131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Stuðningur við stríðið í Írak.

[15:10]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hrósa hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir hugrekkið, fyrir að voga sér, andspænis þeim herrum sem hafa farið með eldi og brennisteini gagnvart þeim flokksmönnum Framsóknarflokksins sem hafa leyft sér að hafa sjálfstæða skoðun, að lýsa því yfir að það komi til greina að endurskoða stuðninginn við innrásina í Írak. Egill Helgason spyr hv. þm. að því í sjónvarpsþætti, með leyfi forseta: „En finnst þér koma til greina að taka okkur af þessum lista?“ Og hv. þm. Hjálmar Árnason svarar: „Ég segi bara já við því.“

Þetta er djarflega mælt og ég hrósa hv. þm. fyrir það. Hann mun fá tækifæri til að láta þá afstöðu koma fram í þinginu því það vill svo til að hér er til umræðu í frestun í þinginu tillaga frá okkur þremur formönnum stjórnarandstöðuflokkanna nákvæmlega um þetta, að Ísland verði með táknrænum og formlegum hætti tekið af þessum lista.

Það er alveg rétt sem hæstv. forsætisráðherra segir. Samfylkingin var á móti innrásinni. Munurinn á forsætisráðherra Íslands á annan bóginn og forsætisráðherra Dana á hinn bóginn er sá að forsætisráðherra Dana hleypur ekki á flótta undan umræðunni eins og hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson. Það hefur ekki verið hægt að leiða umræðuna til lykta í þinginu vegna þess að íslenski forsætisráðherrann þorir ekki í hana. Það sama er ekki hægt að segja um hæstv. utanríkisráðherra. Hann hefur ekki skirrst við að fara í hana. Munurinn á Dönum og okkur er sá að í danska þinginu fá menn að ræða þetta. Hér fá menn ekki að ræða þetta og spurt er um stefnu íslenskra stjórnvalda. Hún er kannski ekki til formlega því það var engin ákvörðun tekin í þingflokkum stjórnarinnar og engin umræða fór fram í ríkisstjórninni heldur. Það hefur komið fram.