131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Stuðningur við stríðið í Írak.

[15:03]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna þeirra tíðinda sem áttu sér stað í gær þegar hv. þm. Hjálmar Árnason, sem því miður er ekki kominn til fundar, lýsti því yfir í ljósvakamiðlum og í Morgunblaðinu í morgun að hann vildi endurskoða allt ferlið í kringum stuðninginn við Íraksstríðið svokallaða og væri opinn fyrir því að fara í gegnum allt stafróf málsins og talar þar með mjög í anda þess sem við í stjórnarandstöðunni höfum gert allt frá byrjun, allt frá 20. mars fyrir hálfu öðru ári, þegar innrásin var gerð. Vekur það alveg sérstaka athygli að hér talar formaður þingflokks Framsóknarflokksins og forustumaður í hópi þingmanna þess flokks á Alþingi. Hann lætur þess að vísu getið í prentmiðli í morgun, Morgunblaðinu, að hann tali fyrir sjálfan sig en ekki fyrir hönd þingflokksins. Engu að síður hljóta það að teljast tíðindi þegar stjórnarliðar eru að týna tölunni í þeim staðfasta stuðningi við innrásina í Írak forðum daga.

Það er líka eftirtektarvert að hv. þm. lætur þess getið — og kemur hann nú í salinn og komi hann fagnandi. Ég vil sérstaklega nota tækifærið og hæla honum fyrir það pólitíska þrek sem hann sýnir með þeim hætti að láta samvisku sína ráða för. En hann segir í Morgunblaðinu í morgun orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég er ekki með neinar samþykktir á bak við mig, enda engar samþykktir um þetta gerðar á vegum flokksins, hvorki í upphafi né síðar.“

Þetta eru tíðindi út af fyrir sig. Framsóknarflokkurinn hefur ekki á einu og hálfu ári gert nokkra samþykkt um stuðning við Íraksstríðið eða ekki stuðning og það vekur auðvitað sérstaka athygli.

Ég vil að lokum hæla hv. þm. og vænti þess að hann sé fyrstur af fleirum sem komi í lið okkar stjórnarandstæðinga í þessum efnum.