131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[16:10]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði áðan. Þetta er sannarlega stórt mál. Ég vona sannarlega að niðurstaðan verði sú að jafnræði verði haft í huga og möguleikar til að nýta auðlindir verði þannig að allir hafi sömu tækifæri til að komast þar að, það verði ekki geðþóttaákvarðanir eða fegurðarsamkeppni á vegum ráðuneyta sem ráði því hverjir fái virkjunarleyfi í framtíðinni.

Það sem ég átti við með alvörusamkeppni var að ég hef orðið var við það, m.a. af hálfu forráðamanna fyrirtækja í þessum bransa, að þeir telji það geta orðið mjög alvarlegt ef farið verður að virkja og bjóða orku á markaði í miklu magni til að ná þar markaðshlutdeild. Þeir óttast að engar hömlur verði á slíkri samkeppni, einfaldlega vegna þess sem ég benti á í fyrri ræðu minni.