131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Stuðningur við stríðið í Írak.

[15:12]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Það á sér hvergi í heiminum stað umræða af þessu tagi nema hér. Að taka landið af listanum yfir staðfastar þjóðir sem landið var á áður en til stríðsins kom, það fer enginn svona vitleysisumræða fram nema hér. Og hv. þm. Hjálmar Árnason var í þætti þar sem var yfirgengilega vitleysisleg umræða. Hann sýndi mikið þrek að vera í þættinum jafnlengi og hann var og talaði manna skynsamlegast í þættinum. Ég tel að allt of mikið sé úr orðum hans gert þó að hann segi í þætti af þessu tagi að hann geti skoðað alla hluti og alla þætti. Hvað er að því að þingmaður lýsi slíku yfir?

Ég tek bara dæmi af sjálfum mér. Ég fór á Landspítalann og það var skorið úr mér krabbamein og ég þurfti að samþykkja það fyrir fram áður en það var gert. Það var ekki nákvæmlega vitað hvað út úr því mundi koma. Hvað mundu menn segja uppi á Landspítala ef ég kæmi þangað til að taka til baka samþykki mitt fyrir uppskurði? Það yrði bara litið á mig sem hvert annað fífl vegna þessarar umræðu. Vitanlega dettur engum þetta í hug nema Samfylkingunni að fara þessa leið. Og þegar menn tala um að þarna hafi einhverjir menn skrökvað. Það er algerlega ljóst að leyniþjónusta Breta og Bandaríkjamanna voru ekki með nægilega markvissar og skynsamlegar skýringar og upplýsingar. En búið er að rannsaka það í báðum ríkjunum með lýðræðislegum hætti og viðurkennt bæði af stjórn og stjórnarandstöðu að hvorug ríkisstjórnin laug nokkru til og við byggðum auðvitað á því. Við vildum að krabbameinið Saddam Hussein yrði skorið í burtu og síðan hæfist endurhæfing. Það eru allir með endurhæfingunni í Írak nema Samfylkingin á Íslandi. Norðmenn sem ekki voru með standa núna með því sem er að gerast í Írak. En Samfylkingin er eins og gamall afturhaldskommatittsflokkur og ætlar sér aldrei að verða stór og getur þess vegna ekki stutt verðugt verkefni eins og þetta.