131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Stuðningur við stríðið í Írak.

[15:08]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra svaraði því ekki þó hann hefði fullt tilefni til þess hvort hann er sammála hv. þm. Hjálmari Árnasyni, formanni þingflokks Framsóknarflokksins, um að upplýsingarnar sem veittar voru við upphaf stríðsátaka hafi verið fáfengilegar, villandi og rangar. Þó hefðu honum verið hæg heimatökin að gera það því hæstv. forsætisráðherra hefur sjálfur lýst því yfir í viðtölum. Það má m.a. lesa um það í greinargerð með tillögu sem hefur verið flutt á þinginu um breytingu á þeirri stefnu sem þeir tveir hæstv. ráðherrar sem hér sitja hlið við hlið, höfðu reyndar stólaskipti á milli, tóku í upphafi Íraksstríðsins en hvorugur ráðherranna sá sér fært, og er þó annar undanskilinn vegna forfalla, en hinn, hæstv. forsætisráðherra, sá sér ekki fært að vera við fyrri umr. um þá tillögu. Hann hefur því engu svarað um það. Hann hefur ekki skýrt það fyrir þinginu hvernig stendur á þessu, hvort þær voru rangar eða hvort þær voru réttar. Hann spyr aðra, forsætisráðherrann sem tók þá afstöðu einn saman án nokkurs leyfis og sennilega þvert á landslög, sennilega þannig að hann ætti að segja af sér þessi maður vegna þess að hann hefur brotið þingskapalögin sem eru landslög. Hann hefur ekki skýrt það fyrir okkur og hann kemur upp í stólinn og segir okkur ekki einu sinni hvort hv. þm. Hjálmar Árnason er skilinn við flokkinn eða hvort hann er enn þá í heitum ástartengslum við hann.

Maður hlýtur að spyrja hv. formann Framsóknarflokksins að því hvort maður af þessu tagi, maður eins og hv. þm. Hjálmar Árnason, geti verið áfram í nefndum eða ekki, því ekki virðist hann tala sjálfur þessi Hjálmar og hefur kannski verið settur í bann eins og títt er um menn í þingliði framsóknarmanna, þá sem ekki eru með í liðinu hverju sinni.