131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[15:58]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hygg að allir þeir sem um þessi mál fjalla séu á einu máli um það að alger forsenda fyrir því að einhver samkeppni ríki á raforkumarkaði sé að Reykjavíkurborg, stærsta sveitarfélagið í landinu, sé ekki annars vegar aðaleigandi Orkuveitu Reykjavíkur og um leið helmingseigandi í Landsvirkjun. Ég vil þess vegna inna hæstv. ráðherra eftir viðræðum hennar við borgaryfirvöld í Reykjavík um breytingar á eignarhaldi Landsvirkjunar: Hvernig miðar þeim, eru uppi einhverjar hugmyndir um breytingar í því efni sem ráðherrann bindur vonir við og hvenær megum við þá vænta niðurstöðu úr þeim viðræðum?

Sömuleiðis spyr ég hvort eignarhald ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja sé ekki tímaskekkja nú við hin nýju raforkulög og hvort það sé ekki álit hæstv. ráðherra að löngu sé tímabært að ríkið selji eignarhlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja og reyni þar með að fækka þeim fyrirtækjum sem það á aðild að vegna hinna eðlilegu samkeppnissjónarmiða á þessum markaði í ljósi nýrra laga.