131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Stuðningur við stríðið í Írak.

[15:21]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ef rétt er eftir haft sem varla verður lengur dregið í efa þar sem þingflokksformaður Framsóknar mælir að Framsóknarflokkurinn hafi engar samþykktir gert um aðildina að Íraksstríðinu er hann þar með annar þingmaður flokksins sem staðfestir það. Kristinn H. Gunnarsson hefur staðfest það áður, og fékk frekar bágt fyrir.

Það er algjörlega ljóst að mikill meiri hluti íslensku þjóðarinnar var andvígur því að við færum inn í Írak og styddum þar aðgerðir. Það þýðir ekki að við munum ekki sem þjóð leitast við að reyna að bæta með einhverjum hætti fyrir þær ógurlegu hörmungar sem þar hafa átt sér stað. Það er algjörlega rétt sem hér hefur verið orðað að það er orðið stórt spurningarmerki hvort Bandaríkjamenn séu ekki að fremja stríðaglæpi í Írak eins og málin hafa þróast þar á undanförnum dögum og vikum.

Sífellt fleiri rök falla sem sagt að því að ákvörðunin sem tekin var af forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna hafi verið tekin af þeim tveimur. Ég lít svo á, ef rétt er eftir haft, sem ég hirði ekki en var sagt í þessum ræðustól áðan, eftir formanni þingflokks Framsóknarflokksins, að engar samþykktir hafi verið gerðar í Framsóknarflokknum, tel ég að verið sé að byggja undir þau rök enn frekar að málið hafi allt átt uppruna sinn á þann hátt að það hafi ekki verið lýðræðisleg ákvörðun og meiri hluti fyrir henni.