131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[16:02]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að vinnan sé það vel á veg komin að það sé ekki ástæða til að tala um frestun á gildistöku í þessu sambandi. Eins og ég sagði áðan eru reglugerðir langt komnar. Ég held að þetta verði tilbúið nógu snemma til að allt verði eins og áformað er.

Varðandi það að losa um eignarhald Reykjavíkurborgar þá ætla ég ekki að svara því beint. Ég tel þó að það sé rétt, sem hefur komið fram hjá ýmsum og m.a. hjá Verslunarráðinu nýlega, að það sé í raun ekki í samræmi við áform nýrra raforkulaga, sem ganga út á að taka upp samkeppni í vinnslu á raforku, að Reykjavíkurborg sé svo stór aðili í Landsvirkjun þar sem hún á Orkuveituna.