131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Stuðningur við stríðið í Írak.

[15:17]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Ef það að opna hér umræðu um Írak og tilurð Íraksinnrásarinnar hinn 20. mars þýðir að ég verði hér uppnefndur afturhaldskommatittur, kratinn úr Hafnarfirði, verður svo að vera. Það breytir ekki hinu að ég mun halda áfram að halda á lofti þessari umræðu hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Ef menn kjósa að fara í gamla kaldastríðshaminn um komma, krata og íhald og allt það hér verður það líka svo að vera.

Það liggur algjörlega ljóst fyrir í hverju þessi umræða er fólgin og hún er tekin í þjóðþingum um alla Evrópu, núna síðast í breska þinginu eru menn að reyna að grafast fyrir um það hvort ákvörðun hafi verið tekin af yfirvegun og samkvæmt réttustu upplýsingum hverju sinni.

Og hver var það annar en þessi maður, hæstv. forsætisráðherra, sem viðurkenndi á góðri stundu að hann hefði gert mistök en er nú ekki maður til þess að gera það úr þessum stóli hér, sem þó hv. þm., formaður þingflokks hans, gerir með viti bornum hætti? Hafi hann aftur hrós fyrir.

Ég var hér að vekja athygli á því að menn eru farnir að horfast í augu við veruleikann eins og hann var fyrir hálfu öðru ári og hafði vonast til þess að menn væru komnir úr þessu fari kalda stríðsins. Því miður er ekki svo.

Það veit hver einasti maður og það er búið að staðfesta hér mörgum sinnum að Samfylkingin styður vitaskuld Sameinuðu þjóðirnar í uppbyggingu í Írak. Það gefur augaleið, landið er í rjúkandi rúst eftir þau átök sem þar hafa farið fram og vitaskuld er það skylda okkar allra að freista þess að byggja þar upp með viti bornum hætti. (Forseti hringir.)

Ég hafði, virðulegi forseti, von til þess að þessi umræða (Forseti hringir.) gæti verið á málefnalegum grunni en verð víst að viðurkenna að það er erfitt að koma því heim og saman þegar þetta mál er nefnt. (Forseti hringir.)