hraða meðferð þar. Ég fer ekkert í launkofa með það að þetta mál þarf endilega að nást fram fyrir jól vegna gildistöku um áramótin.

Í sambandi við mál hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar höfum við áður talað um, held ég, u.þ.b. það sama og hann kom hér fram með. Ég veit ekki hvort við eigum að vera að eyða miklum tíma í að fara frekar yfir þau atriði, a.m.k. ekki öll. Hvað varðar það að fá undanþágu frá þessari tilskipun var það reynt áður en fulltrúar borgarinnar fóru að velta þeim hlutum fyrir sér. Reynt hafði verið af hálfu ráðuneytisins að fá undanþágu. Svörin voru þau að ef það væri miklum erfiðleikum undirorpið að innleiða þessa tilskipun væri hægt að hugsa sér að skoða það frekar. Niðurstaða Orkustofnunar á þeim tíma varð að ekki væri um það að ræða og ég er alveg sammála henni. Þótt þetta sé mikil vinna er þetta ekki einhver óvinnandi vegur. Í rauninni finnst mér hafa verið skemmtilegt að fást við þetta mál og ég er alltaf jafnsannfærð um að það eigi fullan rétt á sér og það verði til þess að bæta raforkukerfi okkar. Nú verða hlutirnir miklu meira uppi á borðinu. Við aðgreinum rekstrarþætti og ég leyfi mér að segja að mjög margt í þessu kerfi hefur verið dálítið ósýnilegt og kannski ekki alveg skilvirkt fram til þessa. Það er heldur ekkert launungarmál að það voru ekkert óskaplega margir aðdáendur frumvarpsins hér á landi þegar það kom fyrst fram. Það er eiginlega alveg stórmerkilegt að það skuli þó hafa náð að verða að lögum og vera komið á þann stað í stjórnsýslunni sem raun ber vitni. Ég er þó alltaf jafnhamingjusöm með frumvarpið og lögin og ég held að það hljóti að segja sína sögu.

Hv. þingmaður kom inn á fiskeldismálið og grænmetið. Það er kannski svolítið dæmigert um það að það var ekki allt gert á grundvelli markaðshugsjónar og ekkert nema gott um það að segja en strax á árinu 1987 var samþykktur tímabundinn afsláttur af orku til fiskeldisfyrirtækja til að tryggja samkeppnisstöðu þeirra. Frá þeim tíma hafa Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins og fleiri orkufyrirtæki veitt fiskeldisfyrirtækjum afslátt á raforku, auk þess sem flutningur og dreifing á þeirri orku til fiskeldisins hefur verið verðlagt undir kostnaðarverði. Nú erum við komin inn í það umhverfi að þetta getur ekki verið með sama hætti. Engu að síður notar þessi atvinnugrein jafnt þó nokkuð mikla raforku þannig að ég held að ekki sé útilokað að hægt verði að ná þar góðum samningum. Ég tek samt alveg undir áhyggjur hv. þingmanns, mér fyndist ekki gott til þess að vita að þetta hefði gríðarlega mikil áhrif á þennan rekstur. En það eru bara hlutir sem eru til athugunar núna á milli ráðuneyta. Gjaldskrármálin eru ekki komin það langt að við getum svarað öllum spurningum hvað þau varðar. Um þetta efni fer einmitt þessa dagana fram mikil vinna.

Garðyrkjan er hins vegar með ákveðinn samning. Fjármunir á fjárlögum koma til móts við þann kostnað sem að henni lýtur.

Hv. þingmaður talaði eins og það væri mikið að fara fram á 3% arðsemi en ég held að það sé alveg lágmark til þess að reka fyrirtækið. Það er bæði um það að ræða að þessi fyrirtæki veiti þjónustu en þau þurfa líka að vera í ákveðnum bisness, það er nú ekkert annað en það. (Gripið fram í: Ekki á flutningskerfinu?) Nei, ég meina að þegar búið er að markaðsvæða raforkukerfið sem slíkt erum við að fara inn í samkeppnisumhverfi sem hlýtur að þýða að lögmál viðskiptalífsins gilda þar. Svo er aftur annað sem ræður för með flutningskerfi og dreifikerfi. Við þekkjum það og þarf ekki að fara frekar yfir það.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði um Rarik og var með ýmsar vangaveltur um framtíðarskipulag þessara mála sem er mjög eðlilegt að spurt sé um. Ég er ekki í aðstöðu til að svara miklu um það í dag en þetta eru hlutir sem við erum að sjálfsögðu að vinna að í iðnaðarráðuneytinu. Vonandi geta fljótlega legið fyrir línur um það hvernig við sjáum framtíðina fyrir okkur í þessum geira. Það er ljóst að ríkið er hreyfiaflið. Ríkið á tvö fyrirtæki að fullu og helminginn í Landsvirkjun. Það er ekki hægt að sjá fyrir sér framtíðina óbreytta, í því held ég að ég geti verið sammála hv. þingmanni. Mér fannst hann hafa þá skoðun að svo væri ekki.

Með reglugerðir gengur þannig að þær eru þrjár á lokastigi. Samráð hefur verið haft við raforkugeirann í því sambandi og ekki er ólíklegt að iðnaðarnefnd geti fengið frekari upplýsingar um það þegar málið kemur til hennar.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir var með ákveðnar skoðanir sem ég er ekki sammála en eiga að sjálfsögðu rétt á sér eins og allar skoðanir. Ríkisrekstrarhugsjónin var dálítið ofarlega í huga hennar. Ég vil ítreka hvað varðar flutningskerfið að ekki verður breyting þar á nema þá að lögunum verði breytt, þ.e. nema um sé að ræða að breytingar verði á eignarhaldi innan fyrirtækisins. Það þarf ný lög til þess að selja. Það varð niðurstaðan eftir meðferð málsins hér.

Í Danmörku eru reyndar fleiri en eitt flutningskerfi og þess vegna þarf sjálfstæðan kerfisstjóra þar. Þar sem við erum bara með eitt flutningskerfi höfum við kerfisstjórann innan þess.

Finnska flutningskerfið er hlutafélag. Það var ekki nefnt hér en ágætt er að halda því til haga.

Ég held að ekki sé fleira sem ég þarf að bregðast við. Þetta eru aðalatriðin að mínu mati. Ég gæti þess að fara ekki dýpra ofan í ágreiningsmálin af því að það er vel liðið á föstudag og ég held að við bætum okkur ekkert með því í rauninni. Við erum bara ekkert alveg sammála um hvort rétt hafi verið að fara út í þessa breytingu. Þó að þessi tilskipun hefði ekki komið til held ég að það sé nokkuð ljóst að við Íslendingar hefðum gert breytingar á fyrirkomulagi okkar, t.d. hvað það varðar að Landsvirkjun hafi ekki einkarétt á því að virkja fallvötn okkar. Mér finnst að það hefði ekki getað verið fyrirkomulag til framtíðar.

Ég trúi því að það verði samkeppni og hún er þegar hafin. Voru ekki Orkuveitan og Hitaveita Suðurnesja að gera samning við Norðurál í sambandi við stækkun þar? Þetta er bara nýtt í raforkuumhverfi okkar. Það má segja að samkeppnin sé komin á og hún mun halda áfram. Á því held ég að sé ekki nokkur vafi. Miðað við það að þessi fyrirtæki eru orðin jafnsterk og raun ber vitni hafa þau fulla burði til að keppa á markaðnum og þar höfum við fyrirtækið Landsvirkjun vonandi áfram.